„Ekkert sem toppar það að veiða með börnunum sínum“

Eiður með 29 punda skrímsli sem hann landaði í Laxá í Aðaldal. Fiskurinn mældist 107 cm. að lengd.
Eiður með 29 punda skrímsli sem hann landaði í Laxá í Aðaldal. Fiskurinn mældist 107 cm. að lengd.

Laxveiði hefur um árabil verið hálfgert þjóðarsport á Íslandi og ekki síður verðmæt útflutningvara enda koma til landsins fjölmargri ferðaveiðimenn á hverju sumri en orðspor íslensku laxveiði hefur borist víða utan landsteinanna. Eiður Pétursson frá Húsavík er ástríðufullur veiðimaður sem ver stórum hluta sumarsins í laxveiði. Hann er jafnframt hokinn af reynslu og er leiðsögumaður í einni bestu laxveiðiá landsins, Laxá í Aðaldal. Vikublaðið ræddi við Eið um laxveiðisumarið og framtíð villta íslenska laxastofnsins.

Eiður er vélfræðingur og starfar hjá Arctic hydro sem rekur þrjár vatnsaflsvirkjanir á Norðurlandi. Sumrin hjá Eiði eru hins vegar undirlögð laxveiði enda þykir honum fátt skemmtilegra.

„Þetta er mitt helsta áhugamál. Þetta og rafmagnsframleiðslan,“ segir hann og hlær við  „Ég er gjörsamlega sýktur af þessu.“

 Dreymir um 30 pundara

Eiður segir laxveiðina fara ágætlega af stað á norðausturhorninu. Talsvert sé af stórum fiskum og fallegum. „Laxáin er mín á í þessu sporti, það má segja að ég sé andsetinn af Laxánni,“ segir hann glettnislega og á þar að sjálfsögðu við Laxá í Aðaldal. Þar veiðir hann mikið sjálfur en starfar einnig sem leiðsögumaður.

Aðspurður um hvort hann hafi ekki krækt í marga stóra fiska í gegn um tíðina er Eiður óvenju hæverskur og segist ekki hafa slegið nein sérstök met. „Ég er samt búinn að ná nokkrum hundraðköllum  og einhverjum svona rétt undir,“ segir hann en með hundraðkalli er átti við stórlaxa sem eru 100 cm langir eða lengri. „Ég er búinn að fá marga yfir 20 pund í Laxá og líka í Þistilfirðinum svo við förum að tala í pundum. Svo á ég einn 29 punda úr Laxánni, sá var 107 cm. Það er minn stærsti enn sem komið er,“ segir hann og bætir við að hinn frægi 30 pundari sé alltaf draumurinn. „Það væri ótrúlega gaman að fá einn slíkan, taka af honum mynd og aðeins að heilsa honum.“

Ekkert toppar Laxá í Aðaldal

Með Bubba

Björgvin Viðarsson, Bubbi Morthens, Eiður og sonur hans, Guðmundur Ingi.

Eiður hefur farið víða til að veiða lax þó Laxá í Aðaldal sé hans uppáhalds staður. „Ég hef verið dálítið austur í Þistilfirði í Hafralónsá, hún er að starta mjög vel og við fengum fína veiði ég og félag mínir um daginn. Svo er ég búinn að fara í Sandá líka. Hún byrjaði ágætlega en er búin að vera rólegri núna undanfarið. Vopnafjörðurinn hefur verið mjög góður líka enda gaf hann góð fyrirheit í fyrra, þá veiddist mikið af smálaxi. Ef allt er eðlilegt í náttúrunni, ef það er mikið af smálaxi eitt árið þá á að vera mikið af stærri fiski árið eftir og það er að gerast núna. Margir að fá fína fiska og marga,“ útskýrir Eiður en leggur áherslu á að ekkert toppi Laxá.

Þá segist hann hafa farið nýlega í Stóru Laxá og gert góða veiði. Hann hafi verið svo hrifinn að hann sé farinn að huga á aðra ferð fljótlega. „Hún er stórbrotinn og ég á eftir að fara þangað aftur og taka Guðmund Inga strákinn minn með. Hann er minn helsti veiðifélagi í dag. Það er í rauninni ekkert sem toppar það að veiða með börnunum sínum. Sonur minn hefur komið þar sterkur inn, dóttir mín hefur sýnt þessu minni áhuga en henni er reglulega boðið,“ segir Eiður.

Aðspurður hvort hann hafi farið í veiðiferðir úr fyrir landsteinana segist Eiður lítið hafa gert af því. Hann hafi þó farið eina ferð til Svíþjóðar að veiða stórlax ásamt æskufélaga sínum og verið hrifinn.

„Annars hef ég lítið verið að fara erlendis í veiði. Maður hefur verið að taka svo stíft á því hér heima að maður er eiginlega búinn á því eftir sumarið,“ segir hann og bætir við að þar með klárist líka heimildir eiginkonunnar.

Eiður ásamt Guðmundi Inga syni sínum.

Guðmundir Ingi byrjaði snemma að veiða með pabba sínum.

Hefur áhyggjur af hnignun laxastofnsins

Þegar talið berst að ástandi laxastofnsins og sjókvíaeldi þyngist yfir Eiði og hann sparar ekki stóru orðin. „Við höfum auðvitað miklar áhyggjur af laxastofninum og hvernig við högum okkur gagnvart umhverfisvernd. Laxastofninn hefur ekki gert annað en að hnigna síðan ég byrjaði í þessu sem lítill drengur. Menn hafa gripið til alls konar ráða, t.d. að sleppa seiðum þar sem hrygningin er að bregðast. Eins fóru menn fyrir einhverjum tíu árum að sleppa veiddum fiskum í auknum mæli og hætta maðkveiði. Í dag er í langflestum ám öllum fiski sleppt aftur,“ segir hann og bætir við að hann þekki vart þann veiðimann sem þráir ekki að stofninn taki sig upp aftur svo hægt verði að taka sér lax í matinn. „Það er frábær stund að elda lax sem maður hefur veitt sjálfur. En eins og ástandið er núna, þá hef ég einfaldlega ekki lyst á því að borða þennan fisk, honum er betur komið í ánni til að fjölga í stofninum.“

 „Skítaiðnaður“

Eiður er augljóslega gáttaður á þróun í sjókvíaeldi síðustu ár og segir það mikið áhyggjuefni. Líta beri til annarra landa þar sem menn séu í auknum mæli að færa eldið upp á land.

„Það eru nokkur fyrirtæki sem eru að byggja upp landeldið, Samherji t.d. er í mikilli uppbyggingu og fleiri. Þar eru menn að gera mjög vel og eru að horfa fram á veginn. Ég held að þetta sé matur sem þú vilt miklu frekar bera á borð fyrir þín börn. Það er algjörlega ljóst,“ segir Eiður ákveðinn.

„Ég hef sérstaklega áhyggjur af laxeldinu fyrir vestan þar sem þeir eru að eitra fyrir lúsinni og fylla firðina af skít. Þarna erum við að blanda því inn á svæði þar sem eru uppeldisstöðvar nytjastofna og þetta mun krossast á einhverjum tímapunkti. Þá fyrst verður allt vitlaust. Þess vegna skil ég ekki íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, af hverju þau vildu hýsa þennan skítaiðnað innan sinna vébanda í SFS. Það er óskiljanlegt að það hafi gerst á sínum tíma. Þau hafa enga hagsmuni saman. Íslenskur sjávarútvegur er að reyna sýna fram á að hann sé sjálfbær og hreinn, að selja villta og hreina matvöru og ætla sér svo að hýsa þennann iðnað, það er gjörsamlega óskiljanlegt. Það er einhver bullandi pólitík í þessu sem þarf einhvern tíma að svara fyrir,“ segir Eiður að lokum.

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast