Bjóða upp á sannkallaðar ævintýraferðir á sæþotum

Björn Rúnar er vanur maður. Myndir: Stefán Guðmundsson.
Björn Rúnar er vanur maður. Myndir: Stefán Guðmundsson.

Sumarið virðist loksins vera komið og lífið fyrir neðan bakka á Húsavík er að  færast í aukana með hverjum deginum. Mikið er um ferðafólk og eru flestir að þræða matsölustaðina og ýmist að koma eða fara í hvalaskoðun enda hefur Húsavík verið nefnd höfuðborg hvalaskoðunar á Íslandi.

En þegar fólki langar í afþreyingu og ævintýri sem kemur blóðinu af stað, þá er hægt að treysta á Björn Rúnar Agnarsson og Eddu Lóu Philips en þau stofnuðu ásamt félaga sínum, Eggerti Finnbogasyni seint síðasta sumar, ferðaþjónustufyrirtæki sem býður upp á skemmtiferðir á sæþotum, Húsavík Jetski sem hefur slegið í gegn.

Vikublaðið heyrði í Birni á dögunum en þá var hann í bílskúrnum að sinna viðhaldi á tveimur sæþotum. „Það þarf að fara vel yfir þetta með reglulegum hætti til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi,“ segir hann.

Sumarið að lifna við

Jetski Naustavík

Aðspurður segir Björn Rúnar að starfsemin fari ágætlega af stað þó sumarið hafi látið bíða aðeins eftir sér.

„Við byrjuðum í fyrra og það er náttúrlega búið að vera rólegt núna vegna veðurs en gærdagurinn var sturlaður,“ segir Björn og er þar að tala um sunnudag fyrir rúmri viku.

 Ekki bara leiktæki

Jetski leikið sér

Björn Rúnar segir að sæþoturnar séu ótrúleg farartæki sem geti mun meira en fólk gerir sér grein fyrir. Þetta sé ekki aðeins leiktæki þó vissulega sé hægt að nota þær sem slíkar innan skynsamlegra marka. Mögulegt sé að nota þær í lengri skoðunarferðir, allt upp í átta tíma ef því er að skipta.

Mf: Fimm tíma ævintýraferð

Björn Rúnar fór einmitt í eina slíka ferð á dögunum ásamt góðu fólki. Ferð sem hefur verið lýst sem þeirri rosalegustu á sjóferðaferlinum af vönum skipsstjórum. Björn Rúnar og Edda Lóa voru með í för ásamt þeim Stefáni Guðmundssyni hjá GG Hvalaferðum, Jónasi Sigmarssyni, Jóel Þórðarsyni, Áka Haukssyni og Þórði Guðna Hreinssyni.  

„Já, við fórum nokkrir félagar eitt kvöldið í bölvuðum kalda svona til að kortleggja svæðið og þetta endaði með fimm tíma ferð,“ segir Björn Rúnar og heldur áfram:

„Við fórum beint út í Naustavík og þræddum svo víkurnar og alveg út í Flateyjardal. Þar fóru þeir Stebbi og Áki aðeins í land. Héldum svo áfram yfir í Falatey  og stoppuðum þar í góðan hálftíma og svo brunuðum við heim í sólarlaginu um miðnættið. Það var alveg geðveikt, engu líkt,“ útskýrir Björn.

Aðspurður segir hann að sæþoturnar séu vel til þess fallnar að nota í langferðir. „Já ef þú keyrir þannig, það er alveg hægt að fara í átta tíma ferð ef maður hagar sér,“ segir Björn og hlær.

Allt að fimm ferðir á dag

Jetski fossar

Aftur að Húsavík Jetski; fyrirtæki sem hóf rekstur í lok júlí á síðasta ári og er með aðstöðu niðri á Húsavíkurhöfn. Björn Rúnar segir að þau séu ekki að leigja út skíði eins og einhverjir virðast halda heldur er alltaf leiðsögumaður með í för. Boðið eru upp á allt að fimm ferðir á dag, . Klukkan 9, 11, 13, 15 og 17, en hver ferð tekur um klukkustund.

