Höldur-Bílaleiga Akureyrar styður Velferðarsjóð Eyjafjarðar vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og unglinga.

Á myndinni, sem tekin var eftir undirritun samningsins, má sjá frá vinstri Sigríði Stefánsdóttur og …
Á myndinni, sem tekin var eftir undirritun samningsins, má sjá frá vinstri Sigríði Stefánsdóttur og Herdísi Helgadóttur frá Velferðarsjóði Eyjafjarðar, Örnu Hrönn Skúladóttur, markaðsstjóra Hölds og Steingrím Birgisson, forstjóra Hölds. Mynd aðsend

Verkefni tengd samfélagslegri ábyrgð hjá Höldi-Bílaleigu Akureyrar eru mörg og skipa veigamikinn sess í rekstrinum. Fyrirtækið tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og styður sem dæmi rausnarlega við íþróttastarf á Íslandi og er í dag með styrktarsamninga við um 110 deildir íþróttafélaga um allt land. Aðgengi allra barna og unglinga að íþrótta- og tómstundastarfi er sameiginlegt verkefni samfélagsins, enda ein allra mikilvægasta forvörnin.

Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis og Rauða krossins við Eyjafjörð. Velferðarsjóðurinn heldur utan um jólaaðstoð og reglubundnar úthlutanir til efnaminni einstaklinga og fjölskyldna á starfssvæði sjóðsins sem er Eyjafjörður, frá Siglufirði til Grenivíkur.

Nú er í farvatninu nýtt úrræði innan Velferðarsjóðsins en það snýr að stuðningi vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og ungmenna frá efnaminni heimilum. Höldur-Bílaleiga Akureyrar er stoltur bakhjarl verkefnisins og gerður hefur verið þriggja ára samningur við Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis.

Markmið verkefnisins er að draga úr hættu á félagslegri einangrun og að börn og unglingar hætti í íþrótta- og tómstundastarfi vegna fjárhagserfiðleika heimilis. Hægt verður að sækja um sérstakan styrk hjá Velferðarsjóðnum vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og unglinga.

Sem dæmi um styrkhæf verkefni má nefna ferðalög vegna þátttöku í íþróttum, tómstundum og menningarstarfi, æfinga- eða skólagjöld vegna tómstundastarfs, keppnir og ferðir á vegum félagsmiðstöðva og klúbba auk búnaðar- og búningakaupa.

 

Athugasemdir

Nýjast