Engin sé ósnortin yfir daglegum fréttum af hörmungum í Úkraínu

Akureyrarkirkja. Mynd/ Eyþór Ingi Jónsson.
Akureyrarkirkja. Mynd/ Eyþór Ingi Jónsson.

Styrktartónleikar fyrir bágstadda í Úkraínu verða haldnir í Akureyrarkirkju þriðjudagskvöldið 29. mars. Það eru organistar kirkjunnar sem tóku sig saman og skipuleggja viðburðinn. Eyþór Ingi Jónsson, organisti segir í samtali við Vikublaðið að efnisskráin sé mjög fjölbreytt og enn sé að bætast við dagskrána. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Þorvaldur Örn Davíðsson eru hinir organistarnir sem skipuleggja viðburðinn. 

Eyþór Ingi

Eyþór Ingi segir að engin sé ósnortin yfir daglegum fréttum af hörmungum í Úkraínu og þeir organistarnir hafa rætt sín á milli um hvernig þau mættu rétta fram hjálparhönd.  „Við organistarnir hér á skrifstofunni vorum að ræða málin enda eru atburðirnir í Úkraínu mikið í umræðunni. Við fórum að velta því fyrir okkur hvað við gætum gert og fórum að hvetja kollega um allt land til nota starfið til að minna á safnanir og hörmungarnar. Þetta byrjaði nú bara þannig,“ segir hann og bætti við að eitt hafi leitt af öður og nú stefni í stórviðburð.  

Mjög fjölbreitt dagskrá

„Við erum komin í samtarf við N4 í tengslum við tónleikana. Þau ætla að sjónvarpa beint frá tónleikunum og vera með svona söfnunardag í tengslum við útsendinguna. Þannig að þetta stækkaði og stækkaði hjá okkur,“ útskýrir Eyþór Ingi.

Nú þegar er staðfest að Kór Akureyrarkirkju, Eldri barnakór Akureyrarkirkju, Hymnodia, Tríóið Bríó, Kristjana Arngrímsdóttir, Elvý Guðríður Hreinsdóttir, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir og organistarnir þrír, Eyþór Ingi Jónsson, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Þorvaldur Örn Davíðsson, muni koma fram á tónleikunum. Að sögn Eyþórs Inga er þó tónlistarfólki enn að fjölga sem boðið hafa fram krafta sína.

„Það eru kórar kirkjunnar sem eru að æfa sérstaklega fyrir þetta og síðan tónlistarfólk og hljóðfæraleikar héðan af svæðinu sem leggja okkur lið. Þetta verður mjög fjölbreytt, nú þegar er búið að semja nýja texta fyrir okkur og búið að bjóðast til þessa að semja ný lög sérstaklega fyrir tónleikana. Það eru allir tilbúnir til að gera eitthvað,“ segir Eyþór Ingi

Friðarboðskapur í hávegum

Á tónleikunum verður mikið lagt upp úr því að flytja úkraínska tónlist og jafnframt tónlist með friðarboðskap. Eyþór Ingi hefur verið í sambandi við úkraínska vinkonu sína sem búsett er í Svíþjóð en hún er fiðluleikari.

„Ég hef fylgst með hennar einstöku baráttu í Svíþjóð en hún hefur verið að deila reynslusögum á samfélagsmiðlum af foreldrum sínum sem búa í Úkraínu. Eins hefur tónlistarfólk og kirkjan þar í Svíþjóð verið með virkilega flott framtak, og stutt við fórnarlömb stríðsins.. Vinkona mín  hefur verið að senda mér helling af úkraínskri tónlist sem ég get valið úr fyrir tónleikana en hún er fiðluleikari sjálf,“ segir Eyþór Ingi að lokum.

Það fé sem safnast í tengslum við tónleikana og útsendingu N4 rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar og fer þaðan óskipt til hjálparstarfa á landamærum Úkraínu, þar sem ACT Alliance hjálpar fólki á ýmsan hátt, til dæmis með mat og drykk, hreinlætisvörur og leikaðstöðu fyrir börn á flótta.


Athugasemdir

Nýjast