„Eru þeir loksins búnir að átta sig á því að konur eru til og geta gert hluti?“

Aldey Unnar Traustadóttir, forseti sveitarstjórnar Norðurþings ætlar að vera samkvæm sjálfri sér á á…
Aldey Unnar Traustadóttir, forseti sveitarstjórnar Norðurþings ætlar að vera samkvæm sjálfri sér á árinu.

Aldey Unnar Traustadóttir fer yfir það sem stóð upp úr hjá henni á nýliðnu ári en hún steig óvænt inn á svið stjórnmálanna á síðasta ári þegar hún tók sæti í sveitarstjórn Norðurþings  fyrir V-lista í sveitarstjórn og  varð jafnframt forseti sveitarstjórnar. Hún skipulagði Druslugönguna á Húsavík ásamt systrum sínum en Aldey brennur heitt fyrir jafnréttismálum. Aldey ætlar að halda áfram að vera samkvæm sjálfri sér árið 2022 sem endranær og ber væntingar til þess að jákvæðar breytingar til betra samfélags haldi áfram.

Þegar ég hugsa um árið 2021 kemur þakklæti fyrst upp í hugann. Eflaust kemur það fyrst upp í huga margra þar sem við höfum þurft að standa frammi fyrir nýjum áskorunum ítrekað. Ég er þakklát fyrir fjölskylduna mína, vini mína og staðinn sem ég bý á.

Það sem stendur upp úr hjá mér árið 2021 er ótrúlega margt, bæði í mínu persónulega lífi og tengt vinnu. Stjúpdóttir mín flutti norður til okkar og ég held að það eigi vinninginn. Ég náði mér í meistara gráðu í stjórnun sem var virkilega lærdómsríkt og ég og systur mínar skipulögðum og héldum Druslugönguna í annað skiptið á Húsavík. Það sem var óvæntast árið 2021 var að ég tók sæti í sveitarstjórn Norðurþings og gott betur en það ég fékk tækifæri til að vera forseti sveitarstjórnar. Það er búið að vera heljarinnar skóli, bæði skemmtilegt og erfitt. Ég er búin að kynnast nýju fólki og öðlast nýja sýn á stjórnsýsluna sem ég er þakklát fyrir, hjálpsemin sem býr í fólkinu í stjórnsýsluhúsinu og viljinn til að gera vel er ótrúlegur.

Það sem ég brenn heitast fyrir eru jafnréttismál og þá helst jafnrétti kynjanna. Það er það sem drífur mig áfram í pólitíkinni, ég óska mér þess að konur fái jafn mörg tækifæri og karlar og jafn mikið af raunverulegum valmöguleikum og karlar. Mitt helsta starf fyrir utan sveitarstjórn er að vera hjúkrunarfræðingur á HSN Húsavík. Í því starfi verð ég vitni að ótrúlegum hlutum, hlutum sem ég hefði ekki trúað að við myndum enn þurfa að vera að berjast fyrir árið 2022. Núna í haust var tekin fyrsta skóflustungan fyrir nýju hjúkrunarheimili á Húsavík og fékk ég þann heiður. Ég fór síðan á vakt kvöldið eftir og átti þar spjall við eldri konu sem var svo ánægð með að ég skildi hafa gert þetta og spurði mig: „Eru þeir loksins búnir að átta sig á því að konur eru til og geta gert hluti?“ Þetta þótti mér grátbroslegt, ég var döpur yfir því sem á undan hefur gengið en á sama tíma stolt af því að fá að taka þátt í breytingunni. Mínar helstu væntingar fyrir árið 2022 eru að við höldum áfram að breyta heiminum, ég vona að minnihlutahópar haldi áfram að taka pláss og láta í sér heyra og að fólk haldi áfram að hlusta og vera með.

Plönin mín fyrir árið 2022 eru að halda áfram að standa með mér og eyða eins miklum tíma með fjölskyldunni minni og vinum og ég get. Einnig ætla ég að halda áfram að vera samkvæm sjálfri mér og gera mitt allra besta í báðum störfunum mínum. Ég ætla að halda áfram að umvefja mig góðu fólki árið 2022.


Athugasemdir

Nýjast