„Ég er algjör jólakálfur“

Ólíver með bók sína Langafi minn Supermann en sagan gerist á Ólafsfirði.
Ólíver með bók sína Langafi minn Supermann en sagan gerist á Ólafsfirði.

Ólíver Þorsteinsson, 26 ára rithöfundur og bókaútgefandi, er uppalinn Kópavogsbúi með sterkar tengingar við Ólafsfjörð sem hann hugsar til með hlýjum hug. Ólíver á og rekur sína eigin bókaútgáfu að nafni Leó en Ólíver er mikið jólabarn og hefur gefið út nokkrar jólabækur ásamt barnabóka seríu sem gerist á Ólafsfirði.

„Mamma mín ólst upp á Ólafsfirði og amma mín líka. Ættin mín í gegnum mömmu er bara frá Ólafsfirði, rosa mikið af frændfólki þar. Þannig að ég hef alltaf farið á hverju sumri til Ólafsfjarðar og gert það síðan ég var lítill og maður þekkir flesta þarna,“ segir Ólíver um tengsl sín við Ólafsfjörð. „Ég er alltaf í húsinu, Brekkugötu 9, þar sem langamma og langafi bjuggu, það er enn þá verið að viðhalda húsinu. Það er alveg yfir hundrað ára gamalt, langalangafi minn reisti húsið, Þorsteinn hét hann og var pabbi langömmu minnar,“ segir Ólíver.

50 jólapeysur og hákarl í morgunmat á Þorláksmessu

Aðventan og jólin er einn uppáhaldstími Ólívers á árinu en hann heldur mikið upp á þennan tíma ársins. „Ég er algjör jólakálfur. Ef þú myndir fara í skápinn minn núna þá væru yfir 50 jólapeysur þar og sokkarnir mínir, ég á eiginlega bara jólasokka,“ segir Ólíver en aðspurður veit hann ekki alveg hvaðan þessi áhugi á jólunum er upprunninn. „Ég veit það ekki. Foreldrar mínir voru ekkert að halda upp á jólin eins og ég geri núna. Það hefur einhvern veginn dottið í mig einhver jólapúki þegar ég var að útskrifast úr menntaskóla. Þá byrjaði ég að kaupa jólapeysur og þá var gert meira með vinunum og þá fyrst byrjaði maður að safna í einhverjar hefðir og halda í þær. En þetta er góð spurning, ég er ekki alveg viss af hverju þessi jólaveira beit mig.“

Ólíver heldur upp á eina óvenjulega jólahefð sem varð til úr algjörri hvít lygi fyrir fjórum árum. „Árið 2018 þá kom fyrsta bókin mín út, Leitin að jólakettinum, og þá fór ég í viðtal hjá Morgunblaðinu. Ein spurningin var hvort ég væri með einhverja skrítna jólahefð. Ég var ekki með neina skrítna jólahefð en ég vildi ekki skila bara auðu. Þannig að ég sagði að ég borðaði hákarl í morgunmat á Þorláksmessu, þetta var eiginlega bara hvít lygi. En eftir það byrjaði ég að borða hákarl í morgunmat á Þorláksmessu og horfa á Home Alone með bróðir mínum. Þannig að það er orðið að hefð núna og búið að vera í fjögur ár. Þetta er furðulegasta jólahefðin sem var gerð í einhverju flippi en þetta varð dálítið jólalegt fyrir mér,“ segir Ólíver flissandi.

Jól á Ólafsfirði

Ein minnisstæðustu jól Ólívers eru þegar hann og fjölskylda hans vörðu hátíðarhöldunum á Ólafsfirði í Brekkugötu 9. „Við vorum þar í gestahúsinu og þetta eru einu jólin sem ég hef verið annarsstaðar en bara heima hjá mér. Þetta var mjög, mjög fallegt, þetta var eins og að vera í bíómynd. Þú sérð hversu ýktur snjórinn er, hvernig hann fellur bara svona hægt og rólega og stór snjókorn,“ segir Ólíver með uppljómuð augun við tilhugsunina.

