Jólin heima - Geir Kristinn Aðalsteinsson segir frá

Bræðurnir Geir og Sigurpáll eldhressir við jólatréð    Myndir úr safni
Bræðurnir Geir og Sigurpáll eldhressir við jólatréð Myndir úr safni

Það er enginn annar en Geir Kristinn Aðalsteinsson framkvæmdastjóri mannauðs og markaðssviðs Hölds  sem rifjar upp og segir okkur sögur  af jólahaldi í hans fjölskyldu.

Jólin heima.

Jólin eru æðisleg.  En þau eru æðisleg á mismunandi máta eftir því hvar á æviskeiðinu maður er staddur.  Í dag finnst mér þau æðisleg vegna þess að maður nær að slaka á með fólkinu sem maður elskar og maður lærir að meta hvað fjölskyldan er manni dýrmæt.  Borða góðan mat, kúpla sig út úr amstri hversdagsins með því að lesa góða bók og meira að segja tölvupósturinn og síminn sýna þá virðingu að vera ekkert að trufla mann.  Æðislegt.

Þegar ég var ungur fannst mér þau æðisleg af allt öðrum ástæðum.  Það sem gerði jól að jólum voru pakkar, nammi, ís, frí í skólanum, seint að sofa, sofa út, meira nammi og síðast en fjarri því síst, fjölskylduboðin hjá ömmum og öfum.  Palli frændi með leiki fyrir unga sem aldna og mikið fjör.  Í minni fjölskyldu voru þessi fjölskylduboð mörg og löng í minningunni og mér er til efs að mamma og pabbi hafi haft tíma til að slaka á, kúpla sig út úr amstri hversdagsins með því að lesa góða bók og allt það.

Palli Sigurgeirss leikjastjóri

Ég er svo heppinn að koma af fólki sem hefur húmor fyrir sjálfum sér.  Það er ansi margt sem gerðist á samverustundum fjölskyldunnar um jólin í æsku minni sem orðið er að ódauðlegum sögum sem oft eru rifjaðar upp þegar fjölskyldan hittist.

Það var siður hjá Steinunni langömmu minni í jólaboðinu í Hraungerði að öll barnabörnin færu í röð fyrir framan hana þar sem hún sat í ruggustólnum sínum.  Sá fremsti í röðinni tók svo á móti peningaseðli frá langömmu og svo koll af kolli.  Tilfinningin var eins og maður gæti keypt allan heiminn, enda sá maður ekki peningaseðla á hverju degi.  Aldrei klikkaði talningin hjá langömmu og allir fengu sinn seðil.  Nema reyndar eitt árið.  Sigurpáll bróðir, sem var aftastur í röðinni, fékk nefnilega engan seðil.  Greyið langamma var miður sín og trúði ekki sínum eigin augum, hún hafði aldrei klikkað á talningunni.  Það kom svo reyndar í ljós að það gerði hún heldur ekki þessi jól.  Pabbi okkar Sigurpáls, Aðalsteinn skáld frá Bakkaseli eins og hann kallar sig á tyllidögum, hafði nefnilega farið í röðina krjúpandi á hnjánum og gekk þannig þar til kom að honum að fá peningaseðil.  Það er reyndar hæpið að hann hefði þurft að krjúpa, það er ekki eins og hann þurfi að beygja sig undir hurðakarma vegna hæðar.

Steinunn langaamma sem dreifði peningaseðlum

 

Bakkaselló er svona mönnuð frá vinstri:  Sigurgeir Heiðar Sigurgeirsson, Einar Logi Benediktsson, Geir Kr. Aðalsteinsson, Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, Sigurgeir Valsson (í fangi Sigurpáls), Guðmundur Benediktsson, Aðalsteinn Ingi Pálsson

 

Það var líka í Hraungerðinu sem litli bróðir, hann Heiðar Þór, var orðinn ansi vanur góðri þjónustu.  Yfirleitt var maður varla búinn að klæða sig úr skónum þegar Lóa amma var búin að bjóða manni ís.  Eitt sinn um jólin þegar amma var upptekin við að gera hlaðborð fyrir 30 manns fannst litla bróður biðin eftir ísnum óþarflega löng.  Pikkar hann þá í Geira-afa og segir rannsakandi á svip, „afi, ég finn íslykt“. 

Það var líka hann Heiðar Þór sem var búinn að fara samviskusamlega með Faðirvorið í nokkur ár, jafnt um jól sem sumar, þegar pabba fannst byrjunin eitthvað skrýtin og bað hann að endurtaka fyrstu línuna.  „Það er vor“.

