Forsetafrúin sló í gegn í Vísindaskólanum

Eliza Reid forsetafrú hélt ræðu þegar skólanum var slitið.
Eliza Reid forsetafrú hélt ræðu þegar skólanum var slitið.

Vísindaskóla unga fólksins var slitið með hátíðlegri athöfn á dögunum að viðstaddri Elizu Reid forsetafrú. Hún  sló í gegn með ræðu sinni við útskriftina og ekki síður með þátttöku í spurningakeppni sem nemendur lögðu fyrir hana. Alls 80 nemendur voru skráðir í skólann að þessu sinni og komust færri að en vildu. Þetta er í sjöunda skipti sem skólinn er haldinn en hann er ætlaður börnum á aldrinum 11-13 ára.

Skólinn stendur yfir í eina viku og fá nemendur ný verkefni á hverjum degi. Að þessu sinni var lögð áhersla á að kenna börnum um lýðræði og hvernig störfum Alþingis er háttað, jarðfræði var eitt af þemunum, orkumál, heilbrigðisþema og loks björgunarsveitarstörf og náttúrufræði. Í fyrsta skipti voru mun fleiri drengir þátttakendur en stúlkur en fram að þessu hafa hlutföllin verið nokkuð jöfn. Lögð er mikil áhersla á gæði í kennslu og á að nemendur fái að upplifa og rannsaka. Að þessu sinni voru tveir starfsmenn Alþingis virkir í kennslunni.  

Á hverju ári eru kynnt ný viðfangsefni þannig að nemendur geta komið þrjú ár í röð, sem margir gera. Sigrún Stefánsdóttir og Dana Rán Jónsdóttir bera ábyrgð á uppbyggingu og rekstri þessa verkefnis sem er hýst hjá Háskólanum á Akureyri. Vísindaskólinn er opin börnum óháð búsetu. Fjölmörg fyrirtæki og félög og Akureyrarbær styrkja reksturinn, en sá stuðningur er forsenda þess að hægt sé að reka skólann, segir í tilkynningu frá HA.

 

 


Athugasemdir

Nýjast