„Fólk hættir ekkert að eiga afmæli“

Mæðgurnar Helena Guðmundsdóttir (Fyrir miðju), Karólína Helenudóttir (T.v.) og 
Þórunn Jóna Héðinsd…
Mæðgurnar Helena Guðmundsdóttir (Fyrir miðju), Karólína Helenudóttir (T.v.) og Þórunn Jóna Héðinsdóttir opnuðu kaffihúsið Sykurverk, í maí árið 2020. Mynd/Aðsend.

Eigendur kaffihússins og veisluþjónustunnar Sykurverk í miðbæ Akureyrar hafa sett af stað söfnun á Karolina Fund til þess að safna fyrir flutningum staðarins í Strandgötu 3.

Mæðgurnar Helena Guðmundsdóttir, Karólína Helenudóttir og Þórunn Jóna Héðinsdóttir opnuðu Sykurverk, í maí árið 2020. Vikublaðið ræddi við Karolínu í vikunni en hún segir að viðtökur Akureyringa hafi verið vonum framar.

„Við erum núna í Brekkugötu 3 við Ráðhústorg en erum að fara flytja starfsemina þar sem pósturinn var áður til húsa í Strandgötu,“ segir Karolína og bætir við að ástríða fyrir bakstri hafi verið kveikjan að öllu saman.

„Við opnuðum í maí 2020, akkúrat þegar Covid skall á. Við sem sagt skrifuðum undir leigusamning og síðan viku síðar þá kom fyrsta smitið upp á Íslandi. Það var frekar óheppileg tímasetning en þetta hefur engu að síður gengið mjög vel,“ segir hún.

Karolína byrjaði að baka kökur þegar hún eignaðist fyrstu stelpuna sína og langaði til að baka flottar afmæliskökur fyrir hana. „Mamma hafði alltaf bakað ótrúlega fallegar kökur fyrir okkur systur á meðan við vorum litlar. Mig langaði því að halda hefðinni lifandi. Svo fannst mér þetta svo ótrúlega gaman að ég fór fljótlega að langa til að gleðja fleiri með fallegum afmæliskökum og fermingartertum og þess háttar,“ útskýrir Karolína og viðurkennir að faraldurinn hafi vissulega haft áhrif á starfsemina.

„Þetta hefur engu að síður gengið ótrúlega vel. Þó að faraldur sé í gangi þá er alltaf verið að panta afmæliskökur. Fólk hættir ekkert að eiga afmæli.“

Sykurverk var stofnað til að vera veisluþjónusta en fljótlega sáu þær mæðgur að húsnæði þeirra bauð upp á að reka kaffihús einnig. „Við fengum það stórt húsnæði, okkur fannst það full stórt til að vera bara með veisluþjónustu þannig að við ákváðum að bæta kaffihúsinu við,“ segir Karolína og bætir við að auk sætabrauðs bjóði þær upp á crepes sem hefur verið mjög vinsælt en einnig brauðtertur og annað gamaldags bakkelsi.

Við flutningana hafa mæðgurnar einnig í hyggju að kaupa betri og stærri tækjabúnað og hafa þess vegna opnað hópfjármögnunarsíðu á Karolina Fund til að létta undir með sér. „Við höfum fengið það góðar viðtökur og mörg hrós að við ákváðum að leita eftir stuðningi til að geta fjárfest í stærri og betri tækjabúnaði,“ segir Karolína en hún deilir með okkur uppskrift að einstaklega girnilegri Hrekkjavöku-köku.

Halloween blóð-glerbrota kaka:

Kaka

 

Gerðu Hrekkjavökuna að skemmtilegri upplifun með þessari hræðilegu glerbrota-blóð köku! Súkkulaði kaka með vanillukremi, fyllt með blóði (karamellu).

 

Kökubotnar að eigin vali

Karamellu sósa

Rauður matarlitur

Smjörkrem:

500g Íslenskt smjör
1000g Flórsykur
4 msk Rjómi
1 msk Vanillu dropar
Glerbrot:
200g Sykur
100g Vatn

Þegar búið er að baka og kæla kökubotna og þeyta kremið vel og lengi skal setja rauðan matarlit saman við karamellu sósuna.
Næst skal kremið sett á kökubotn og blóð karamellan ofan á kremið, svo næsti botn settur ofan á og krem að lokum sett yfir alla kökuna.
Til skreytinga eru búin til glerbrot. Setjið í pott sykurinn og vatnið og látið sjóða upp í 140°C eða þar til að það sést pínulítil litabreyting. Hellið þá blöndunni varlega á stóran bökunarpappír á flötu yfirborði og látið kólna. Þegar "glerið" er búið að kólna skal brjóta það með höndum eða áhaldi og raða því á kökuna. Til að búa til blóð skal blanda saman rauðum matarlit og nokkrum dropum af vanillu dropum og mála á glerbrotin með pensli og sletta pínu á kökuna eða jafnvel búa til handafar! Næsta skref er bara að njóta!

Smellið gif

 


Athugasemdir

Nýjast