Íslandsmeistari í málmsuðu

Frá vinstri; Andri Már Ólafsson, Víðir Orri Hauksson og Íslandsmeistarinn Andre Sandö. Mynd/VMA.
Frá vinstri; Andri Már Ólafsson, Víðir Orri Hauksson og Íslandsmeistarinn Andre Sandö. Mynd/VMA.

Andre Sandö, starfsmaður Útrásar á Akureyri, stóð uppi sem sigurvegari í Íslandsmeistaramótinu í málmsuðu sem var haldið var nýverið í húsnæði málmiðnaðarbrautar VMA. Málmsuðufélag Íslands stóð fyrir keppninni í samstarfi við Iðuna fræðslusetur, VMA og Félag málmiðnaðarmanna Akureyri.

Ellefu þátttakendur voru á mótinu að þessu sinni og starfa þeir allir í málmiðnaði á Akureyri. Tíu af ellefu hafa verið eða eru í námi á málmiðnaðarbraut VMA. Frá þessu er greint á vef VMA. Þátttakendur í mótinu voru þeirAndre Sandö, Einir Þ. Kjartansson og Hermann Kr. Egilsson frá Útrás, Arnar Freyr Gunnarsson, Vignir Sigurðsson og Brynjar H. Sveinsson frá Norðurstál og þeir Adam Snær Atlason, Víðir Orri Hauksson, Ivan Atanasov Pashev og Andri Már Ólafsson frá Slippnum.

Undanfarin ár hefur verið forkeppni á Akureyri og síðan hefur lokakeppnin farið fram í Reykjavík. Nú var ákveðið að snúa þessu við, að hafa forkeppni í Reykjavík og lokakeppnina á Akureyri. Keppnin hófst um kl. 13 sl. föstudag og fengu þátttakendur fjögur verkefni til þess að glíma við; í TIG-suðu, logsuðu, MAG-suðu og pinnasuðu. Í heildarkeppninni varð Andre Sandö frá Útrás stigahæstur og er því Íslandsmeistari í málmsuðu. Víðir Orri Hauksson frá Slippnum varð í öðru sæti og Andri Már Ólafsson einnig frá Slippnum varð í þriðja sæti.

Slippurinn vann liðakeppnina en stigahæstir voru þeir Víðir Orri, Andri Már og Ivan Atanasov. Jóhann Rúnar Sigurðsson, formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, segir á vef VMA að mikilvægt sé að hlúa að málmsuðu og því sé Íslandsmeistaramótið afar gagnlegt til þess að vekja athygli á greininni og ánægjulegt sé að mótið hafi verið haldið á Akureyri.

 


Nýjast