Hringfari og sumarkoma í Sigurhæðum á Akureyri

Sigurhæðir. Mynd/Aðsend.
Sigurhæðir. Mynd/Aðsend.

Í tilefni af sumardeginum fyrsta verður opið í Menningarhúsi í Sigurhæðum 20. apríl frá kl. 13 - 18.

Heildarupplifun ársins 2023 í Sigurhæðum opnar þó formlega í lok maí, en þessar vikurnar er unnið á fullu að undirbúningi og er gestum og gangandi boðið í heimsókn í vinnuferlið. Það verður jafnvel hægt að kíkja inn á vinnustofur á annarri hæð þar sem listamennirnir og hugmyndasmiðirnir Josh Klein, Þuríður Helga Kristjánsdóttir og Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir vinna dags daglega.

Ferskasta verkið í Pastel ritröð Menningarhúss í Sigurhæðum kom úr Prentsmiðjunni nú á dögunum og er það er númer 35. Það er eftir teiknarann og grafíska hönnuðinn Rakel Hinriksdóttur. Verkið ber heitið Hringfari. Af því tilefni verður listamannsspjall með Rakel um hugmyndina að baki verksins og vinnuferlið kl. 13 í borðstofu Sigurhæða.

Dagskráin er hluti af Eyfirska safnadeginum. Starfsemi og viðburðir Menningarhúss í Sigurhæðum og Pastel ritraðar eru samfjármagnaðir af Alþingi, Uppbyggingasjóði SSNE, Menningarsjóði Akureyrarbæjar, Flóru menningarhúsi og fjárframlögum almennings. Heimsókn í Sigurhæðir er gestum að kostnaðarlausu.


Athugasemdir

Nýjast