Hoppsa Bomm í Kjarna-Sleðabrekkan tilbúin

Hoppsa Bomm -Sleðabrekkan er til i slaginn og óskar eftir notendum.  Mynd Skógræktarfélagið
Hoppsa Bomm -Sleðabrekkan er til i slaginn og óskar eftir notendum. Mynd Skógræktarfélagið

Heimasíða Skógræktarfélags Eyjafjarðar er með skemmtilega frétt af sleðabrekku sem freistar jafnvel miðaldra vefara sem hér fer fingrum um lykaborðið.

Fréttin er svona:

,,Sl haust var formað nýtt samkomusvæði á Kjarnatúninu. Brekkan sem þar var mynduð mun gegna hlutverki sleðabrekku á vetrum, áhorfendabrekku td á tónleikum og öðrum listviðburðum, nýtast til íþróttaiðkunar ýmiskonar árið um kring osfrv. Tenging við nýja "Kanínuleiksvæðið" á Kjarnavelli mun jafnframt auka nýtingarmöguleika beggja svæða sumar sem vetur. Sáning og lokafrágangur fer fram á vordögum en sleðabrekkan er nú þegar komin í gagnið og hvetjum við eyfirska sleða og snjóþotueigendur til að koma í Kjarnaskóg og renna sér !
 
.....og nei það verður ekkert töfrateppi í Kjarna, í gamla daga fylgdi því að renna sér niður sú kvöð að maður þurfti að labba aftur upp með sleðann ætlaði maður aðra ferð. Sú hefð rímar fullkomlega við lýðheilsuviðmið nútímans svo við verðum áfram í gamla tímanum !
 
Að því sögðu bendum við þó á að akvegur liggur samsíða sleðabrekkunni og tengist báðum endum hennar. Því er lítið mál að ferja okkur fótafúnu ef þurfa þykir 😊
Brekkan sú arna hefur hlotið nafnið Hoppsa Bomm með tilvísan í lagið „Á skíðum skemmti ég mér“ sem hljómsveit Ingimars Eydal með Helenu Eyjólfsdóttir í broddi fylkingar gerði gríðarvinsælt meðal þjóðarinnar, snemma á áttunda áratugnum. Ásta Sigurðardóttir textahöfundur gaf góðfúslega leyfi til að nýta titillínuna til góðra verka og sagði okkur skemmtilega sögu af því þegar eiginmaðurinn vakti hana um miðja nótt og gaf henni örstutta stund til að semja dægurlagatexta sem senda þyrfti eitthvert í hvelli og kynna fyrir söngvaranum svo hægt væri að taka lagið upp.
 
Við erum afar þakklát fyrir það og hlökkum til að heyra lagið óma á fyrstu útitónleikunum sem þarna verða haldnir, vonandi áður en langt um líður 😊
 
Annars er fínt færi á flestum leiðum hér í skóginum, veðrið fínt en aðeins farið að mugga nú eftir hádegið. Standið á göngu og skíðaleiðum má sjá hér á https://www.kjarnaskogur.is.skisporet

Athugasemdir

Nýjast