„Í æsku las ég allt sem ég komst yfir“

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings er Bókaormur vikunnar. Mynd/epe.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings er Bókaormur vikunnar. Mynd/epe.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings er fædd í Borgarfirði og varði þar æsku sinni. Hún gekk í heimavistarskóla frá 6 ára aldri í Varmalandi, síðan í Reykholti og loks í Samvinnuskólanum á Bifröst. Þar kynntist Hún eiginmanni sínum Hauki Snorrasyni frá Árskógsströnd, þau fluttu til Dalvíkur 1988 og hófu þar búskap saman. „Í byrjun ágúst fluttum við hjónin til Húsavíkur og kunnum okkur strax vel hér. Í æsku las ég allt sem ég komst yfir og til var ritað á heimilinu. Í seinni tíð er lesturinn mest tengdur vinnunni en mér finnst samt alltaf gaman að grípa í skáldsögur þegar tími vinnst til,“ segir Katrín sem er Bókaormur vikunnar.

 Hvaða bók er á náttborðinu núna?

Ég er ekki með bók á náttborðinu eins og er. Viðfangsefnið núna eru hljóðbækur sem ég hlusta á yfir prjónaskap og stundum tekur mig margar vikur að ljúka heilli bók. Núna er ég að hlusta á Bréfið eftir Kathryn Hughes sem segir sögu tveggja kvenna sem fæðast með nokkurra ára millibili en engu að síður liggja leiðir þeirra saman og kvalræði annarrar þeirra verður hinni til bjargar. Bókin lofar góðu en ég er nýbyrjuð á henni. Áður hlustaði ég á bækurnar hennar Ásdísar Höllu Bragadóttur, Tvísaga og Hornauga, og Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Ólíkar bækur en mjög áheyrilegar og áhrifamiklar.

 Hvaða bók lastu síðast?

Í sumar náði ég loksins að lesa jólabókina mína. Það var Sigurverkið eftir Arnald Indriðason, söguleg skáldsaga sem gerist á sunnanverðum Vestfjörðum og í Kaupmannahöfn á 18. öld. Mjög vel rituð heimild um líf venjulegs fólks á Íslandi á öldum áður, sem jafnframt harðri lífsbaráttu þurfti að óttast harðræði yfirvalda bæði á Íslandi og í Danaveldi.

Bókin var í nýjum takti m.v. aðrar bækur Arnaldar en hann hefur alltaf verið einn af mínum uppáhalds rithöfundum.

Uppáhalds bók

Það er erfitt að velja eina bók og ég ætla að leyfa mér að velja tvær seríur.

Sonur minn nauðaði í mér í nokkur ár um að lesa bækurnar um Harry Potter. Þegar síðasta bókin var á leiðinni lét ég loksins til leiðast. Það tók mig um 60 blaðsíður af fyrstu bókinni að detta inn í hugarheiminn og sögusviðið og ég hreinlega át bækurnar í kjölfarið. Alveg mögnuð skrif hjá J.K.Rowling og gaman hvernig persónur sem manni fannst ekkert skipta máli framan af fléttuðust inní söguna í lokin.

Bækurnar um Precious Ramotswe eftir Alexander McCall Smith, sem byrja á Kvenspæjarastofu númer eitt og gerast í Botsvana, eru alveg frábærar. Ég hef verið mikið í Afríku og höfundinum tekst flétta saman spennandi atburðarás og húmor en um leið að draga upp mjög sannfærandi mynd af daglegu lífi í Afríku. Mæli með báðum þessum bókaflokkum fyrir lesþyrsta.

Uppáhalds rithöfundur?

Ólafur Jóhann Ólafsson er minn uppáhalds rithöfundur. Það er eitthvað við frásagnarstílinn sem er mjög ljóðrænn, færni í íslensku málfari og ritsnilld sem nær í hjartað í mér í hverri bók sem hann skrifar. Mér skilst að Baltasar Kormákur sé að gera mynd eftir Snertingu. Sú bók er snilld eins og aðrar bækur Ólafs Jóhanns. Ég hlakka til að sjá þá mynd þótt það náist aldrei sömu hughrif eða dýpt í bíómyndum eins og í bókunum sjálfum.

Greinin birtist fyrst í 39. tölublaði Vikublaðsins

Athugasemdir

Nýjast