„Íslenska þjóðlagatónlistin er oft tilfinningaþrungnari og tregafyllri“

Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristin Farstad Bjørdal. Mynd/aðsend
Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristin Farstad Bjørdal. Mynd/aðsend

Tvær upprennandi tónlistarkonur, harmóníkuleikarar standa fyrir tónleikaröð á Norðurlandi í september.

Þetta eru þær Ásta Soffía Þorgeirsdóttir frá Húsavík og Kristin Farstad Bjørdal frá Álasundi í Noregi en Álasund er vinabær Akureyrar.

„Við höfum sett saman tónleikaprógram sem sýnir margbreytileika harmóníkunnar og svo fáum við líka innblástur frá því hvernig ástsæld harmóníkunnar er eitt af því sem hefur verið sameiginlegt á milli Íslands og Noregs. Harmóníkan var virkilega hljóðfæri alþýðunnar (sérstaklega í Þingeyjarsýslu) og okkur þykir mjög vænt um þá hefð á sama tíma sem við tökum harmóníkuna áfram og spilum allskonar tónlist - klassík, barrokk og fleira,“ segir Ásta Soffía og bætir við að með tónleikaröðinni leitist þær við að setja harmóníkuhefðina í samhengi við þjóðlagahefð beggja landanna, Íslands og Noregs.

Harmóníkudúettinn gengur undir nafninu Storm Duo og tónleikaröðin nefnist Traces og Tradition og gengur út á að varðveita og miðla norskri og íslenskri þjóðlagahefð.

„Menningartengsl Íslands og Noregs eru sterk og á gömlum grunni. Til hliðar við það er hin langa hefð þjóðlagatónlistarinnar í báðum löndum þar sem íslenska þjóðlagatónlistin er oft tilfinningaþrungnari og tregafyllri, á meðan sú norska býður oftar en ekki upp á léttleika og einfaldleika en einnig stundum trega. Á meðal beggja þjóðanna hefur þjóðlagatónlistin veitt hugarró og hughreystingu og er eins og endurómur radda fyrri tíma,“ segir Ásta Soffía

Tónleikarnir fara fram eins og hér segir:

14. september í Þórshafnarkirkju, Þórshöfn.

15. september í Húsavíkurkirkju, Húsavík.

16. september í Ketilshúsinu, Akureyri.

18. september í húsnæði brugghússins Seguls 67, Siglufirði.

Allir tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.


Nýjast