Býður nemendum að kynna sér Hælið, setur um sögu berklanna

María  Pálsdóttir eigandi Hælisins, setri um sögu berklanna, sem staðsett er að Kristnesi í Eyjafjar…
María Pálsdóttir eigandi Hælisins, setri um sögu berklanna, sem staðsett er að Kristnesi í Eyjafjarðarsveit hlaut Landstólpann á ársfundi Byggðastofnunar á dögunum.

Margrét Þóra Þórsdóttir

mth@vikubladid.is


 „Viðbrögðin hafa verið mjög góð og því hef ég fullan hug á að halda þessu áfram,“ segir María Pálsdóttir eigandi Hælisins, setur um sögu berklanna á Kristnesi í Eyjafjarðarsveit, en hún hefur tekið á móti skólahópum nú undanfarnar vikur þar sem börnin fá tækifæri til að kynnast sögu þessa skæða sjúkdóms, berklanna sem fyrrum lagði marga að velli.  María sótti um og fékk styrk frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra vegna heimsókanna.

Það eru krakkar í 6. bekk sem komið hafa í heimsókn á Hælið, en í einhverjum tilvikum börn úr öðrum bekkjum, 5. eða 7. „Þetta er dágóður hópur sem farið hefur hér í gegn og ég heyri ekki annað en allir séu ánægðir með heimsóknina,“ segir María. Alls hafa 10 grunnskólar á svæðinu nýtt sér boð Maríu um heimsókn á Hælið, allir skólarnir á Akureyri, Þelamerkurskóli, Hrafnagilsskóli og Grenivíkurskóli.

  Hef fullan hug á að halda þessu áfram

Hælið

Nemendur úr Hrafnagilsskóla kynna sér sögu berklanna  sem sögð er á Hælinu á Kristnesspítala.

 Fyrirkomulagið er þaulskipulagt og gengur smurt upp segir María, en hverjum hóp er skipt upp í þrjá minni hópa. Einn fer í kynnisferð um setrið og fær innsýn í sögu berklanna hér á landi, á meðan er annar hópur er á flötinn við Kristnesspítala í leikjum og hópefli og einn hópur fer í skógargöngu um Reykhússkóg ofan við Hælið. Einn starfsmaður fylgir hverjum hóp, þannig að þrjá þarf til að taka á móti hverjum skólahóp.

María segir að hún hafi fullan hug á að halda þessu starfi áfram og vonar að til þess fáist styrkur, grunnskólarnir sjálfir hafi ekki úr miklu fé að spila til að nýta í fræðlsuferðir af þessu tagi.

María hlaut á dögunum Landsstólpann, viðurkenningu sem veitt er einhverjum sem  skarað hefur fram úr í sínum verkefnum eða störfum. Auk þess að reka Hælið er hún skólastjóri Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. María setti upp leikverkið „Tæring“  í samstarfi við Leikfélag Akureyrar en það var sýnt á Hælinu Hún hefur jafnframt verið hvatamaður að því að bjóða skólabörnum í leikhús í samstarfi við ýmis fyrirtæki á svæðinu og þá stendur hún að baki Fiðringi á á Norðurlandi en það er hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum Akureyrar og nágrennis. Fiðringur er að fyrirmynd Skrekks sem haldinn hefur verið í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi.

 Óvænt og skemmtilegt

„Það eru mikil verðmæti fólgin í því að sögunni hafi verið komið til skila með þeim myndarskap sem sjá má og upplifa á Hælinu. María á miklar þakkir skildar fyrir það frumkvæði, drifkraft og eljusemi sem hún hefur sýnt með því að koma þessu tímabili í sögu Íslendinga í þann búning sem upplifa má á sögusetrinu,“ segir í umsögn dómnefndar.

„Þetta var mjög óvænt og skemmtilegt. Ég er virkilega stolt af því að hafa hlotið þessa viðurkenningu og það er alls ekki leiðinlegt að vera þar í góðum hópi þeirra sem áður hafa fengið Landstólpann. Þar eru svo sannnarlega margir mætir menn og konur,“ segir María og kveðst vissulega ánægð með að fólk taki eftir því sem hún er að gera.“

„Ég er bjartsýn á sumarið, ég held að margir verði á ferðinni hér norðan heiða og leggi leið sína inn í Eyjafjörð,“ segir María. Sumaropnun Hælisins hefst um miðjan júní og verður opið alla daga frá 13 til 18 fram á haustið. Skógarböðin sem opnuð voru nýlega segir hún án vafa munu laða marga að auk þess sem ýmislegt áhugavert sé í boði í sveitarfélaginu. María telur ekki ólíklegt að hún muni bjóða upp á viðburði í sumar, tónleika eða annað sem lífgar upp á tilveruna.

Hælið


Athugasemdir

Nýjast