Fyrstu og síðustu jólin tvö saman

Parið Jóndís Inga og Hallgrímur Mar njóta þess að drekka kaffi saman. Hundurinn Stella hvílir makind…
Parið Jóndís Inga og Hallgrímur Mar njóta þess að drekka kaffi saman. Hundurinn Stella hvílir makindalega í fanginu á Hallgrími.

Jóndís Inga Hinriksdóttir og Hallgrímur Mar Steingrímsson eiga von á sínu fyrsta barni saman í janúar 2023, en þetta gætu orðið fyrstu og síðustu jólin þeirra tvö saman áður en að drengurinn þeirra mætir í heiminn. Í hjartnæmu viðtali við parið var rætt um ástina, afrek þeirra beggja og komandi foreldrahlutverk parsins.

Hvergi betra að vera en í sveitinni  í Skagafirði

„Ég er fædd og uppalin í sveitinni í Skagafirði, á bænum Syðstu Grund, og finnst hvergi betra að vera en þar. Ég kláraði framhaldsskóla á Sauðárkróki og fór svo í Háskólann á Akureyri og kláraði BA gráðu í sálfræði. Í dag starfa ég sem umsjónarkennari í Árskógarskóla í Dalvíkurbyggð en þurfti nýverið að hætta sökum meðgöngunnar,“ segir Jóndís.

Lét heimsfaraldur og veikindi ekki stoppa sig

„Síðustu tvö ár hef ég einnig verið önnum kafin í verkefnum sem skipta mig miklu máli, en ég hef einnig verið að taka ljósmyndir af alls kyns tilefnum og viðburðum og svo gaf ég út mína fyrstu ljóðabók árið 2020,“ segir Jóndís.

-Hún er spurð hvernig ljósmyndunin hafi komið til.

„Þetta byrjaði allt þegar mamma gaf mér mína fyrstu Powershot-myndavél þegar ég var um 13 ára gömul. Þá féll ég fyrst fyrir ljósmyndun. Ég þurfti að hætta ung í íþróttum vegna veikinda og þá sá mamma kjörið tækifæri að gefa mér myndavél til að fylla upp í þá afþreyingu og þann tíma sem íþróttir kunna að fylla upp í,“ segir Jóndís.

Það færðist meiri alvara í ljósmyndunina hjá Jóndísi þegar hún var um 17 ára gömul þegar hún fékk sína fyrstu stafrænu myndavél.

„Ég fékk áður DSLR-myndavél þegar ég var í tíunda bekk og þá fór ljósmyndun mín að þróast. Ég var alltaf með myndavélina á mér og tók myndir af öllu því sem mér fannst fallegt, eða af náttúrunni, fólki og því sem mér fannst myndrænt,“ bætir Jóndís við og heldur áfram að lýsa því hvernig eitt leiddi að öðru en áður en hún vissi af var eftirspurnin fyrir myndatökum farin að aukast.
„Þegar heimsfaraldurinn skall á þurfti ég að finna mér eitthvað að gera, en það var ekki nóg með það að Covid-19 skall á, á sama tíma var ég komin í veikindaleyfi sökum andlegra veikinda. Þá tók ég aftur upp myndavélina og fór að mynda ungabörn og alls kyns viðburði, út frá því varð eftirspurnin svo mikil að ég var farin að bjóða upp á faglegri myndatökur á sanngjörnu verði. Síðastliðin tvö ár hef ég verið að bjóða upp á ungbarnamyndatökur, fjölskyldumyndatökur og myndatökur af öllum mögulegum lífsviðburðum eins og brúðkaupi og fermingu.“

Jóndís hefur alltaf verið dugleg að finna sér eitthvað að gera en samhliða ljósmynduninni gaf hún út sína fyrstu ljóðabók.

Ljóðabók

„Árið 2019 skrifaði ég mikið af ljóðum, ég fann ákveðna útrás í því þegar andlegu veikindin fóru að gera vart við sig. Ég skrifaði nánast daglega þar til ég var komin með efni í heila bók. Þegar ég fór að lesa yfir öll ljóðin sá ég að rauði þráðurinn í þeim öllum var oftar en ekki um kaffi og ást. Úr því varð til fyrsta ljóðabókin sem ég gaf út árið 2020 og ber hún heitið Kaffiást. Bókin varð mun vinsælli en ég átti von á, en hún er tilvalin tækifærisgjöf eða til dæmis í jólapakkann.“

Spennt fyrir framtíðinni og komandi verkefnum

Aðspurð hvort hún sé með framtíðarplön, stendur ekki á svari:.

