Áhyggjur af plássleysi leikskólabarna

Rými fyrir hvert barn á leikskólum Akureyrar er of lítið.
Rými fyrir hvert barn á leikskólum Akureyrar er of lítið.

Leikskólastjórar á Akureyri hafa sent bréf til bæjaryfirvalda þar sem líst er yfir áhyggjum af plássleysi í leikskólum bæjarins. Bréfið er stílað á fræðslustjóra Akureyrarbæjar og skorað á bæinn að fara í tafarlausar úrbætur. Undir bréfið skrifa leikskólastjórar átta leikskóla á Akureyri.

Í bréfinu segir að í ljósi þess að Akureyrarbær leggi áherslu á að vera barnvænt og heilsueflandi samfélag telji leikskólastjórar mikilvægt að ákveðnir þættir varðandi starfsemi leikskóla bæjarins séu endurskoðaðir.

„Undirritaðar hafa áhyggjur af því hversu lítið leikrými hverju barni er ætlað í leikskólum bæjarins. Plássleysið hefur, að okkar mati, áhrif á þætti eins og geðtengsl, einbeitingu, kvíða, félagsþroska og málþroska barna. Mikilvægt er að gera breytingar á skilgreiningu rýmis hið fyrsta,“ segir í bréfinu.

Í dag er sá fjöldi fermetra sem skilgreindur er sem leikrými fyrir hvert barn í leikskólum Akureyrarbæjar of lítill að mati fagfólks. Þetta hafi áhrif á námsumhverfi barnanna. Telja leikskólakennarar eðlilegt að fermetrafjöldi hverrar deildar sé skilgreindur í samræmi við fjölda barna þannig að ætlaðir séu að minnsta kosti 3,5 fermetrar til leiks fyrir hvert barn óháð sameiginlegum rýmum. Leikskólastjórar kalla eftir því að fræðsluráð skoði með fullri alvöru stöðu leikskólans hvað varðar aukið leikrými á hvert barn. „Mikilvægt er að þessir þættir verði settir í forgang við vinnu í skipulagi og framtíðarsýn, leikskólum Akureyrarbæjar til heilla.“

Málið var tekið til umfjöllunar á síðasta fundi fræðsluráðs þar sem segir að vinna sé hafin við afla gagna um rými í leikskólum.Fræðsluráð hefur falið sviðsstjóra fræðslusviðs að vinna málið áfram


Nýjast