Hreyfiglöð handboltakempa og lektor í lífeðlisfræði

Nanna Ýr Arnardóttir, lektor í lífeðlisfræði við Hjúkrunarfræðideild
Nanna Ýr Arnardóttir, lektor í lífeðlisfræði við Hjúkrunarfræðideild

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Vísindamanneskjan í apríl er Nanna Ýr Arnardóttir, lektor í lífeðlisfræði við Hjúkrunarfræðideild. Nanna Ýr hefur ofurtrú á hreyfingu sem forvörn hverskonar og hefur með það að leiðarljósi aflað sér yfirgripsmikillar þekkingar á því sviði.

 Hjartað í hreyfingunni

„Mamma er uppalin á Hauganesi og þegar ég var ung vann hún stundum þar um helgar og á sumrin. Þá gat ég leikið mér í frelsinu og fámenninu við frændsystkin mín“, segir Nanna um hennar barnæsku. Hún fæddist í Reykjavík og ólst upp á Akureyri en dvaldi oft á Hauganesi sem barn. Að loknu stúdentsprófi frá MA lá leið Nönnu Ýrar til borgarinnar þar sem hún lagði stund á sameindalíffræði við HÍ.

„Eftir BS námið vissi ég að áhuginn lá í bakteríu- og veirufræðum eða í lífeðlisfræði manneskjunnar. Þegar ég sá auglýsingu um nýtt meistaranám í Heilsu- og íþróttafræðum við HÍ fann ég strax að þetta væri akkúrat það sem ég leitaði að og í náminu rannsakaði ég hreyfingu og skjátíma níu og fimmtán ára barna“. Með náminu starfaði hún meðal annars í Blóðbankanum, sem læknaritari á Barnaspítala Hringsins og sem kennari í verklegri lífeðlisfræði í HÍ.

 Þó að akademía eigi í dag hug Nönnu Ýrar, átti handbolti og hreyfing hjartað framan af. „Sem barn fann ég mig í boltaíþróttum. Þar varð handboltinn ofan á og hann stundaði ég allt þar til ég fór í doktorsnám og spilaði ég meðal annars með KA, Víkingi og Gróttu“. Í dag segist Nanna elska útiveru hverskonar, labba, skokka, fara í skíðagöngu, brölta á fjöllum eða hreinlega bara vera útivið og njóta náttúrunnar. Áhugann á íþróttum segir hún þó enn klárlega vera til staðar. „Ég fylgist mikið með íþróttum og finnst fátt skemmtilegra en að horfa á íþróttaviðburði, sem er heppilegt því eldri börnin mín tvö æfa íþróttir af kappi og er það sérstaklega gaman að horfa á þau njóta sín í íþróttunum“.

 Hún er með doktorsgráðu í heilbrigðisvísindum frá læknadeild HÍ og rannsakaði í náminu hreyfingu hjá eldra fólki í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar þar sem hún starfaði á meðan á námi stóð. Í miðju doktorsnámi, árið 2010, flutti hún ásamt sambýlismanni og dóttur til Gautaborgar stuttu eftir að hafa lagt handboltaskóna á hilluna. Þar kláraði hún doktorsnámið og bjó allt þar til árið 2017 þegar hún flutti til baka, einu barni ríkari, og tók við stöðu lektors við HA í íþróttafræðum við Kennaradeild. Þremur árum síðar tók hún við núverandi stöðu.

 Grunnurinn lykillinn að framhaldinu

 Eins og hefur komið fram rannsakar Nanna Ýr hreyfingu frá ýmsum hliðum og þá sem forvörn gegn hverskonar kvillum. „Ég hef líka rannsakað sjóveiki hjá sjómönnum, sem er mjög áhugavert og lítið rannsakað miðað við mikilvægi sjósóknar og sjávarútvegs í heild hér á landi“.

Nanna Ýr kennir grunnfög í Hjúkrunarfræðideild, til dæmis lífeðlisfræði og kemur einnig að kennslu í ýmsum námskeiðum og þá varðandi efni sem snýr að mannslíkamanum, heilsu og hreyfingu. „Ég kenndi lengi kúrs í lýðheilsu við Kennaradeild sem samþættir lífeðlisfræði og heilsu og mér þótti mjög vænt um. Ég hef líka kennt í framhaldsnáminu í heilbrigðisvísindum þar sem ég kenni meira efni sem tengist rannsóknunum mínum á beinan hátt“.

 Varðandi kennslu segir Nanna: „Áskoranirnar eru auðvitað alltaf einhverjar þegar kemur að kennslu og námsmati, en ætli gervigreindin sé ekki það sem ég lít á sem aðaláskorunina þessi misserin. Nemendur og kennarar þurfa að finna leið til að umgangast gervigreindina, því hún er ekkert á leið burt“. segir Nanna að lokum um kennsluna. Nanna Ýr segir þó sitt aðalmarkmið í kennslu að nemendur nái grunninum vel svo hægt sé að byggja áframhaldandi þekkingu á traustri undirstöðu.

 Að standa upp orðið lífsnauðsynlegt

 „Við verðum að halda áfram að rannsaka hreyfingu til langtíma og þá mæla með hlutlægum mæliaðferðum. Kyrrseta hefur aukist mjög mikið síðustu áratugina og með aukinni þekkingu á mikilvægi hreyfingar er það alltaf að koma betur og betur í ljós hversu miklu máli það skiptir fyrir heilsuna að hreyfa sig. Aukinni kyrrsetu fylgja margir heilsukvillar og er kyrrseta þáttur sem við getum haft áhrif á og því mikilvægt að nýta til forvarna“. Hópur sem Nanna Ýr er í fékk einmitt styrk frá Rannís í ár til að hreyfimæla fullorðna einstaklinga með hlutlægum mæliaðferðum, einstaklinga sem rannsakaðir hafa verið tvisvar sinnum áður frá unglingsaldri. „Með niðurstöðunum vonumst við til að geta skilið betur hvernig hreyfing breytist með hækkandi aldri og hvernig hún hefur áhrif á heilsu á fullorðinsárum“, segir þessi öfluga talskona hreyfingar að lokum.

 Heilræði: There is no elevator to success, you have to take the stairs. (Það er engin lyfta að árangri, þú verður að taka eitt þrep í einu)


Athugasemdir

Nýjast