Bættu við miðnætursýningu vegna eftirspurnar

Arnþór Þórsteinsson lofar miklu stuði. Myndir: aðsendar
Arnþór Þórsteinsson lofar miklu stuði. Myndir: aðsendar

Tónleikasýning á söngleiknum vinsæla Hárinu verður í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri á morgun laugardag. Sýningin verður aðeins sýnd þetta eina kvöld en annarri sýningu var bætt við vegna eftirspurnar. Sú fyrri hefst klukkan 20 en sú síðari kl 23. Þetta er fyrsta sýning Rún viðburða sem er nýtt viðburðafyrirtæki á Akureyri. 

Arnþór Þórsteinsson úr dúettnum Jónas Þór og Arnþór er einn sjö leikara sem taka þátt í sýnigunni. Hann segir í samtali við Vikublaðið að  áherslan í sýningunni sé á tónlistina sem söngleikurinn er hvað þekktastur fyrir.

Leikstjóri sýningarinnar er Aníta Ísey Jónsdóttir, tónlistarstjóri Guðjón Jónsson og framleiðandi fyrir hönd Rún viðburða er Jónína Björt Gunnarsdóttir. Kór sýningarinnar er Sönghópurinn Rok. Á sviðinu verða sjö leikarar, fimm manna hljómsveit og tíu manna kór.

Hárið

 Pressa á lokametrunum

Arnþór sagði í samtali við Vikublaðið í byrjun vikunnar að æfingar væru á lokametrunum og áhugi á sýningunni sé framar vonum. „Við bættum við annarri sýningu en fyrri sýningin er að verða uppseld. Það var bara skellt í aðra klukkan 23, miðnætursýning sem verður gríðarleg stemmning,“ sagði hann.

Arnþór sagði að það hafi verið áskorun að æfa fyrir sýninguna þar sem leikarar hafi verið dreifðir um allt land en nú séu allir saman komnir og allt að smella saman. „Nú eru  æfingar í fullum gangi, við erum inni í Hofi að fínpússa þetta. Við erum búin að vera svolítið dreifð um landið hingað til og það er pressa núna síðustu dagana að púsla þessu saman,“ segir hann og bætir við að allt gangi vel enda hafi sýningin verið í undirbúningi í langan tíma.

 Loksins loksins!

Arnþór

Sýningin átti upphaflega að fara fram í ágúst á síðasta ári en var frestað vegna sóttvarnaaðgerða. „Við höfum náttúrlega haft tímann fyrir okkur því það er búið að fresta þessu einu sinni og því  búið að vera í pípunum í langan tíma. Fólk hélt þá bara miðunum sínum eða fékk endurgreitt ef því var að skipta,“ útskýrir Arnþór og bætir við að sýningunni hafi reyndar verið frestað öðru sinni en þá hafi hún ekki verið komin í sölu. Hann lofar brjálaðri stemmningu og fjöri á laugardag. „Bandið er komið í hús og allir leikarar. Þetta er hrikalega gaman.“

 Mikið í sýninguna lagt

Margir þekkja Hárið vel enda hefur söngleikurinn oft verið sýndur á Íslandi og þar á meðal í  Hofi  fyrir nokkrum árum. Sýningin á laugardag er sérstök tónleika sýning en ekki söngleikurinn þekkti í heild sinni. „Þetta er tónleika uppfærsla en það er samt stiklað á stóru úr söngleiknum þannig að söguþráðurinn heldur sér og það nokkuð um leikin atriði í sýningunni, þó áherslan sé á tónlistina. Þetta verður mikið „show“ enda eru frábærir söngvarar í sýningunni og við vonum að leikurinn rími við það.  Svo er hörku band og dansar, ljósadýrð og alls konar. Það er mikið í þetta lagt,“ segir Arnþór að lokum.

Auk Arnþórs leika þau Guðný Ósk Karlsdóttir, Ívar Helgason, Jónína Björt, Þórdís Björk, Hafsteinn Vilhelmsson og Árni Beinteinn í sýningunni.

 


Nýjast