Gísli Konráðsson teiknaði merki ÚA við borðstofuborðið heima í Oddagötunni

Vel merkt Vinnsluhús ÚA    Myndir samherji.is  og úr bókinni ,, Steinn undir framtíðarhöll
Vel merkt Vinnsluhús ÚA Myndir samherji.is og úr bókinni ,, Steinn undir framtíðarhöll"

Á heimasíðu Samherja birtist i morgun skemmtileg skrif um tilurð hins velþekka firmamerki Útgerðarfélags Akureyringa, þau eru birt hér með leyfi.

Einfalt og stílhreint firmamerki Útgerðarfélags Akureyringa er vel þekkt í hugum landsmanna.

Þrátt fyrir tískusveiflur í hönnun firmamerkja hefur merki ÚA haldist óbreytt enda, lýsir það með skýrum og hnitmiðuðum hætti starfsemi félagsins. Merkið samanstendur af formföstum línum með upphafsstöfum Útgerðarfélags Akureyringa - ÚA - og akkeri skips, sem er klassiskt tákn sjávarútvegs. Einnig er akkeri gjarnan notað sem tákn um traust og stöðugleika, bæði í ritmáli og listsköpun.

Höfundur firmamerkisins er Gísli Konráðsson, sem var framkvæmdastóri ÚA í nærri fjóra áratugi, frá 1958 til 1989.

Ekki sáttur

Í upphafi báru togarar félagsins ekki annað merki en stafina AK er voru fléttaðir saman á reykháfum skipanna. „Gísla þótti þetta heldur ljótt og teiknaði því nýtt merki fyrir félagið sem enn lifir góðu lífi,“ segir í bókinni Steinn undir framtíðar höll eftir Jón Hjaltason sagnfræðing er út kom í tengslum við 50 ára afmæli félagsins árið 1995.

Man vel eftir AK stöfunum

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja þekkir vel til starfa Gísla Konráðssonar sem framkvæmdastjóra ÚA. Faðir Kristjáns, Vilhelm Þorsteinsson, var framkvæmdastjóri ÚA ásamt Gísla Konráðssyni í aldarfjórðung, frá árinu 1964 til 1992.

„Þeir voru á ýmsan hátt ólíkir en afskaplega samstíga sem stjórnendur. Félagið var í upphafi þessa samstarfs tæknilega gjaldþrota en með samstilltu átaki allra og útsjónarsemi tókst að koma fyrirtækinu á réttan kjöl. Ég var ekki hár í loftinu þegar faðir minn kom í land og gerðist framkvæmdastjóri við hlið Gísla Konráðssonar. Ég  man vel eftir AK stöfunum á reykháfum ÚA skipanna og get heilshugar tekið undir álit Gísla að ekki hafi verið vanþörf á betri og fágaðri merkingu.“

Kaldbakur EA 1 var fyrsti togari félagsins. AK stafirnir á reykháfnum eru áberandi.

 Merkið hafið til vegs og virðingar

„Þegar Samherji keypti Útgerðarfélag Akureyringa árið 2011 var strax ákveðið að hefja þetta stílhreina merki til vegs og virðingar á nýjan leik og við sóttum um leyfi fjölskyldunnar til að nota merkið, sem var auðfengið. Nei, ég minnist þess ekki að talað hafi verið um að breyta merkinu, enda engin ástæða til. Okkur þykir ákaflega vænt um ÚA firmamerkið og ég held að ég tali fyrir hönd alls starfsfólks,“ segir Kristján Vilhelmsson.

ÚA merkið á Stellunum

Freysteinn Bjarnason vélstjóri starfaði hjá Útgerðarfélagi Akureyringa í áratugi, bæði til sjós og lands.

„Líklega var ÚA merkið fyrst sett á Stellurnar svokölluðu, Svalbak og Sléttbak sem bættust í skipaflota félagsins í nóvember 1973. Gísla var sannarlega margt til lista lagt og þessi stílhreina hönnun á firmamerkinu er ágætt dæmi um það. Mér þykir afskaplega vænt um þetta merki og er þakklátur fyrir að það varð áberandi á nýjan leik eftir að Samherji keypti félagið,“ segir Freysteinn Bjarnason.

Kaldbakur EA 1: Merki ÚA er á gálga skipsins.

Stólarnir í matsalnum og ýmsir munir með ÚA merkinu

ÚA firmamerkið sem Gísli Konráðsson teiknaði er víða. Í matsal vinnsluhúss ÚA er merkið á stólunum, sem teknir voru í notkun árið 1986. Stólana hannaði Ingólfur Hermannsson húsgagnasmíðameistari á Akureyri.

„Við rákum húsgagnavinnustofuna Kótó og okkur var falið að koma með tillögu að stólum fyrir félagið. Sigtryggur Stefánsson bæjarverkfræðingur kom að máli við okkur varðandi smíðina, honum var líklega falið að kanna markaðinn í þessum efnum. Mér datt í hug að fræsa firmamerki ÚA á bak stólanna, sem Gísli Konráðsson var afskaplega sáttur við og fól okkur smíðina. Þetta var nokkuð stórt verkefni á okkar mælikvarða og var auk þess skemmtilegt. Stólarnir hafa greinilega enst vel, þannig að ég get ekki annað en verið  sáttur við þetta verkefni.“ 

Iðnaðarsafnið á Akureyri varðveitir slíkan stól og borðbúnaðurinn í matsalnum er einnig merktur ÚA. Ýmsir munir hafa verið framleiddir í gegnum tíðina með merkinu góða. Á Iðnaðarsafninu á Akureyri er t.d. varðveittur blómavasi sem leirbrennslan Glit gerði árið 1981. ÚA merkið er brennt á vasann, einnig áletrunin „Jól 1981“.

Stólana hannaði Ingólfur Hermannsson húsgagnasmíðameistari á Akureyri.

Smjörpappír, blýantur og reglustika

Hildur Gísladóttir læknir er dóttir Gísla Konráðssonar. Hún man vel eftir því þegar faðir hennar teiknaði firmamerkið sígilda.

„Já, já, þetta er mér í fersku minni. Pabbi sat eitt kvöldið við borðstofuborðið heima í Oddagötunni og teiknaði merkið á smjörpappír með blýant og reglustiku sem hjálpartæki. Við krakkarnir fylgdumst með og höfðum okkar skoðanir á merkinu sem var að fæðast þarna á borðstofuborðinu. Ég man eftir því að komman yfir U-inu var rædd fram og til baka. Hann gerði nokkrar útfærslur á merkinu, endanlegu útfærsluna þekkjum við öll. Okkur í fjölskyldunni þykir afskaplega vænt um þetta merki og erum þakklát eigendum félagsins fyrir að halda því á lofti óbreyttu. Pabbi var ákaflega nákvæmur og vinnusamur, þetta klassíska firmamerki Útgerðarfélags Akureyringa er ein  sönnun þess“ segir Hildur Gísladóttir.

  

        Gísli Konráðsson á skrifstofu sinni                                      


Athugasemdir

Nýjast