Bílaleiga Akureyrar-Höldur Óvissa með ferðasumarið en sleppur að líkindum til

Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar-Hölds.
Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar-Hölds.

„Ég er ekki svartsýnn en það eru blikur á lofti og ákveðið áhyggjuefni hvernig sumarið lítur út,“ segir Steingrímur Birgisson forstjóri Bílaleigu Akureyrar-Hölds. Hátt vaxtastig í landinu og hversu dýrt landið sé orðið auk þess sem amk í vetur bar á misskilningi hjá ferðalöngum um stöðu á Íslandi vegna jarðhræringa setja strik í reikninginn.

Steingrímur segir árið hafa farið nokkuð vel af stað og fyrstu fjórir til fimm mánuðir þessa árs eru örlítið betri en var fyrir sama tímabili í fyrra. Maí hafi sem dæmi komið betur út í bókunum inná sumarið en sami mánuður í fyrra. „Það voru fleiri ferðamenn hér um slóðir, bæði erlendir og innlendir en búist var við þannig að veturinn var nokkuð góður,“ segir hann.

Vinnum fyrir bankana

Óvissa sé hins vegar uppi á teningnum varðandi sumarið, það virðist fara af stað í meiri rólegheitum en tvö undangengin sumur. Raunar var óvenjum mikið að gera þá, bæði sumarið 2022 og 2023, en þau ár voru í hópi þeirra bestu í rekstri fyrirtækisins. Vextir höfðu hins vegar afar neikvæð áhrif á afkomuna í fyrra, fyrirtækin finni  vel fyrir þeim gríðarháu vöxtum sem gildi hér á landi. „Það er nú gjarnan gripið til þess orðalags að við séum að vinna fyrir bankana,“ segir hann. Háir vextir hafi áhrif á heimilin, fyrirtækin og andlega heilsu fólks „og eru að mínu mati komnir langt uppfyrir velsæmismörk og stuðla í raun að aukinni verðbólgu.“

Bókað með skemmri fyrirvara og styttri dvöl

Steingrímur segir að talsvert sé um ferðafólk en það virðist stoppa skemur en áður. „Fólk sem heimsækir Ísland er að bóka með skemmri fyrirvara og hefur stytt ferðir sínar. Það eru efnahagserfiðleikar víðar en hjá okkur, þó vextir séu  hvergi jafn háir og hér. Það eru ákveðnir erfiðleikar í Evrópu , en það skiptir líka máli að í lok liðins árs og byrjun þessa var eins og margir teldu að neyðarstig væri á öllu landinu út af jarðhræringunum á Reykjanesi og hefur ef til vill dregið úr bókunum  af þeim sökum. Nú virðist vera að skila sér betur að það sé óhætt að heimsækja landið og það er gott.“

 Steingrímur nefnir að því sé ekki að neita að Ísland sé orðið dýrt land og margir þurfi að hugsa sig tvisvar um áður en þeir velja það til að ferðast um. „Það er ekki ólíklegt að umsvif ferðaþjónustunnar verði minni nú í sumar en undanfarin tvö sumur amk eins og staðan er núna en á móti kemur að með skemmri bókunarfyrirvara sbr í vetur,  þá bindum við vonir við að þetta rétti aðeins úr kútnum, ég ætla að minnsta kosti að leyfa mér að lifa í þeirri trú og horfa bjartsýnn inní snjóhvítt sumarið,“ segir Steingrímur.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast