„Ég er mikið jólabarn“

„Ég fann það svo vel þegar ég þurfti að sitja heima í óveðrinu að það er fátt notalegra um þetta ley…
„Ég fann það svo vel þegar ég þurfti að sitja heima í óveðrinu að það er fátt notalegra um þetta leyti árs en að sitja heima í myrkrinu með góða bók,“ segir Svavar. Mynd/Daníel Starrason.

Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, er í viðtali á Facebooksíðu Akureyrarbæjar undir liðnum Sögur af fólki. Vikudagur birtir hér viðtalið en þar kemur m.a. fram að Svavar hefur dálæti á ítalskri matargerð.

„Ég er fæddur á Akureyri og var hér fyrstu 20 árin. Svo var ég í burtu meira og minna, fyrst við nám í Reykjavík og Þýskalandi og eftir útskrift fluttum við til Ólafsfjarðar. Hingað til Akureyrar komum við svo aftur 1995 og höfum verið hér síðan. Við vissum bæði að það væri mjög gott að vera hérna og það hefur gengið eftir,“ segir Svavar sem er giftur Bryndísi Björnsdóttur og eiga þau þrjú uppkomin börn. „Bryndís er úr Svarfaðardal og hleypti heimdraganum þegar hún kom hingað í menntaskóla og þar kynntumst við,“ segir Svavar.

„Á helling af áhugamálum“

„Ég á helling af áhugamálum,“ segir Svavar spurður út í þau mál. „Ég les mikið, einkum fræðibækur og ljóð, og skrifa. Mér finnst mjög gaman að ferðast og er sérstaklega mikill aðdáandi ítalskrar menningar og matargerðarlistar. Mér finnst líka mjög gaman að hjóla um Þýskaland og hef farið í nokkrar svoleiðis ferðir. Undanfarin fimm sumur hef ég svo farið í göngu um Hornstrandir og Jökulfirði sem mér finnst mjög heillandi landssvæði, en þangað á ég líka rætur að rekja. Á þessum ferðum tek ég myndir og ég get ljóstrað því upp að vonandi kem ég frá mér bók í vor með ljósmyndum og texta. Og fyrst við erum að tala um bókaútgáfu þá hef ég nú gefið út matreiðslubók og það er enn eitt áhugamálið, að búa til mat og kannski ekki síður að borða hann með góðum vinum. Svo syng ég í kór og hef gert í nokkur ár. Það er góður félagsskapur og svo er nú bara gott og gaman að syngja.“

Aðventan breyst í tímanna rás

En hvernig er þessi árstími hjá prestum? „Aðventan hefur breyst í tímans rás og annirnar eru öðruvísi. Ég er mikið jólabarn og finnst alveg indælt að undirbúa jólin, kaupa gjafir og plana matseðla. Svo snýst þetta líka um að geta orðið að liði, fólki sem einhverra hluta vegna er áhyggjufullt eða líður illa yfir því sem framundan er. Við höfum svo mörg úrræði í okkar samfélagi að það er um að gera fyrir fólk að leita sér aðstoðar, hvort sem það eru andlegir erfiðleikar, litlir peningar eða hvernig sem það er,“ segir Svavar, sem er nú farinn að huga að jólaræðunum. „Þótt það sé mjög vinsælt núna að tala um núvitund, þá held ég að það skipti ofboðslega miklu máli og langar mig að koma þeim skilaboðum áleiðis um þessi jól. Ég fann það svo vel þegar ég þurfti að sitja heima í óveðrinu að það er fátt notalegra um þetta leyti árs en að sitja heima í myrkrinu með góða bók. Það held ég að skipti máli, að nýta næðið sem þessir frídagar eiga að gefa okkur í eitthvað slíkt.“

Þykir vænt um samfélagið

Svavar segist vera svo heppinn að hafa, í gegnum starfið, fengið að kynnast og tengjast fjölmörgum Akureyringum, bæði á mestu gleðistundum og erfiðustu tímamótum í lífi fólks. „Mér þykir mjög vænt um þetta samfélag og sárnar alltaf þegar talað er illa um Akureyri í þau fáu skipti sem það er gert. Auðvitað má gagnrýna þetta samfélag fyrir margt, en maður lítur á þetta sem fjölskyldu því maður þekkir svo marga og hefur fengið að taka þátt í svo mörgu. Fyrir það er maður náttúrulega óendanlega þakklátur,“ segir Svavar Alfreð Jónsson


Athugasemdir

Nýjast