Ætla sér stóra hluti í framleiðslu á innlendu efni fyrir vefinn

Jóhanna og Örlygur. Mynd/aðsend
Jóhanna og Örlygur. Mynd/aðsend

Hjónin Jóhanna Ásdís Baldursdóttir og Örlygur Hnefill Örlygsson, hóteleigendur á Húsavík keyptu í vikunni allan búnað úr þrotabúi fjölmiðlafyrirtækisins N4 ehf. en félagið óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í byrjun febrúar sl. eins og greint hefur verið frá.

Jóhanna

Að sögn Örlygs hafa þau hjónin bæði mikinn áhuga á kvikmynda og sjónvarpsgerð og hafa um nokkurra ára skeið framleitt þætti og kynningarefni undir merkjum Film Húsavík.

„Maður tekur ekki svona ákvörðun einn. Það var Jóhanna sem ýtti meira á að við gerðum þetta en við höfum verið að vera búa til alls konar vídeó um nokkurt skeið,“ segir Örlygur í samtali við Vikublaðið. Hann bætir við að Film Húsavík hafi komið að ýmsum verkefnum á undanförnum árum, m.a. Óskarsherferðinni í tengslum við Netflixmyndina Fire Saga. Auk þess að framleiða efni rekur Film Húsavík leigu á upptökubúnaði og eru uppkaupin á eignum N4 liður í að útvíkka þá starfsemi. Kaupin séu þó fyrst og fremst hugsuð til að koma á fót fullkomnu upptökustúdíói á Húsavík.

„Við erum að fara setja upp lítið stúdíó sem verður ágætlega tækjum búið og hugsun okkar er sú að framleiða þætti og halda úti dagskrárgerð hér á svæðinu. Við erum ekki að fara í loftið með sjónvarpsstöð, það er ekki landslag til þess núna og kannski verður það aldrei aftur,“ útskýrir Örlygur og bætir við að vefsjónvarp sé raunhæfari kostur.

„Við teljum að það sé hægt að framleiða þætti sem fara á netið og framleiða efni eftir pöntunum fyrir áhugasama,“ segir Örlygur sem kveðst vera ræða við aðila á Norðurlandi um aðkomu og samstarf.

„Mér hefði þótt synd ef þessi tæki og búnaður hefði horfið af nærsvæðinu. Þessi stöð var vel tækjum búin, þau höfðu verið að „gíra“ sig upp á síðustu árum með flottum græjum. Ég hugsa að þetta verði ein besta aðstaðan af þessu tagi utan höfuðborgasvæðisins sem við erum að koma upp hérna,“ segir Örlygur.

„Við keyptum af þrotabúinu allan búnað sem stöðin átti, í raun allt nema nafnið og dagskrárefnið. Svo erum við búin að ræða við ýmsa aðila á Norðurlandi um samstarf, m.a. Ingimar Björn Davíðsson frá Akureyri,“ segir Örlygur en Ingimar starfað undan farin ár sem tæknistjóri í útsendingum í Bandaríkjunum . Hann hefur m.a. séð um stórar útsendingar hjá ESPN sjónvarpsstöðinni.

„Við erum að skoða það að búa til einhvern flottan hóp í kringum þetta. Ég sé það ekki fyrir mér að þetta verði endilega aðalstarf en meira svona hliðarbúgrein. Vonandi eitthvað í anda leikfélagshugsjónarinnar. Hópur fólks að búa til skemmtilegt og áhugavert efni. Nú er ég að setja upp leikhúsið og þá þarf bara að finna eitthvað til að setja á fjalirnar,“ segir Örlygur að lokum.

Ölli


Athugasemdir

Nýjast