Eiga notalega stund yfir prjóna- skapnum og gefa afraksturinn

Prjónaklúbburinn Vinaprjón sem hittist á hverjum miðvikudegi á Orðakaffi á Amtsbókasafninum á Akurey…
Prjónaklúbburinn Vinaprjón sem hittist á hverjum miðvikudegi á Orðakaffi á Amtsbókasafninum á Akureyri. Myndir/ Aðsendar

mth@vikubladid.is

Vinaprjón

„Við prjónum og prjónum en höfum ekki í sama mæli komið okkar prjónelsi út, þannig að við ákváðum að prófa þessa leið,“ segir Anna Steinunn Þengilsdóttir sem er í forsvari fyrir prjónaklúbbinn Vinaprjón á Akureyri en klúbbkonur selja nú varning sinn á markaði á Hauganesi. Konur í klúbbnum hittast reglulega, prjóna saman og gefa Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis það sem prjónað er, en þaðan kemst varningurinn til skila þar sem hans er þörf.

Anna Steinunn segir að klúbburinn verði brátt fjögurra ára gamall, konurnar sem hann mynda hittust fyrst í ágúst árið 2018. Um það bil 8 til 10 konur eru innan hans raða og koma þær saman á Orðakaffi á Amtsbókasafninu á Akureyrar þar sem vel fer um hópinn. „Þetta spurðist út, vinkona mín var til í að vera með og svo slóst vinkona hennar í hópinn og þannig koll af kolli. Við erum því orðnar nokkrar í hópnum, sem myndum fastan kjarna.“

Áttum mikið magn

 Kórónuveiran sett sitt mark á félagsskapinn eins og á allt samfélagið á sínum tíma og á stundum var ekki hægt að blása til samfunda. Undanfarið ár hefur verið með þær hætti að konur hafa prjónað sem aldrei fyrr, saman eða sitt í hvoru lagi heima hjá sér og mikið safnast upp á varningi. Nú þegar sumar er gengið í garð og starfsemi Mæðrastyrksnefndar í lágmarki sem og einnig eftirspurn eftir ullarvarningi var ákveðið að prófa að koma prjónlesinu í verð, selja á markaði og gefa Mæðrastyrksnefnd innkomuna.

Fyrir valinu var að koma sér fyrir á markaðnum Himnaríki á Hauganesi og ætla Vinaprjónskonur að vera þar þrjár helgar í röð, síðustu helgi, um komandi helgi og einnig þá næstu. „Þetta gekk alveg ágætlega fannst mér, en vant fólk á markaðnum talaði um að hefði verið heldur rólegt, það hefði svo mikið verið um að vera annars staðar. En við verðum þarna líka næstu tvær helgar og eigum von á að varningur okkar gangi út,“ segir Anna Steinunn.

Notalegar stundir yfir prjónaskap og kaffibolla

Hún segir að konurnar eigi það sameiginlegt að hafa gaman af því að prjóna í góðum hóp. „Þetta eru notalegar stundir hjá okkur, yfir kaffibolla og góðu spjalli um leið og prjónaskapnum. Það er líka ánægjulegt að láta gott af sér leiða, en allt sem við framleiðum á þessum stundum fer til fólk sem virkilega þarf á því að halda,“ segir Anna Steinunn, en varningur sem konurnar prjóna er margvíslegur og bæði fyrir börn og fullorðna. Vettlingar og sokkar, sjöl, treflar og kragar, peysur og prjónasett á börn er á meðal þess sem Vinaprjónskonur prjóna á samverustundum sínum.

Hún segir að fyrir komi að félagsskapnum sé gefið garn, þannig hafi kona á Suðurlandi gefi mikið magn þegar hún hætti að prjóna og losaði sig við birgðir. Einnig hafi þær stundum fengið garn úr dánarbúum og eða fólk gauki að þeir garni. „Við nýtum allt sem við komumst yfir,“ segir hún.

Afköstin skipta engu

Auk þess að gefa Mæðrastyrknefnd prjónavörur hefur Kvennaathvarfið notið góðs af dugnaði prjónakvenna, Frú Ragnheiður hefur einnig komið varningi áfram til sinna skjólstæðinga og þá voru þær um tíma í samstarfi við Fjölskylduhjálp Íslandi í gegnum kunningjakonu. Innflytjendur hafa einnig fengið prjónaðan fatnað þegar þörf er á. „Allt sem við prjónum saman er gefið, það er rauði þráðurinn í þessu hjá okkur. Okkar markmið er að styðja við góð málefni og gleðja aðra. Afköstin skipta engu, mest er um vert að hittast og eiga góða stund saman. Þetta er fastur punktur í tilverunni hjá okkur og alveg ómissandi finnst okkur að hittast á hverjum miðvikudegi yfir prjónaskapnum. Þetta eru ánægjulegar stundir og gefur okkur öllum mikið, það er gott að vita af því að vinnan manns komi öðrum að gagni,“ segir Annar Steinunn.

Vinaprjón samsett

Vinaprjónskonur prjóna vettlinga og sokka, trefla, sjöl og kraga svo dæmi séu tekin.

Athugasemdir

Nýjast