Hús vikunnar: Lundargata 15

Lundargata er ein af þvergötunum sem liggja til norðurs frá Strandgötu á Oddeyrinni. Hún hefur þá skemmtilegu sérstöðu, að öll hús við götuna nema tvö eru byggð á 19. öld. Eitt þeirra er Lundargata 15. Húsið byggði Jósep Jónsson ökumaður árið 1898. Húsið er tvílyft timburhús á háum steyptum kjallara og með lágu risi. Bárujárn er á þaki en steinblikk á veggjum og þverpóstar í gluggum. Upprunalega var húsið einlyft með porti og háu risi, ekki ósvipað nærliggjandi húsum, en um 1925 var efri hæðin byggð og fékk húsið þá það lag sem það hefur æ síðan. Ekki er ólíklegt, að steinblikkið hafi verið sett á húsið samhliða þessum framkvæmdum.

Sonur Jóseps Jónssonar var Jóhannes (1883-1968), glímukappi og hótelstjóri löngum kenndur við Hótel Borg. Hann stofnaði ásamt nokkrum öðrum Ungmennafélag Akureyrar í ársbyrjun 1906 og fór sá stofnfundur einmitt fram í þessu húsi. Jóhannes keppti fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikum árið 1908. Áratugina á eftir ferðaðist hann um heiminn, sýndi glímu og atti kappi við fremstu bardagakappa veraldar- og jafnvel bjarndýr. Alkominn heim 1930 reisti hann svo Hótel Borg í Reykjavík og rak með miklum myndarskap.

Líklega hefur Lundargata 15 verið reist sem einbýli en sjálfsagt hafa nokkrar fjölskyldur búið þarna samtímis á fyrri áratugum 20. aldar og íbúðaskipan tekið ýmsum breytingum. Húsið er í góðri hirðu, lítur vel út og er til mikillar prýði í götumyndinni í þessum elsta hluta Oddeyrar. Nú eru tvær íbúðir í húsinu og hefur svo verið undanfarna áratugi. Myndin er tekin þann 24. febrúar 2019.


Athugasemdir

Nýjast