Fyrsta frumsýning Eflingar í þrjú ár

Frumsýning á Gauragangi í kvöld að Breiðumýri.
Frumsýning á Gauragangi í kvöld að Breiðumýri.

Leikdeild Eflingar í Reykjadal frumsýnir í Breiðumýri í kvöld, föstudag, Gauragang eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leikstjórn er í vönum höndum Jennýjar Láru Arnórsdóttur.

Gauragangur er lögnu orðin sígild saga sem varla þar að kynna en hún fjallar um ástir og örlög sjálfskipaða snillingsins Orms Óðinssonar, fjölskyldu hans og vina. Skáldsagan sem flestir þekkja kom fyrst út árið 1988. Síðan þá hefur henni verið umbreytt í bæði leiksýningu með söngvum, sem sett hefur verið upp bæði í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og hinum ýmsu  áhugaleikhúsum. Þá var gerð bíómynd eftir sögunni  sem frumsýnd var árið 2010.

Ormur er lífskúnstner og skáld sem á ekki alltaf upp á pallborðið hjá foreldrum eða skólayfirvöldum og er saga hans gamansöm þroskasaga með alvarlegum undirtón. Ormur heldur eins og margir á hans aldri að hann sé með allt á hreinu, en þegar líður á verkið kemst hann að því að heimurinn er ekki jafn svarthvítur og hann hélt og manneskjurnar sem honum þykir vænt um ekki heldur. Saga Orms á enn vel við í dag þegar ungt fólk skipar sér í framvarðasveit í aðgerðum við loftslagsvandanum og er skapandi á svo margan hátt. Þó þau gefi kannski ekki lengur út á prenti rit eins og Barngóða Hrægamminn þá lifir sköpun þeirra góðu lífi í netheimum.

Einn leikara í sýningu Eflingar er Hörður Benónýsson en hann er Þingeyingum að góðu kunnur enda hefur hann staðið á fjölunum eða í næsta námunda við þau síðan árið 1990.

Hörður segir í samtali við Vikublaðið að leikhópurinn sé búinn að æfa stíft undanfarnar vikur en ferlið hófst í nóvember. „Við byrjuðum aðeins í nóvember og tókum svo frí í desember svo erum við búin að vera á fullu eftir áramót,“ segir Hörður og bætir við að sýningunni komi fjöldi unglinga úr Framhaldsskólanum á Laugum.  Við erum meira að segja með skólameistarann, hann Bjössa  með okkur líka,“ segir hann og á væntanlega við  Sigurbjörn Árna Arngrímsson.

Það er nokkuð um liðið, eða um þrjú ár, síðan Leikdeild Eflingar setti upp sýningu síðast vegna nokkurs sem nóg hefur verið skrifað um. Hörður viðurkennir að það hafi verið svolítið erfitt að fara af stað aftur eftir þetta langan tíma en nú sé þetta farið að renna eins og smurð vél. „Við erum líka að setja þetta upp á fremur nýstárlegan hátt. Við erum ekkert að troða okkur upp á svið heldur leikum á gólfinu í þetta skiptið og áhorfendur sitja í kring. Þetta er aðeins öðruvísi en á eftir að koma mjög vel út,“ segir Hörður og bætir við að leikarar í sýningunni séu nálægt 30 talsins. „Ætli það sé ekki um 40-50 manns í kringum þetta þegar allt er talið,“ segir Hörður að lokum.

Eins og áður segir er verður frumsýning í kvöld, föstudag kl. 20:30.


Athugasemdir

Nýjast