„Ég hef mikla ástríðu fyrir ljósmyndun og stefni að því að halda áfram að bjóða upp á myndatökur samhliða öðrum verkefnum, en ég er nú þegar komin af stað með tvær nýjar ljóðabækur. Eftir að ég byrjaði í stöðu umsjónarkennara í Árskógarskóla þá kviknaði áhugi fyrir því að fara í meistaranám í kennaranum, en móðurhlutverkið er næst á dagskrá og svo sé ég hvert framtíðin leiðir mig.“

Hallgrímur Mar leikjahæstur og markahæstur

 

Hallgrímur

„Ég er fæddur og uppalinn á Húsavík, en hef búið hálfa ævi mína á Akureyri. Ég byrjaði að spila með KA þegar ég var 18 ára og hef spilað með félaginu síðan. Það má segja að KA sé uppeldisliðið mitt en Völsungur er þó fyrsta liðið sem ég æfði með, en ég hef mest megnis spilað með KA í meistaraflokki.“

Hallgrímur náði þeim áfanga í sumar að verða leikjahæsti leikmaðurinn í sögu knattspyrnudeildar KA og eru leikirnir orðnir 282. Hann er einnig markahæsti leikmaðurinn í sögu KA með 88 mörk, þar af 46 mörk í efstu deild.

-Hann er spurður hvernig framtíðin leggist í hann varðandi fótboltann og komandi föðurhlutverk.

„Framtíðin leggst mjög vel í mig hvað varðar fótboltann. Við erum að fara í Evrópukeppni á næsta ári sem er mjög spennandi, ég reyni að spá ekki of mikið í framtíðina hvað varðar fótboltann. Ég er orðinn leikjahæsti leikmaður KA í efstu deild Maður er að vísu farinn að eldast aðeins og ég veit ekki hvenær fótboltaferillinn endar. Það hefur því verið ofarlega í huga mínum að stefna á afreksþjálfun þegar fótboltaferillinn tekur enda,“ segir Hallgrímur.

Föðurhlutverkið tilhlökkunarefni

„Ég get ekki beðið eftir því að fá að hitta son okkar og fá að upplifa ferðalagið í gegnum lífið með fjölskyldu minni. Það eru krefjandi en á sama tíma fallegir tímar framundan og við Jóndís erum mjög spennt. Hann gæti komið fyrir jól, hann er nú farinn að sýna merki um að hann vilji drífa sig út,“ segir Hallgrímur.

Jóndís bauð Hallgrími á fyrsta stefnumótið

-Parið var spurt hvernig ástin hefði komið til.

„Við höfðum vitað hvort af öðru í örugglega tíu ár en leiðir okkar lágu aldrei beint saman fyrr en í byrjun ársins. Ég byrjaði að fylgja Hallgrími á samfélagsmiðlinum Instagram og ákvað síðan að láta vaða og bauð honum í kaffibolla, við höfum verið óaðskiljanleg síðan þá. Hundurinn minn hún Stella spilaði líka stóran þátt í þessu öllu saman, en þegar hún hitti Hallgrím í fyrsta skipti má segja að hún hafi tekið hann ástfóstri og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Jóndís og hlær.

-Kaffi er stór hluti af lífi parsins, en þeim finnst fátt skemmtilegra en að njóta kaffibollans saman.

„Það er fátt sem sameinar okkur jafn mikið og kaffið, við elskum að hella upp á kaffibolla og njóta hans í kyrrðinni, kíkja á kaffihús og velta fyrir okkur mismunandi kaffibaunum,“ segir Jóndís og heldur áfram. „Eftir að ég kynntist Hallgrími sá ég hvernig ég gat tengt ljóðin í ljóðabókinni minni við hann, en hún fjallar einmitt um kaffi og ást eins og ég nefndi áðan,“ bætir Jóndís við.

-Hallgrímur ætlaði að taka fyrsta skrefið en guggnað.

„Ég ætlaði einmitt alltaf að kaupa ljóðabókina eftir Jóndísi þegar hún var gefin út árið 2020, en ég þorði því aldrei,“ segir Hallgrímur og brosir.

Má helst ekki missa af sósunni hans pabba

Jóndís og Hallgrímur stefna að því að halda jólin í sveitinni að Syðstu Grund ásamt fjölskyldu Jóndísar, en það gæti allt breyst.

„Við erum mjög spennt fyrir því að halda okkar fyrstu jól saman, við höfum þó ekki planað þau of ítarlega þar sem sonur okkar gæti komið í heiminn á hverri stundu. Við ætlum að eyða aðfangadegi heima í sveitinni minni og kíkja svo til fjölskyldu Hallgríms á Húsavík. Ég má ekki missa af jólamatnum hans pabba, það gerir enginn jafn góða sósu og hann,“ segir Jóndís.

„Settur dagur er 20. janúar en ég er nú þegar búin að þurfa að láta stoppa fæðingu einu sinni. Hann gæti orðið jólabarn, það gæti farið svo að við eyðum aðfangadegi upp á fæðingadeild,“ bætir Jóndís við.

EKG


Athugasemdir

Nýjast