Hús vikunnar: Setberg; Hamragerði 15.

Í síðustu viku var umfjöllunarefnið Skarð við Hamragerði, en spölkorn norðar við sömu götu eða við Hamragerði 15 stendur  annað fyrrum býli, Setberg. En það var árið 1934 sem Sigurður Jóhannesson fékk úr landi Skarðs, tvær dagsláttur og stofnaði þar býlið Setberg. Byggði hann m.a. íbúðarhús úr steinsteypu og stendur það enn.

Setberg er einlyft steinsteypuhús með lágu risi og stölluðu bárujárni á þaki. Að norðanverðu er  viðbygging með einhalla aflíðandi þaki.   Sigurður Jóhannesson  stundaði hér búskap í rúma tvo áratugi eða til dánardægurs. Þegar mest var komst bústofninn í Setbergi upp í 12 kýr og 40 kindur. Kýrnar voru hýstar um tíma í kjallara hússins en annar bústofn í útihúsum sem eru löngu horfin. Sigurður lést árið 1957 og þá hefur búskapur væntanlega liðið undir lok en í bókinni Byggðir Eyjafjarðar telst Setberg fara í eyði þá.

En húsið sem slíkt er aldeilis ekki í eyði, það er nú einbýli og er í góðu ásigkomulagi. Byggt var við húsið til norðurs árið 1966 og þá var reistur bílskúr á lóðinni um 1978. Þá stendur enn súrheysturn eða grunnur af honum norðan við húsið og sést hann frá Dalsbraut. 

Þeim sem þetta ritar þykir alltaf eitthvað heillandi við hús á borð við Setberg; fyrrum sveitabýli sem standa innan um yngri byggð. Þau eru e.k. minnisvarðar um þá byggð og bú, sem áður voru og setja yfirleitt skemmtilegan svip á nærumhverfi sitt.  Það á svo sannarlega við um Setberg þar sem hús og lóð eru þar að auki í góðri hirðu og líta vel út. Myndin er tekin þann 2. feb. 2013.

 


Athugasemdir

Nýjast