Bjarmahlíð, þjónustumiðstöð hefur verið starfrækt í 5 ár

Öllum þeim sem leita aðstoðar á Bjarmahlíð er veitt þjónusta, flestir koma úr sveitarfélögum á Norðu…
Öllum þeim sem leita aðstoðar á Bjarmahlíð er veitt þjónusta, flestir koma úr sveitarfélögum á Norður- og Austurlandi.
„Bjarmahlíð er rekin með styrkjum en óskastaðan er sú að komast á fjárlög en þannig mætti nýta tíma sem fer í að eltast við peninga í reksturinn til að auka þjónustuna enn frekar,“ segir Kristín Snorradóttir teymisstjóri hjá Bjarmahlíð, þolendamiðstöð á Akureyri. Fimm ár eru um þessar mundir frá því starfsemin hófst og var tímamótanna minnst með afmælishófi á Múlabergi í gær, miðvikudag.
 Bjarmahlíð var sett á fót sem tilraunaverkefni með styrk frá tveimur ráðuneytum á sínum tíma. Samstarfsaðilar sem leggja Bjarmahlíð lið eru fjölmargir, stjórnvöld, sveitarfélög og frjáls félagasamtök. Öllum sem þangað leita er veitt þjónusta og hafa þolendur komið af öllu landinu, en flestir búa á Norður- eða Austurlandi.
Fjölmargir þolendur fengið aðstoð á erfiðum stundum
Verkefnið hefur fyrir löng sannað gildi sitt og fjölmargir þolendur fengið þar aðstoð á erfiðum stundum. Fyrirmyndin var sótt til Bjarkahlíðar í Reykjavík en Kristín segir þörfina mikla fyrir norðan. Bjarmahlíð veitir þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi aðstoð sem og aðstandendum þeirra, en að auki er ungmennum á aldrinum 16 til 18 ára einnig veitt þjónusta.
„Það er mikil þörf fyrir þetta úrræði norðan heiða,“ segir hún. „Við veitum áfallamiðaða nálgun, grípum fólk eftir að það hefur orðið fyrir ofbeldi og þegar það er reiðubúið að tjá sig um ofbeldi sem það hefur einhvern tíma á lífsleiðinni orðið fyrir. Fyrsta skrefið er að einstaklingurinn upplifi öryggi og að einhver sé til staðar til að leiðbeina,“ segir Kristín sem yfirleitt tekur fyrsta viðtalið og er í senn áfallamiðuð ráðgjöf og greining á þjónustuþörf hvers og eins.Í framhaldinu er gerð áætlun um hvert mál og kallaðir til samstarfsaðilar ef við á þannig að talsverð vinna liggur að baki hverju fyrsta viðtali.
 
Því miður hefur ofbeldi aukist
Þá segir Kristín að Bjarmahlíð veiti einnig fræðslu til fagfólks og félagasamtaka um einkenni ofbeldis og bjargráð, en fræðsla og forvarnir séu stór hluti af starfseminni. Auk teymisstjóra er ráðgjafi í hálfu starfi hjá Bjarmahlíð.  „Það hefur orðið mikil aukning frá því starfsemi hófst og að líkindum má að einhverju leyti rekja það til vitundarvakningar um að ofbeldi eigi aldrei rétt á sér og því fleiri sem sækja sér aðstoð hafi þeir orðið fyrir því,“ segir hún og bætir við að það sé jákvætt að fólk leiti sér aðstoðar.
Kristín tók við sem teymisstjóri 1. nóvember 2023, hefur starfað í hálft ár og á þeim tíma eru skráð 155 viðtöl, þar af 64 sem fyrstu viðtöl. „Því miður hefur ofbeldi aukist hér á landi og það kemur fram í ýmsum myndum, heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, andlegt og starfrænt ofbeldi, en ofbeldi á sér margar myndir og ekki alltaf sem þolendur  átta sig á því að þeir búa við ofbeldi,“ segir Kristín. „Við mætum hverjum og einum í hlýlegu og öruggu umhverfi og á þeirra forsendum þeim að kostnaðarlausu.“
Kristín Snorradóttir teymisstjóri hjá Bjarmahlíð

 Sveitarfélög beri ábyrgð

Kristín segir brýnt að samfélagið horfi á vandann sem við er að etja og leggi úrræði á borð við Bjarmahlíð lið með stöðugu fjármagni á fjárlögum þannig að starfið geti þróast og eflst. „Það er þjóðhagslega hagkvæmt að byggja upp sterka einstaklinga,“ segir hún.

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að veita Bjarmahlíð 1,5 milljónir króna í tilefni af tímamótunum. Fram hafa komið raddir sem verða æ háværari um að binda þurfi í lög að sveitarfélög beri ábyrgð á því að veita þolendum ofbeldis þjónustu, að þar sé um að ræða hlutverk sem eigi að falla undir félagsþjónustu.

 

 


Athugasemdir

Nýjast