Dýrahræ fundust á víðavangi við Línuveg á Húsavík

Frá Húsavík
Frá Húsavík

Steingrímur Hallur Lund rak í rogastans á dögunum þegar hann var úti að viðra hundinn sinn úti á Bakka við Línuveg í landi Húsavíkur. Hann var ekki komin langt frá veginum þegar hann gekk fram á dauða rollu, sem búið var að klippa af eyrun. Skammt undan gekk hann svo fram á fimm selshræ.

Hræið af rollunni segir Steingrímur ekki hafa borið með sér að hafa drepist þarna á staðnum, og ef hann efaðist um að hræinu hefði verið komið fyrir þarna, þá gufaði sá efi upp þegar selirnir blöstu við honum. Ekki sé líklegt að þeir hafi komið sér fyrir þarna sjálfir undir fjalli til þess að drepast.

„Ég var nú bara að viðra hundinn hérna upp með Línuveginum við Bakka og þetta liggur þar með veginum. Það er ein rolla þarna og fimm selir,“ segir Steingrímur hneykslaður.

Blöskraði aðkoman

„Mér blöskraði að sjá þetta og setti myndir af þessu á Húsavíkursíðuna á Facebook þar sem þetta hefur vakið hörð viðbrögð,“ útskýrir Steingrímur og furðar sig á að nokkur skuli hafa fyrir því að draga sel úr sjó til þess eins að drösla honum upp í heiði. „Þetta er svo galið að það nær ekki nokkurri átt.“

Steingrímur segir jafnframt að hræin blasi við manni um 30 metra frá veginum og minni einna helst á dýragrafreit. „Það er meira þarna af viðbjóði eins og beingarðar úr fiski og þorskhausar og annað í þeim dúr,“ segir hann.

Komið á borð sveitarfélagsins

Elvar Árni Lund, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Norðurþings segir að málið sé komið inn á sitt borð og brugðist verði við því á viðeigandi hátt.

„Það kom tilkynning til lögreglu sem beinist til heilbrigðisfulltrúa og þaðan kemur þetta á okkar borð. Við munum bregðast við þessu og fjarlægja hræin. Ástandið á þessu svæði er bara þannig núna að þetta er eitt drullusvað af því þetta er að koma undan leysingum, þetta er að koma undan snjó núna þess vegna birtast þessir selir þarna. Þessu hefur verið fleygt þarna einhvern tíma í vetur,“ segir Elvar Árni.  „Í fullkomnu leyfisleysi náttúrlega,“ bætir hann við.

Óskiljanleg framkoma

Elvar Árni segir aðspurður að enginn hafi gefið sig fram um bera ábyrgð á hræunum, það sé í höndum lögreglu að rannsaka það en þá þurfi heilbrigðiseftirlitið að óska eftir því við lögreglu. „Þetta er bara tilkynning um hræ á víðavangi og við sjáum um að fjarlægja þau af því að þetta er inn á okkar landi. Þetta er auðviðtað alveg glórulaust, ég eiginlega bara skil ekki hvað vakir fyrir mönnum sem gera svona,“ segir hann furðu lostinn.

„Málið er alla vega komið í farveg hjá okkur, við munum hreinsa þetta upp. Jörðin er einn dúandi svampur og erfitt að komast að þessum með tækjum eins og er og ekki geðslegt að vera draga þetta á höndum, búið að liggja þarna úti í allan vetur,“ segir Elvar Árni að lokum.


Athugasemdir

Nýjast