Bítlarnir og klassískt rokk á Græna hattinum

Dúndurfréttir.
Dúndurfréttir.

Abbey Road, hljómplata Bítlanna, fagnaði 50 ára afmæli síðastliðinn september. Við það tækifæri flutti hljómsveitin Dúndurfréttir plötuna í heild sinni fyrir fullum Eldborgarsal í Hörpu og heppnaðist einstaklega vel. Nú ætla Dúndurfréttir að koma með þetta sama prógramm á Græna hattinn í kvöld, föstudagskvöldið 31. janúar og flytja plötuna í heild sinni ásamt öðrum sérvöldum Bítlalögum.

Come Together, Something, Here comes the sun, Golden Slumbers og öll hin frábæru lögin. „Andi fortíðar mun svífa yfir þetta kvöld og strákarnir lofa einstakri skemmtun og eftirminnilegu kvöldi í faðmi tónlistar Bítlanna,“ segir um tónleikana. Sérstakir aðstoðarmenn og hljóðfæraleikarar þetta kvöld verða þeir Haraldur V. Sveinbjörnsson og Helgi Reynir Jónsson.

Tónleikarnir hefjast kl. 22.00. Á laugardagskvöldinu 1. febrúar verða Dúndurfréttir aftur á ferðinni á Græna hattinum og munu spila klassíska rokktónlist úr fortíðinni. Pink Floyd, Led Zeppelin, Deep purple, Uriah Heep, Kansas, Queen, Bítlarnir og meira og fleira. „Fagnaðu nýju ári og komdu með í tímaferðalag um lendur tónlistarinnar á Græna hattinum,“ segir um tónleikana. Rokkveislan hefst kl. 22.00.

 


Athugasemdir

Nýjast