Góður árangur í alþjóðlegri hjólakeppni

Frá verðlaunaafhendingunni á Hlíð. Mynd/Akureyri.is
Frá verðlaunaafhendingunni á Hlíð. Mynd/Akureyri.is

Í vikunni voru veitt verðlaun fyrir þátttöku í aþjóðlegu hjólakeppninni Road Worlds for Seniors. Keppendur í Hlíð og Lögmannshlíð stóðu sig vel og hjóluðu samtals yfir 5.000 kílómetra. Alls tóku 194 lið með 4.333 keppendum frá sjö löndum þátt í keppninni sem er eins konar heimsmeistaramót eldri borgara í hjólreiðum og hefur staðið í tæpan mánuð.

Hjólað er fyrir framan tölvuskjá og þannig geta keppendur slegið þrjár flugur í einu höggi; tekið þátt í keppninni, hjólað sér til heilsubótar og heimsótt fjölda borga um allan heim. Að keppni lokinni var lið Hlíðar í 5. sæti með 4.338 hjólaða kílómetra. Keppendur í Lögmannshlíð voru töluvert færri en stóðu sig vel og enduðu í 38. sæti.

Fjóla Ísfeld í Lögmannshlíð hjólaði mest allra á Akureyri, 616 kílómetra, en hún var í 10. sæti í heildarkeppni kvenna sem er glæsilegur árangur. Torfi Leósson hjólaði mest karla í Hlíð, 497 kílómetra, og Jónína Axelsdóttir hjólaði mest kvenna í Hlíð, 238 kílómetra. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.


Athugasemdir

Nýjast