Hjólreiðafélag Húsavíkur formlega stofnað

Hjólreiðamenning á Húsavík hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og hefur óformlegt hjólreiðafélag verið starfrækt í bænum undan farin ár. Fyrir skemmstu var fyrsti formlegi aðalfundur félagsins haldinn og kosinn var formaður, Aðalgeir Sævar Óskarsson.

Vikublaðið ræddi við Aðalgeir í vikunni en að sögn hans hefur hjólreiðarfólki fjölgað hratt á Húsavík upp á síðkastið. „Sérstaklega undan farin tvö ár og má ætla að innreið raffjallahjólanna hafi mest áhrif. Það hefur mikið verið að fjölga í hópi rafhjólafólks og með þeim góða hópi hefur komið slagkraftur inn í félagið. Nú finnst okkur loksins eins og hægt sé að gera eitthvað af viti,“ segir Aðalgeir.

Hjólabraut

Síðast liðið sumar var opnuð ný 2,7 km. hjólabraut sem liggur frá bílastæði á Reykjaheiði niður að Botnsvatni. Brautin var gerð að mestu leiti í sjálfboðavinnu af hjólreiðarfólki og fengust til þess góðir styrkir frá fyrirtækjum úr nærsamfélaginu. Á aðalfundi félagsins var tekin ákvörðun um það að framlengja brautina niður í Skrúðgarð í hjarta Húsavíkur og segir Aðalgeir að búið sé að fjármagna framkvæmdirnar. Með framlengingunni verður brautin um 5 km. löng og verður mikil lyftistöng fyrir hjólamenninguna í bænum að sögn Aðalgeirs.

Nokkrir myndarlegir styrkir hafa borist undanfarið, m.a. frá Landsvirkjun, Landsbankanum og frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Áður höfðu ýmis húsvísk fyrirtæki, s.s. Trésmiðjan Rein og Höfðavélar, styrkt uppbyggingu á fyrri hluta brautarinnar. 

Hið nýstofnaða félag verður hluti af almenningsíþróttadeild Völsungs sem hefur verið sú deild innan Völsungs sem hefur verið í hvað örustum vexti undan farin ár enda verið gríðarleg lýðheilsuvakning meðal bæjarbúa og aðstæður til almennigsíþrótta tekið stakkaskiptum. Ber þar að nefna göngu og hjólreiðastíg um Stangarbakka en eftir að hann var tekinn í notkun virðist umferð gangandi, hlaupandi og hjólandi fólks hafa tekið fram úr bílaumferðinni.


Nýjast