Djákninn á Myrká í Samkomuhúsinu

Birna Pétursdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson eru einu leikararnir í sýningunni og skipta með sér öll…
Birna Pétursdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson eru einu leikararnir í sýningunni og skipta með sér öllum hlutverkum, sem eru um 20 talsins.

Djákninn á Myrká, Sagan sem aldrei var sögð, verður sýnt í Samkomuhúsinu á Akureyri, fimmtudaginn 23. maí og föstudaginn 24. maí kl. 20:00. Um er að ræða samstarfsverkefni sviðslistahópsins Miðnættis og Leikfélags Akureyrar. Miðnætti er leikhópur sem í grunninn er skipaður þremur listakonum úr mismunandi listgreinum en hópurinn fær til sín ýmsa listamenn í mismunandi verkefni. 

Hópinn skipa leikkonan og leikstjórinn Agnes Wild, tónlistarkonan Sigrún Harðardóttir og leikmynda- og búningahönnuðurinn Eva Björg Harðardóttir. Leikritið er byggt á frægustu draugasögu íslandssögunnar, Djáknanum á Myrká. Þjóðsagan sjálf er ekki nema um þrjár blaðsíður að lengd, en sýningin er um 60 mínútur. Í leikverkinu er lesið á milli línanna og komist að ýmsu fróðlegu og skemmtilegu sem tengist sögunni. Þótt djákninn og Guðrún séu vissulega aðalsöguhetjurnar eru ýmsir aðrir skemmtilegir karakterar inná milli sem spila mjög mikilvægt hlutverk í framvindu sögunnar. Þar má nefna Berg og Sigurlaugu, systkinin á Þúfnavöllum.

Tveir leikarar eru í sýningunni, þau Birna Pétursdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson. Þau skipta með sér öllum hlutverkum, sem eru um 20 talsins. Birna og Jóhann hafa hlotið mikið lof fyrir leik sinn í vetur hjá MAk í sýningunum Kabarett, Krúnk krúnk og dirrindí og Gallsteinar afa Gissa. Sýningin er unnin með svokallaðri "samsköpunar" aðferð (en. devised) en þar vinnur hópurinn allur saman að því að búa til leikritið frá grunni. Ýmsar aðferðir eru notaðar í sköpunarferlinu, m.a. spuni og rannsóknarvinna. Bæði leikarar og listrænir stjórnendur taka þátt í öllu ferlinu. Sagan er skoðuð út frá öllum mögulegum sjónarhornum, karakterar fæðast og stíll mótast.

„Í þessu tilfelli hefur hópurinn fundið ýmsar kómískar hliðar á sögunni svo úr varð sprenghlægilegur en jafnframt hrollvekjandi gamanleikur fyrir alla fjölskylduna,“ segir í tilkynningu.  

 


Nýjast