„Ég hef fengið mjög mikil viðbrögð og vona að það leiði til góðs á endanum,“

Sigrún María Óskarsdóttir vakti athygli á því að lyfta fyrir fólk í hjólastól og er í Sambíóinu á Ak…
Sigrún María Óskarsdóttir vakti athygli á því að lyfta fyrir fólk í hjólastól og er í Sambíóinu á Akureyri er biluð og hefur verið um alllangt skeið. Hún skorar á eigendur bíósins að gera bragarbót á hið fyrsta Mynd aðsend.

 „Ég hef fengið mjög mikil viðbrögð og vona að það leiði til góðs á endanum,“ segir Sigrún María Óskarsdóttir sem í liðinni viku vakti athygli á því að lyfta fyrir fólk í hjólastól og er í Sambíóinu á Akureyri er biluð og hefur verið um alllangt skeið.

Sigrún María notar hjólastól. Hún fór með bróður sínum í bíó og þurfti hann ásamt starfsmanni kvikmyndahússins að bera hana í stólnum upp í sal þar sem lyftan virkar ekki. Fóru þeir inn í salinn að utan en engu að síður var upp tröppur að fara og ruslafötur til hliðanna.

Sigrún María greindi frá bíóferðinni á fésbókarsíðu sinni og hefur hún farið víða og verið tekin upp í fjölmiðlum. M.a. var hún í viðtali í Mannlega þættinum á Rás 1 í byrjun vikunnar. „Ég hef hins vegar ekki heyrt neitt frá Sambíóunum og það eru vonbrigði. Ég væri mjög mikið til í að fá einhvern í lið með mér til að fylgja þessu eftir því ég vil virkilega ná fram breytingum á ástandinu,“ segir hún. 

Þetta fer að verða þreytandi

Sigrún María greinir frá því að lyftan í Sambíóunum virki nánast aldrei og þannig hafi ástandið verið til margra ára. „Þetta fer að verða þreytandi. Í stað þess að leysa vandann og kaupa nýja lyftu er alltaf verið að bíða eftir aukahlutum í lyftuna sem gera nákvæmlega ekki neitt, kannski virkar lyftan í nokkrar vikur en svo fer allt í sama farið. Á Akureyri búa margir sem nota hjólastól og einnig fólk sem á erfitt með gang og ég er viss um að allir væru til í að geta farið í bíó þegar þá langar,“ segir hún og skorar á Sambíóin Akureyri að gera eitthvað í málinu sem fyrst.

Ýmsir flöskuhálsar aðrir eru hér og hvar á Akureyri að sögn Sigrúnar Maríu og nefnir hún sem dæmi aðgengi að skemmtistöðum sem víða mætti vera betra.

Vikublaðið óskaði eftir viðbrögðum frá Sambíóunum en svör hafa ekki borist


Athugasemdir

Nýjast