„Ég var 12 eða 13. Það var mjög gaman að sjá svona mikinn snjó, maður dettur aldrei úr jólafíling þarna þegar snjórinn blasir við manni. Svo er líka bara skemmtileg jólahefð þarna, ég held þau haldi enn í hana. Það eru jólasveinar sem koma og gefa gjafir á hverju ári í firðinum og keyra á milli. Ég fékk að vera með frænda mínum, jafngömlum mér, við vorum saman að pakka inn jólagjöfunum með einhverjum og fengum að hitta jólasveinana og það var ótrúlega skemmtilegt. Það var hlustað á jólatónlist, spjallað og undirbúnir pakkar fyrir krakka. Það var mjög mikil jólagleði þá,“ segir hann.

Það sem stóð þó upp úr að mati Ólívers þau jólin var að fá að verja aðfangadagskvöldi með langömmu sinni og langafa. „Að vera með langafa og langömmu á aðfangadagskvöld, það var það eftirminnilegasta vegna þess að ég sá þau sjaldan. Maður hefur búið í Kópavoginum allt sitt líf þannig að maður sá þau alltaf bara einu sinni til tvisvar á ári. Maður sá að það gladdi þau að fá okkur. Ótrúlega sérstök stund að fá að vera með þeim þarna yfir jólatímann, samverustundir með þeim,“ segir Ólíver með hlýju í hjarta.

Langafi minn Supermann

Ólíver stofnaði Leó bókaútgáfu árið 2020 eftir að hafa gefið út nokkrar bækur áður í samvinnu við önnur forlög. Leggur hann mikið upp úr bókmenntum fyrir börn en nokkrar af bókum hans hafa náð töluverðum vinsældum í þeim flokki bókmennta.

„Ég byrjaði árið 2018, þá var ég að lesa rosa mikið af myndasögum um Superman og ég sá einhverja ljósmynd af langafa mínum. Hann er ungur maður þegar þessi ljósmynd er tekin og hann krýpur niður og er með ömmu Dollu á myndinni. Þegar ég sé svipbrigðin hans þá minntu þau mig rosalega á Superman. Hann leit út eins og einhver Hollywood-stjarna á þessari mynd og þannig fæddist hugmyndin að Langafi minn Supermann,“ segir Ólíver um eina sína uppáhalds bók. „Ég byrjaði þá að skrifa þessa barnabókaseríu, Langafi minn Supermann, sem fjallar um unga stelpu sem fer norður á Ólafsfjörð til langömmu sinnar og langafa einmitt í Brekkugötu 9 þar sem húsið er. Þannig að allir staðir sem er farið á í bókinni eru til, eins og Tjarnarborg það er haldið ball þar og er gert enn í dag,“ segir Ólíver.

“Þetta eru bara sögur sem ég heyrði sem krakki um prakkarastrik langafa því hann var algjör grallari. Ótal sögur sem maður heyrði af honum sem fara bara inn í bókina og sögupersónurnar lenda í. Þetta er skáldskapur byggður á sögum um langafa. Það var mjög gaman að skrifa hana. Þetta átti þó aldrei að verða sería en þegar fyrsta bókin kom út á Storytel þá gekk henni svo vel þar, var tilnefnd sem besta barna- og ungmennabók þá. Ég tók þá upp þráðinn og skrifaði bók númer tvö sem var geðveikt vegna þess að þegar ég er að skrifa þetta þá er ég að tengjast rótunum mínum aftur,“ segir Ólíver glaðbeittur á svip. „Bók númer tvö var svo um jólin, Langafi minn Supermann jólastund, vegna þess að ég hafði sjálfur upplifað jól á Ólafsfirði og svo er ég algjört jólabarn þannig að ég þarf alltaf einhvern veginn að tengja jólin við allt.“

Þriðja barnajólabókin

Leó bókaútgáfa er að gefa út sína þriðju barnajólabók út fyrir jólin í ár sem ber heitið Í frosti og snjó, býr könguló. Ólíver segir að hann búist við að hún verði vinsæl líkt og fleiri af jólabarnabókum sem Leó hefur gefið út. „Þær hafa heppnast vel og það er byrjað að taka vel í þá nýju sem fjallar um könguló sem er að reyna að sýna maríubjöllu hvað jólin snúast um. Bókin er mjög falleg og skemmtileg. Það er bókin í ár,“ segir rithöfundurinn og bókaútgefandinn Ólíver Þorsteinsson að lokum.


Athugasemdir

Nýjast