Fönguðu Eurovision í gamalt fiskinet

Nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla við listaverkið sitt á Eurovision safninu á Húsavík. Mynd/aðsend
Nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla við listaverkið sitt á Eurovision safninu á Húsavík. Mynd/aðsend

Eurovision safnið á Húsavík hefur í allan vetur fengið til sín listafólk víðsvegar að úr heiminum sem á það helst sameiginlegt að deila ástríðu fyrir söngvakeppninni evrópsku.

Listafólkið hefur sett svip sinn á safnið og sett upp útstillingar af fjölbreyttasta tagi. Um miðjan mars kom til Húsavíkur landslagsarkítektinn, Soteris Yerosimou frá Kýpur en hann er búsettur í Manchester, Englandi. 

Soteris sem er sjálfboðaliði vann tvíþætt verkefni, annars vegar heimsótti hann nemendur 5. bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík og fræddi þau um mikilvægi endurvinnslu og hins vegar vann hann ásamt nemendunum að listaverki sem sett var upp í Eurovisionsafninu.

School projekt

Soteris aðstoðar Tómas Örra Stefánsson, nemanda í 5. bekk, nú eða öfugt. Mynd/aðsend.

Soteris er mikill áhugamaður um endurvinnslu og var það þema heimsóknarinnar í Borgarhólsskóla. Hann aðstoðaði nemendur við að vinna litríka ramma og ýmsa muni úr efnivið sem krakkarnir höfðu safnað saman af heimilum sínum. Efni sem annars hefði endað í ruslinu, m.a. pappakassar og ýmislegt annað. Nemendurnir völdu síðan uppáhalds Eurovision augnablikin sín og voru þau römmuð inn í rammana sem þau höfðu búið til.

Krökkunum var síðan boðið á Eurovision safnið þar sem afrakstur vinnu þeirra var notaður í listainnsetningu kýpverska listamannsins sem er mikill Eurovison aðdándi sjálfur. Allir sýningargripir á innsetningu hans voru unnir úr endurunnum efnum og notaði hann búta úr gömlum netum sem hann hafði fengið neðan við bakka; til þess að fanga augnablik nemendanna. Sannarlega glæsileg sýning og ánægjulegt samstarfsverkefni listamannsins og húsvískra barna.

 


Athugasemdir

Nýjast