Freyvangsleikhúsið frumsýnir Bangsímon og Grislíng í jólasveinaleit

Bangsimon og Grislínur, þau Sveinn Brimar Jónsson og Alexandra Guðný Berglind Haraldsóttir ræða við …
Bangsimon og Grislínur, þau Sveinn Brimar Jónsson og Alexandra Guðný Berglind Haraldsóttir ræða við álfinn, Eyþór Daða Eyþórsson Myndir Freyvangsleikhúsið

„Það má segja að þetta hafi allt saman gerst alveg óvart,“ segir Jóhanna S. Ingólfsdóttir höfundur verksins Bangsímon og Grislingur í jólasveinaleit sem Freyvangsleikhúsið frumsýnir á morgun, föstudaginn 17. nóvember í Freyvangi. Jóhanna er einnig leikstjóri.

Jóhanna segir að Freyvangsleikhúsið hafi sett upp aðventusýningu í fyrra og hafi hún heppnast einkar vel, en verkið var um þá bræður Karíus og Baktus, hún leikstýrði og tveir stjórnarmenn léku bræðurnar.  „Við höfðum nýlega tekið við rekstri Freyvangs og þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti, þetta mátti ekki kosta of mikið þannig að við gengum í öll verk,“ segir hún og sama staða er uppi á teningnum nú.

„Við vildum endilega endurtaka leikinn og bjóða upp á barnasýningu á aðventu og upp kom hugmyndin um að blanda Bangsímon og Grislíngi inn í verkið en það var ekki til neitt jólatengt um þá félaga þannig að úr varð að ég tók að mér að gera handritið,“ segir Jóhanna sem sótt hefur námskeið hjá Bandalagi íslenskra leikfélaga, bæði í leikstjórn og handritagerð. „Og við reynum auðvitað að nýta okkur allt sem við getum og kunnum hér heima til að halda útgjöldum í skefjum,“ segir hún.

Verkið byggir á þessum ástsælu persónum, Bangsímon og Grislingi og inn í það blandast ýmsar sígildar íslenskar verur sem allir þekkja. Þeir félagar eru komnir til Íslands í leit á jólasveinum sem þeir höfðu frétt að væru hvorki fleiri né færri en 13 talsins. Sagan segir frá leit þeirra sem gengur upp og ofan, en ýmsar verur hitta þeir á ferð sinni líkt og við er að búast á íslensku fjalli. Þeir halda ótrauðir áfram þó ýmislegt gerist á leiðinni og halda í trúna á að þeim takist ætlunarverk sitt, hafa óbilandi trú á sjálfum sér og hvor öðrum.

Eiríkur Bóasson semur tónlist, sem er létt og skemmtileg, textar eru ýmist frumsamdir eða með vísum Jóhannesar úr Kötlum. Leikritið er rúmlega klukkustund að lengd með hléi og hentar vel börnum á öllum aldri. „Við ætlum að sýna allar helgar fram að jólum og er skemmst frá því að segja að sala fer vel af stað, það er því sem næst uppselt tvær fyrstu helgarnar. Við hlökkum mikið til að hefja sýningar og vonum svo sannarlega að við náum að breiða gleðina út til barnanna,“ segir Jóhanna.

 

Gríslingur og Bangsímon bollaleggja næstu skref

Jón Friðrik Benónýsson er sögumaður

Jóhanna S. Ingólfsdóttir skrifaði handrit og leikstýrir


Athugasemdir

Nýjast