Dóttir jólasveinsins

Margrét Vera í jólaævintýrinu
Margrét Vera í jólaævintýrinu

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Margrét Vera Benediktsdóttir, 35 ára, er „dóttir jólasveinsins“ og meðeigandi Jólagarðsins í Eyjafjarðarsveit eða Jólahússins eins og flestir kalla það. Hún fær aldrei leið á jólunum og segist þrífast best í myrkri og kulda og njóta árstímans. Jólapakkar eru sérstakt áhugamál hennar og leggur hún áherslu á afslappað andrúmsloft með fjölskyldunni um hátíðina.

Margrét var tólf ára þegar foreldrar hennar opnuðu Jólagarðinn árið 1996 og segist hún muna vel eftir því og fannst þetta allt mjög spennandi. Hún man í raun ekki eftir því að lífið hafi verið neitt öðruvísi en með jólum allan ársins hring. Margrét fékk að taka þátt í störfum fyrirtækisins strax í upphafi og segir að margt og fjölbreytt hafi þurft að gera. Tólf ára gömul og klædd í jólakjól fékk hún að spreyta sig á því að afgreiða, sem hún segir eftirminnilegt. Hún segir að fólk átti sig ábyggilega ekki á því hve húsnæðið og reksturinn var mikið umfangsminni í þá daga. Í dag er meira að gera og Margrét segir starfsemina vera með öðru sniði.

„Skemmtilegast er hve gestirnir eru alltaf glaðir og sérstaklega finnst okkur gaman að sjá þá viðskiptavini sem komu á sínum tíma sem börn, en heimsækja okkur með börnin sín í dag. Þannig tekur ein kynslóð við af annarri.“

Viðskiptavinir eru þátttakendur í ævintýrinu

Margrét hefur ferðast um heiminn og búið víða, þar á meðal í Danmörku, Ástralíu, á Orkneyjum og í Reykjavík. „En hjartað slær alltaf í snjónum og myrkrinu heima í Eyjafjarðarsveit,“ segir hún, „það er alltaf gott að fara til að geta komið aftur því þá kann maður svo miklu betur að meta það sem maður hefur.“

Margrét segir það ekki beint hafa verið planið að verða formlega eigandi í fyrirtækinu en eitt leiddi af öðru og þessi vinna fer henni best, að eigin sögn. Hún segist einnig vera svo lukkuleg að eiga mann sem vill búa á Akureyri. Margrét er gift Gunnari Má Gunnarssyni og í dag taka strákarnir þeirra, Bjarnhéðinn og Snjóki, þátt í starfsemi Jólagarðsins eins og flest börn í fjölskyldunni hafa gert. Yngri kynslóðin hefur það mikilvæga verkefni að ferja eldivið að jólahúsinu og koma honum fyrir, „Þeir sinna því galvaskir,“ segir Margrét. Stundum fá þeir einnig að trítla um svæðið með pípuhattana sína og finnst mjög gaman að fá að taka þátt. Þeir eru á sama aldri og Margrét var þegar Jólagarðurinn var opnaður.

„Þetta er í raun allt svolítið ævintýri og þú verður ein af persónunum í ævintýrinu þegar þú tekur þátt. Gestirnir eru auðvitað líka þátttakendur í ævintýrinu okkar.“ Margrét segir staðinn lifa dálítið sjálfstæðu lífi og stemninguna líka. Hún segir gestina eiga jafn mikinn þátt í að skapa stemninguna eins og starfsfólkið og umhverfið. Þó það séu alltaf jól er stemningin misjöfn eftir árstíðum og ævintýrið ekki alltaf það sama.

Jólagjafir sérstakt áhugamál

Margrét er oft spurð hvort hún fái ekki leið á jólunum og á jólalögum. Hún segist fá leið á hvorugu. Hún heldur hefðbundin jól með öllu því sem fylgir en þó þurfa þau hjón að undirbúa jólin snemma vegna þess hve mikið er að gera í fyrirtækinu síðustu daga fyrir jól. Um viku fyrir jól skreytir Margrét með fjölskyldu sinni heima fyrir og viðurkennir að hún eigi töluvert af skrauti og það sé nánast aldrei eins skreytt á heimilinu milli ára.

„Mér finnst þetta notalegur tími, hef gjarnan kveikt á kertum og sit oft við arinstæðið úti í garði á kvöldin þegar þannig viðrar,“ segir hún en þess má geta að þar var spjallað við hana við snark í eldi og með kakó í hönd.

Þegar Margrét er spurð hvað henni finnist ómissandi á jólunum segir hún: „Ég myndi kannski vera fyrirsjáanleg og segja að það væri ómissandi fyrir mig að hafa manninn minn og strákana hjá mér.“ Hún segir að annað sé ekki ómissandi, „svo lengi sem allir eru frískir og glaðir. Þá eru gleðileg jól.“

Margrét minntist þó á að jólagjafir eru sérstakt áhugamál hjá henni og henni finnst fátt skemmtilegra en að hugsa um hvað hún eigi að gefa hverjum og pakka því inn. Hún eyðir mörgum kvöldum í desember langt fram á nótt í að pakka inn, bara af því hún nýtur þess. Hún segir að gjafir séu stundum ekki bara gjafir og það geri þetta svo ánægjulegt. Hún gefi heldur ekki alltaf sama fólkinu og tileinki sér máltækið „sælla er að gefa en þiggja.“

Nýtur augnabliksins og hátíðarinnar

Margrét segist taka foreldra sína til fyrirmyndar þegar kemur að gestrisni um jólin. Fólk er velkomið í heimsókn alveg sama hvaða dagur er og þá einnig á aðfangadag. Hún hefur reynt að halda í það að hafa hlutina ekki alltof formfasta heldur svolítið opna. Hún segir því mjög breytilegt hverjir séu í mat heima hjá henni á aðfangadagskvöld. En frá fjölskylduhefðinni er ekki vikið að elda alltaf lambakótelettur í raspi fyrir hátíðarkvöldverðinn.

Margréti finnst best að leyfa jólahefðunum að vera í lausu lofti og meira að segja svolítið sjálfkrafa. „Ánægjulegustu stundirnar eru þegar maður nýtur augnabliksins og sér til hvað gerist.“

-IHJ


Athugasemdir

Nýjast