Lóa amma í eldhúsinu

Möndlugrauturinn í foreldrahúsum var hluti af jólum minnar æsku.  Það er töluvert keppnisskap í fjölskyldunni og því var nokkuð stórt að vinna möndluna og verðlaunin sem því fylgdi.  Ein jólin kom babb í bátinn þegar mamma uppgötvaði að hún átti ekki möndlu til að setja í grautinn.  Pabbi var þá ekki lengi að redda málunum, enda úrræðagóður með eindæmum.  Hann fann til hvítan brjóstsykurmola með perubragði í stað möndlunnar.  Mögulega hefði þetta þjóðráð geta gengið ef pabbi hefði sett molann í eina skálina, en nei hann setti hana í pottinn.  Ákefðin í sigur var það mikil að grauturinn kláraðist, hvert einasta grjón.  En aldrei fannst molinn, enda bráðnaður saman við grautinn í heitum pottinum.  En við erum þó allavega búin að prófa mjólkurgraut með perubragði.

Mamma mín er snillingur.  Svo mikill snillingur að ég gæti sennilega fyllt heilt tölublað af Vikublaðinu með sögum af Önnu í Bót.  Ég myndi kannski segja söguna af því þegar heyrnalausi maðurinn kom tíunda árið í röð að selja happdrættismiðana og mamma sagði í tíunda skiptið „No thank you“ þrátt fyrir að hún hafi ætlað að kaupa miða. Jú jú sölumaðurinn var líka íslenskur.  En ég bíð með þá sögu og segi ykkur frekar jólasögu af því að nú eru jólin.  Mamma er svolítið (mikið) stressuð týpa.  Hún skrifaði hér áður fyrr mikið af jólakortum til hinna og þessa, marga tugi ef ekki hundruð.  Hún á systir í útlöndum og þurfti því að kaupa 80 frímerki innanlands og eitt erlendis.  Hún hneykslaðist svo á verðlaginu við pabba þegar heim var komið og var síður en svo sátt við Póstinn.  Kannski hafði verðið eitthvað með það að gera að hún keypti eitt frímerki innanlands og 80 erlendis.  Næstu jól á eftir skrifaði mamma svo samviskusamlega á nokkra tugi jólakorta og fór með í póst.  Næstu daga komu óvenju margir tugir jólakorta í Móasíðuna og mamma var rosa hissa hvað hún var vinsæl.  Umslögin voru svo reyndar öll merkt hinu ýmsasta fólki, sem hún þekkti reyndar allt.  Mamma blessunin hafði þá skrifað sitt eigið heimilisfang á öll jólakortin sem hún fór með í póst.

Lóa amma, Anna Gréta móðir mín, Hanna Sigurgeirsdóttir og maki hennar Ragnar Daníelsson

Ein af mínum uppáhalds jólaminningum er svo þegar stórfjölskyldan fór í handbolta í Höllinni um jólin.  Skipt var í tvö lið, Lóa amma og Geiri afi saman í liði.  Skóda-Geiri hafði reyndar engan áhuga á að vera með, ekki frekar en þegar spiluð var félagsvist heima í Hraungerði.  „Er ekki oddatala, á ég ekki bara að sitja hjá?“.  En afi var settur í lið.  Ekki mikill boltamaður, hafði nákvæmlega engan áhuga á íþróttum.  Einhverra hluta vegna var Lóa amma sett í markið í sínu liði.  Afi var í miðri vörninni fyrir framan hana með hendur upp í loft.  Eftir smá klafs barst boltinn óvænt til afa og samherjar hans þutu af stað í hraðaupphlaup og kölluðu á boltann.  Afi var hins vegar kappsfullur mikið þegar hann var loksins kominn með boltann, snéri sér við á punktinum og þrumaði boltanum í netið svo hann straukst við eyrað á ömmu sem átti sér einskis ills von, enda voru þau samherjar.  Eina markið sem afi skoraði á sínum íþróttaferli var sem sagt sjálfsmark í handbolta þegar hann hausaði ömmu.

Skóda Geiri og Sigurgeir Heiðar sonur hans

Já jólin eru æðisleg og það er dýrmætt að sjá jól nútímans með augum barnanna sinna.  Leyfa þeim að sofna seint, borða óhollt og segja þeim sögur af misrugluðum fjölskyldumeðlimum.

 Ást og friður, Geir Kristinn Aðalsteinsson.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast