Eigendaskipti á elstu snyrtistofu Akureyrar

Fyrrum og nýjir eigendur fyrir framan stofuna    Myndir Aðsendar
Fyrrum og nýjir eigendur fyrir framan stofuna Myndir Aðsendar

Eigendaskipti hafa orðið á elstu snyrtistofu Akureyrar en nýverið seldu þau Kristín Hildur Ólafsdóttir og Sigurður Sverrisson reksturinn á Abaco heilsulind.

Það voru þær Hugrún Lind Geirdal, Ingibjörg Hulda Jónsdóttir og Inga Heinesen sem keyptu reksturinn en þær tvær síðarnefndu höfðu áður rekið fyrirtækið Derma Klíník sem sérhæfir sig í fegrunarmeðferðu. Með eigendaskiptunum á Abaco mun reksturinn sameinast og verður fyrirtækið rekið undir nafninu Abaco heilsulind/Derma Klíník til að byrja með. 

Abaco er til húsa í Hrísalundi 1a og mun verða áfram undir dyggri handleiðslu þessara þriggja, en Ingibjörg Hulda og Inga eru hjúkrunarfræðingar og Hugrún Lind er snyrtifræðimeistari.

 Frá vinstri Hugrún Lind er snyrtifræðimeistari, Inga og  Ingibjörg Hulda  en þær eru hjúkrunarfræðingar 

Vikublaðið fékk þær stöllur í spjall, en þær eru harðákveðnar að halda rekstrinum í góðu horfi eins og áður hefur verið og halda áfram að bjóða Akureyringum uppá faglega og fjölbreytta þjónustu í heimabyggð: „Abaco býður upp á svo marga möguleika. Hún er elsta snyrtistofa Akureyrar og við erum ótrúlega stoltar af því að halda rekstrinum í “heimahéraði”.

,,Við erum með stóra drauma og sjáum fyrir okkur að geta verið starfsstöð fyrir fjölbreyttan hóp af metnaðarfullu fólki. Húsið er stórt og við getum og viljum sannarlega bæta við okkur góðu fólki sem getur notið félagsskaps og stuðnings af hvort öðru. Bæði ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í rekstri og þau sem eru með sjálfstæðan rekstur og vilja prófa nýtt umhverfi."

,,Í dag erum við svo heppnar að hafa Evu fótaaðgerðarfræðing hjá okkur. Við getum leitað til hennar og hún til okkar sem reynist okkur mjög dýrmætt. Við erum eina stofan á Akureyri sem býður upp á fegrunarmeðferðir hjá hjúkrunarfræðingum og við komum klárlega til með að bæta við okkur fleiri nýjungum og veita Akureyringum fjölbreytta þjónustu sem hefur hingað til verið bundin við höfuðborgarsvæðið.“

En hvernig kom það til að þær skyldu taka við rekstrinum af þeim Kristínu og Sigga?

„Inga og Hulda byrjuðu að leigja herbergi á Abaco í desember 2022 með fyrirtæki sitt Derma Klíník. Þær sáu strax hvað það eru mörg tækifæri á þessari rótgrónu snyrtistofu sem er einmitt 25 ára á árinu. Þær fengu svo Hugrúnu snyrtimeistara með sér í lið enda mikilvæg viðbót í teymið þar sem hún hefur starfað á Abaco síðan 2020 og þekkir reksturinn vel. Inga og Hulda voru með þennan draum í maganum frá fyrsta degi að taka við fyrirtækinu og er í raun ástæðan fyrir því að þær fluttu sig á Abaco.“

Eins og áður segir býður Abaco upp á gríðarlega fjölbreytta þjónustu en fyrir utan hinar hefðbundnu snyrtimeðferðir er einnig boðið upp á fylliefni og aðrar fegrunarmeðferðir.  Það er fullbúin baðstofa á staðnum og velútbúin nuddstofa. 


Athugasemdir

Nýjast