dansmyndahátíðin Boreal í fjórða sinn

Fjórða útgáfa dansmyndahátíðarinnar Boreal fer fram 10. - 23. nóvember 2023. Hátíðin leggur undir sig hið alræmda Listagil á Akureyri þessar tæpu tvær vikur og fara sýningar fram í Listasafninu á Akureyri, Deiglunni og Mjólkurbúðinni. Herlegheitin hefjast nú á föstudaginn með setningarathöfn og fyrstu sýningum í Ketilhúsi Listasafnsins á Akureyri.

Boreal Screendance Festival miðar að eflingu danslista og margmiðlunar með sérstaka áherslu á alþjóðasamstarf. Í ár verða sýndar 36 dansmyndir og vídeódansverk vítt og breitt um Listagilið. Þessi útgáfa Boreal markar einnig fyrsta skiptið þar sem dansverk er flutt á sviði fyrir framan áhorfendur. Kemur það í hlut Suður-Kóreska listamannsinns Hoyoung Im sem flytur dansgjörningin EUPHORIA í Deiglunni 16. nóvember. Boreal stendur einnig fyrir samkomum og fögnuðum á sýningartímanum.

Verkin sem sýnd verða í ár eru eftir listafólk frá 22 löndum og hefur dagskráin aldrei verið fjölbreyttari þegar litið er til fjölda listafólks, fjölbreytni verka og uppruna þeirra.

Mikið púður er lagt í umgjörð hátíðarinnar og að verkin sem tekin eru til sýningar séu sett fram við bestu mögulegu aðstæður hvað varðar hljóð og mynd. Sé miðað við aðsókn síðustu ára hentar Boreal jafnt heimafólki, aðfluttum sem og ferðamönnum enda alþjóðleg hátíð í anda. Allir gestir ættu þannig að geta fundið eitthvað við sitt hæfi enda fjölbreytileiki dansmyndanna gríðarlegur sem endurspeglar vel þann fjölda listafólks allsstaðar að úr heiminum sem tekur þátt.

 Sérstaða verkefnisins er gríðarleg enda eina hátíðin sinnar tegundar sem haldin er árlega hérlendis. 

 Það er samtímadansarinn og danshöfundurinn Yuliana Palacios sem er stofnandi og verkefnastjóri Boeral. Yuliana er frá Mexíkó en fluttist til Íslands árið 2016 og hefur síðan þá látið að sér kveða í menningarlífinu hérlendis. Hefur hún ýmist sett upp sett upp sjálfstæð dans- og gjörningaverk eða unnið í samstarfi við annað listafólk auk þess að sinna kennslu. Síðustu ár hefur Yuliana æ meir fengist við vídeódans og er dansmyndahátíðin Boreal ein birtingarmynd þess.

 Boreal hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2021 sem veitt eru framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni. 

 Samstarfs- og styrktaraðilar Boreal Screendance Festival 2023 eru: SSNE og Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra, Physical Cinema Festival, Prentmet/Oddi, Listasafnið á Akureyri og Gilfélagið/Deiglan

borael

 


Athugasemdir

Nýjast