Afmælisthátíð Listasafnsins á Akureyri Fimm nýjar sýningar opnaðar

Listasafnið í Gilinu
Listasafnið í Gilinu

Listasafnið á Akureyri fagnar  30 ára afmæli nú um komandi helgi, dagana 25.-27. ágúst.

Afmælishátíðin hefst í sal 11 á föstudagskvöldinu kl. 22 með tónleikum tékkneska oktettsins HLASkontraBAS. Blásið verður til mikillar listahátíðar á laugardaginn kl. 15 þegar fimm nýjar sýningar verða opnaðar í safninu. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flytur ávarp ásamt Ásthildi Sturludóttir, bæjarstjóra á Akureyri, og Hlyni Hallssyni, safnstjóra.

Á samsýningunni Hringfarar má sjá verk Guðjóns Ketilssonar, Sólveigar Aðalsteinsdóttur, Elsu Dórótheu Gísladóttur og Guðrúnar Hrannar Ragnarsdóttur, en einnig verða opnaðar einkasýningar með verkum Brynhildar Kristinsdóttur, Drafnar Friðfinnsdóttur, Melanie Ubaldo og Katrínar Jósepsdóttur – Kötu saumakonu. Allar sýningarnar hlutu styrk úr Safnasjóði. Fjörmikil dagskrá verður á Listasafninu fram á kvöld, sem verður opið til kl. 23 í tilefni dagsins, með listamannaspjalli, tónleikum, gjörningi, uppákomum og bollaleggingum um sýningar.

Á sunnudaginn verður boðið upp á leiðsögn á klukkutíma fresti um sýningar safnsins. Dagskráin hefst kl. 11 með fjölskylduleiðsögn og smiðju um samsýningu norðlenskra myndlistarmanna, Afmæli,sem var opnuð í byrjun júní, og lýkur með leiðsögn um sýningu á verkum Drafnar Friðfinnsdóttur, Töfrasproti tréristunnar, kl. 16. Ókeypis er inn á alla viðburði Listasafnsins um afmælishelgina.

 


Athugasemdir

Nýjast