Hjaltalín og Ástarsögur á Græna hattinum

Hljómsveitin Hjaltalín er komin á fullt eftir hlé og spilar á Græna hattinum um helgina.
Hljómsveitin Hjaltalín er komin á fullt eftir hlé og spilar á Græna hattinum um helgina.

Helga Kvam, Pálmi Óskarsson og Þórhildur Örvarsdóttir segja aftur sögur af ástinni á tónleikum á Græna hattinum í kvöld, fimmtudaginn 12. september. Svo takast megi að draga upp allt hið rómantíska litróf hafa þau fengið til liðs við sig Halldór G. Hauksson trommuleikara, Kristján Edelstein gítarleikara og Stefán Daða Ingólfsson bassaleikara.

„Vegir ástarinnar verða rannsakaðir í þaula með hjálp alþekktra ástarsöngva; magafiðrildi, angistarkvíði, daður, óendurgoldnar tilfinningar, ástarbál, alsæla, vonsvik, harmur, ástarsorg. Og breiköppsongs, auðvitað. Gömul uppáhaldslög, Lög unga fólksins og ástfangna fólksins og lög hryggbrotna fólksins frá ýmsum tímum verða gædd nýju lífi. Væmnifóbíu verður gefið langt nef. Hláturinn þó aldrei langt undan. Úrvalskvöldstund fyrir ástfangna og elskaða á rökkvuðu og rómantísku haustkvöldi. Allur tilfinningaskalinn í tónum og tali á tveim tímum,“ segir um tónleikana sem hefjast kl. 21.00.

Hljómsveitin Hjaltalín snýr aftur á árinu 2019 og heldur tvenna tónleika á Græna hattinum, föstudag- og laugardagskvöldin 13. og 14. september. Tónleikarnir eru hluti af endurkomu sveitarinnar sem hefur legið í dvala undanfarin ár en stígur nú aftur fram á sjónarsviðið, og það með hvelli. Sveitin hélt tvenna vel lukkaða tónleika í Hörpu um síðustu helgi og koma því fersk norður til Akureyrar.

Í byrjun árs kom út lagið Baronesse og fór lagið m.a. á topp vinsældarlista Rásar 2 og lagið Love from 99 hefur trónað á toppnum frá því það heyrðist fyrst. Hljómsveitin vinnur nú að nýrri plötu sem gert er ráð fyrir að komi út í byrjun vetrar. Á tónleikunum á Græna hattinum er ætlunin að spila bæði nýju lögin og að rifja upp þau gömlu. „Brot af því besta frá ferli Hjaltalín, á besta tónleikastað landsins,“ segir um tónleikana sem hefjast kl. 22.00 bæði kvöldin.


Athugasemdir

Nýjast