Gaf út plötu með Háskólabandinu – nú aðgengileg á Spotify

Birgir Guðmundsson er prófessor og forseti Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hans snúa að pólitískri boðmiðlun og hvernig stjórnmálin takast á við gjörbreytt fjölmiðlaumhverfi. Fjölmiðlasaga, fjölmiðlakerfi, staðbundnir miðlar og blaðamennska eru einnig hlutir sem hann hefur rannsakað.

Á undanförnum misserum hefur Birgir komið að kennslu í flestum sérkenndum fjölmiðlanámskeiðum í námsbraut í fjölmiðlafræði, auk stjórnmálafræði og alþjóðastjórnmálum. Birgir segist þó hafa mest gaman af því að kenna um fjölmiðlasögu, fjölmiðla og stjórnmál, enda tengist það e.t.v. best hans aðal rannsóknaráherslum undanfarin ár. Heillandi þykir honum að velta fyrir sér með hvaða hætti pólitísk skilaboð og pólitísk umræða fer fram þegar almenningur er að hlusta, horfa og lesa á svo mörgum og ólíkum stöðum. „Ég held að ég hafi fyrst áttað mig á þessu þegar ég var fyrir mörgum árum að keyra með börnin mín suður eða norður og hélt fyrir þau ítarlega fyrirlestra um fjöllin og dalina og fólkið sem var á leiðinni, svona eins og maður gerir. En svo áttaði ég mig á því að þau voru með I-poda í eyrunum og í raun í öðrum heimi! Samtalið í samfélaginu er orðið svo miklu flóknara en það var þegar fólk er með eyrun á ólíkum stöðum. Það er því mjög mikilvægt að reyna að skilja hvernig boðleiðir virka, ekki síst af því hluti af þessu er að lifum á tímabili „síð-sannleika” eða það sem á ensku hefur verið kallað „post-truth society” með afstæðishyggju, valkvæðum staðreyndum og gríðarlegum möguleikum á að dreifa hvers kyns hugmyndum. Þessi breyting, frá upplýsingakerfi þar sem einn talar við marga, sem eru hin hefðbundnu miðlunarrök, og yfir í netmiðlunarrök þar sem margir tala við marga, hefur síðan alls konar afleiðingar fyrir samfélagið. Fræðingar hafa kallað þetta kerfi, þar sem hvoru tveggja spilar saman, blandað fjölmiðlakerfi, og það er svoleiðis kerfi sem við búum við í dag,“ segir Birgir.

Pólitískt fjölmiðlakerfi

Ásamt því að sinna daglegum störfum við HA er Birgir í rannsóknarvinnu um norræn fjölmiðlakerfi og er að skrifa kafla um Ísland ásamt Valgerði Jóhannsdóttur við HÍ í bók sem fjallar um framtíð norræna fjölmiðlamódelsins. „Hluti af þeirri vinnu, sem fellur utan við bókarkaflana, er að fylgjast með samfylgdinni milli pólitískrar hugmyndafræði og fjölmiðla, en flestir virðast sammála um að við séum í raun að verulegu leyti með pólitískt fjölmiðlakerfi - þrátt fyrir að flokksblaðamennskan sé liðin tíð. Í stað flokka sé skiptingin meira hugmyndafræðileg og það er í raun merkilegt hvað stjórnmálafólk, bæði á landsvísu og í sveitastjórnum, almennir kjósendur og blaðamenn mælast sammála þegar kemur að hugmyndafræðilegri flokkun á einstökum miðlum,“ segir Birgir.

Hvaðan er Birgir? 

Birgir er fæddur árið 1956 og er uppalinn í Reykjavík, fyrst í Álftamýrinni og síðan í Fossvoginum þar sem hann var lengst af. Birgir gekk í Réttarholtsskóla og síðan í MH. „Flestir æskuvinir mínir eru því úr Smáíbúaðahverfinu. Á menntaskólaárunum og raunar strax í landsprófi gerðist ég mjög róttækur og gekk til liðs við Fylkinguna sem þá var að þróast yfir í að vera Trotskyistasamtök og mér fannst ég hafa höndlað sannleikann sem fólst í sögulega nauðsynlegri valdatöku öreigastéttarinnar! Á þessum árum var marxismi mjög í tísku og það er í raun ekki fyrr en nú á allra síðustu misserum sem orðalag og hugtök af því tagi eru aftur farin að skjóta upp kollinum – sérstaklega í verkalýðsbaráttunni. Eftir stúdentspróf fór ég til Bretlands og tók BA hon. próf í sögu og stjórnmálafærði. Þar yfirgaf ég nú að mestu róttæknina,“ segir Birgir.

Örlögin réðust á dagblaðinu NT

Birgir lauk MA prófi í stjórnmálafræði við háskólann í Manitóba 1984/85 og kom heim til Íslands um áramót til að vinna á dagblaði sem hét NT og þá voru örlögin ráðin. Birgi þótti blaðamennskan mun merkilegri en að halda námi áfram í Toronto eins og planið hafði verið. Hann var í blaðamennsku ýmist sem blaðamaður í fréttum eða á helgarblaði, fréttastjóri eða ritstjóri á ýmsum blöðum fram til ársins 2003 þegar hann hóf störf við Háskólann á Akureyri. Það var ekki fyrr en hann var aftur kominn í háskólaumhverfið sem hann dustaði rykið af áformum um frekara nám og er Brigir nýlega búinn að ljúka doktorsprófi frá Háskóla Íslands.

Helstu áhugamál Birgis eru útivist af ýmsu tagi. „Þó ekki endilega skipulegar fjallgöngur með Strava-mælingum eða hjólreiðar í spandex-galla, frekar svona slark við netveiðar eða græja eitthvað í sumarbústaðakofanum okkar í Kjós. Svo hef ég nú reyndar alltaf gaman af tónlist og hef verið í Karlakór Akureyrar-Geysis og lengi verið gítareigandi. Mesta frægðin á þeim vettvangi var eflaust þegar ég var í Háskólabandinu, sem starfaði hér við háskólann og gaf meira að segja út plötu árið 2007 sem raunar er trúlega gleymdasta platan í geymslunni. Hún er þó til á Spotify núna,“ segir Birgir að lokum.

 

Þessi umfjöllun er hluti af kynningu á Vísindafólkinu okkar í samstarfi við Háskólann á Akureyri - sjá umfjöllun á Instagram


Athugasemdir

Nýjast