Gleðibomba í Mývatnssveit: „Algjörlega einstök upplifun“

Það verður mikil hátíð í Mývatnssveit um helgina. Mynd/aðsend
Það verður mikil hátíð í Mývatnssveit um helgina. Mynd/aðsend

Það verður sannkölluð orku- og gleðibomba í Mývatnssveit helgina 28.-30. maí. von er á fjölda fólks í sveitina fögru enda heilmikil dagskrá framundan. 

Úlla Árdal

Hraunhlaupið verður haldið í þriðja sinn á föstudagskvöldinu. Það er 9,4 km langt utanvegahlaup þar sem hlaupið er í gegnum stórbrotna náttúru Dimmuborga, yfir hraunið og Hverfellssandinn og hlaupið endar svo við Jarðböðin við Mývatn. „Aðeins 150 miðar í boði og að venju seldist fljótt upp í hlaupið, enda algjörlega einstök upplifun,“ segir Úlla Árdal, markaðs- og þróunar­stjóri Mý­vatns­stofu.

Á laugardag fer hjólreiðakeppnin Mývatnshringurinn fram í fyrsta sinn og raunar fyrsta hjólreiðakeppni sem haldin hefur verið við Mývatn. Hjólað er á malbiki í kringum vatnið, alls 42,2 km. „Keppnin hentar öllum sem eru áhugasamir um hjólreiðar og var keppnisfólk jafnt sem fjölskyldur og vinahópar hvatt til að skrá sig til leiks. Hjólreiðafólk var ekki lengi að taka við sér og nú þegar eru um 70 skráðir til keppni,“ segir Úlla.

Þegar hjólin eru þotin af stað taka hlauparar sér stöðu við ráslínu þar sem Mývatnsmaraþonið margrómaða er næst á dagskrá. „Það þarf varla að kynna fyrir landanum enda verið haldið síðan 1995. Hlaupið hefur stækkað jafnt og þétt síðustu ár og stefnir í met skráningu þetta árið. Allt í allt eru um 400 manns skráðir til leiks í íþróttaviðburði helgarinnar og alltaf einhverjir sem bætast við á lokadögunum,“ segir Úlla.

Ýmislegt fleira verður um að vera á Gleðibombunni í ár.  Dimmuborgir munu væntanlega skarta sínu fegursta í blíðunni á Laugardaginn og þar munu frægustu jólasveinar landsins heilsa upp á gesti og gangandi. Einnig verður bænda- og handverksmarkaður í Kaffi Borgum og glænýr ratleikur um Dimmuborgir í boði. Á sunnudeginum verður opið hús hjá Snow Dogs í Vallholti þar sem verður hægt að kíkja á sleðahundana ótrúlegu.  


Athugasemdir

Nýjast