„Þetta er alveg fastur hringur. Ég byrja að fara með fólk aðeins í suðurfjöruna af því flestir eru óvanir og leyfi þeim að fá aðeins tilfinningu fyrir farartækinu, svo er siglt hér með fram og út fyrir Kaldbakssker og í Saltvíkina. Það er vinsælt að fara í hellinn þar eða Gvendarbásana. Við stoppum gjarnan þar og fólk er mikið að mynda. Svo út sandana og stoppa þar og leyfi fólki að leika sér aðeins en innan skynsamlegra marka. Svo straujum við út Skjálfandann  og svona í átt að Lundey. Við endum yfirleitt þarna við Vitann undir Sjóböðunum. Þar er vinsælt að mynda við fossinn sem  fellur þar fram af. Svo er farið heim á leið en þetta er um klukkutíma hringur,“ útskýrir Björn Rúnar og segir að fólk sé alveg í skýjunum með þetta þegar komið er í land.

Blaðamaður spyr þá hvort þetta séu fyrst og fremst skoðunar ferðir og Björn játar því.

Hægt að panta sérhannaðar ferðir

„Við erum alltaf með leiðsögn og  erum ekki að leigja út skíðin án fylgdar en að sjálfsögðu fær fólk að leika sér á öruggum svæðum,“ segir hann og bætir við að það sé að einnig hægt að panta lengri og sérhannaðar ferðir.

„Við getum auðvitað boðið upp á lengri ferðir ef fólk óskar eftir því, bara það sem hugmyndaflugið býður upp á. T.d. að sigla út í Flatey og leyfa fólki aðeins að skoða sig þar um. Svo fór ég á dögunum með ljósmyndara frá Austurríki í tveggja tíma ferð og . hann myndaði allt í bak og fyrir.“

Eru ekki að eltast við hvali

Einhverjir gætu haldið að þar sem Húsavík er bær sem er hvað þekktastur fyrir hvalaskoðun að hér væri um að ræða hvalaskoðunarferðir með tvisti. En Björn leggur áherslu á að þau séu ekki að bjóða upp á hvalaskoðun þó vissulega komi fyrir að fólk sjái hval.

„Við erum ekki að eltast við hvalina eða flækjast á sömu slóðum og hvalaskoðunarbátarnir en ef hvalirnir eru fyrir okkur, þá að sjálfsögðu stoppum við og leyfum fólki að skoða. Það er helst þegar við erum að nálgast Lundey að þeim bregður fyrir,“ segir Björn og leggur áherslu á að það séu frekar undantekningar.

Vinsælt meðal fjölskyldna

Jetski sólarlag

Húsavík jetski er með fjórar gæða sæþotur og geta því verið allt að átta manns í hverri ferð; tveir á hverri þotu og hefur þetta verið vinsælt meðal fjölskyldufólks. 

Aðspurður hvað sé hægt að fara með ung börn með sér, segir hann að það megi vera með barn á brjósti þess vegna og hlær. „Það er að fara alveg niður í sjö ára og þá er það foreldri sem siglir skíðinu. Við klikkuðum aðeins á þessu í fyrra. Þá var að koma svo mikið af fjölskyldufólki. Kannski hjón með tvö börn og vildu fara með þau. Við vorum ekki að reikna með því til að byrja með þannig að við keyptum minni galla svo nú er hægt að fara með krakkana sína enda er mikill áhugi á því,“ segir hann.

Aðspurður hvort Húsavík Jetski sé komið til að vera svarar Björn Rúnar því til að hann vonist til þess og sé bjartsýnn á að svo verði. „Þetta sumar sker svona úr um það. Við náttúrlega byrjuðum svo seint í fyrra, bara í lok júlí en það kom mjög vel út. Það svo sem er ekkert komið almennilegt sumar í ár en það er samt búið að vera slæðingur. Fyrsta helgin í maí var mjög góð en svo kom náttúrlega vetur í júní en þetta er allt að mjakast í áttina,“ segir Björn Rúnar að lokum.


Athugasemdir

Nýjast