Háhyrningar spókuðu sig í blíðviðrinu

Alsælir farþegar koma í land eftir vel heppnaðan túr. Mynd/epe
Alsælir farþegar koma í land eftir vel heppnaðan túr. Mynd/epe

Náttfari, einn af eikarbátum Norðursiglingar sigldi úr Húsavíkurhöfn upp úr hádegi í gær, þriðjudag. Þeir 13 farþegar sem voru um borð duttu heldur betur í lukkubátinn enda einstaklega gott veður og Skjálfandinn skartaði sínu fegursta. Með í för voru einnig tveir aðilar frá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík og tveggja manna áhöfn.

Háhyrningur

Það er alltaf ákveðin spenna sem fylgir því að bóka ferð í hvalaskoðun því það er ekki hægt að vita það fyrir fram hvaða hvalir sýna sig eða yfir höfuð hvort. Hvalaskoðunarvertíðin hjá Norðursiglingu hefur farið vel af stað en fyrirtækið hóf reglubundnar siglingar 1. mars. Arngrímur Arnarson, markaðsstjóri Norðursiglingar segir í samtali við Vikublaðið að það sé full ástæða til bjartsýni þrátt fyrir óvenjulegar og erfiðar aðstæður vegna kófsins. Þá segir hann að hvalir hafi sést í öllum ferðum Norðursiglingar og sérstaklega ánægjulegt að hópur langreyða hafi verið í flóanum síðustu vikur. „Það er fremur sjaldgæf sjón að sjá þetta næststærsta dýr jarðar á Skjálfanda og óhætt að segja að það hafi glatt bæði farþega og áhöfn“.

Í gær var afar óvenjulegur túr en þá sigldi Náttfari fram á fjöldann allan af háhyrningum sem eru einnig sjaldséðir í Skjálfandaflóa. Hörður Sigurbjarnarson, skipstjóri á Náttfara hefur siglt með ferðamenn frá því hvalaskoðun hófst á Húsavík en hann segir að það gerist varla að háhyrningar sjáist í flóanum en þegar það gerist þá eru þeir gjarna einir hvala á svæðinu því aðrir hvalir virðast forðast þá.

Hörður Sigurbjarnarson

Farþegarnir sem komu frá hinum ýmsu þjóðlöndum voru í sjöunda himni þegar blaðamaður tók á móti þeim á bryggjunni eftir túrinn og höfðu frá mörgu skemmtilegu að segja. Ítarlegri umfjöllun með viðtölum við ferðamenn og Hörð skipstjóra mun birtast í Vikublaðinu í næstu viku.


Athugasemdir

Nýjast