Aðeins fleiri rakadagar í júlí

Mynd/Bjór.
Mynd/Bjór.

Veðurklúbbur Dalbæjar á Dalvík hefur sent frá sér veðurspá fyrir júlí eftir fjölmennan fund á dögunum.

Í fundargerð kemur fram að veðurfræðingar Dalbæjar séu nokkuð sammála um að júlíveðrið verði með svipuðu móti og það sem júní hafði upp á að bjóða; en þó með eitthvað fleiri vætudögum og lægra hitastigi.

„Komum okkur þá að veðurspá klúbbsins, en þrátt fyrir óvenju fjölmennan fund núna og fleiri leiðir til veðurspár en oft áður þá voru félagar samt að langmestu leyti sammála um komandi júlí veður, nefnilega að mestu leyti svipaðan júlí og júní var en kannski með aðeins fleiri raka dögum og pínu minni hita hérna hjá okkur heldur en júní veðrið veitti,“ segir í fundargerð.

Þá var veðurfarið það sem af er júní til umræðu á fundinum og það sem helst var fundið að veðurfarinu var þurrkur.

„Eftir dásamlegan júnímánuð hérna á stór Dalvíkursvæðinu þá var það helst sólbruni og almennt hitaslen eftir undanförnu sjóðheitu sólardagana sem truflaði fundarstörf, en við redduðum því að vanda með svaladrykkjum til að virkja og væta betur raddböndin svo allir gætu komið sínu til skila,“ skrifaði ritari fundarins og hélt áfram:

„Við veltum fyrir okkur hvort undanfarin júní hafi mögulega verið óvenju þurr og sólríkur, en þess ber að geta að það var Skagfirðingur sem velti þeim spurningum upp og því ekki endilega víst að hann þekki svona veðurblíðu úr sínum gömlu heimahögum frekar en Mýramenn til dæmis.“

Klúbbmeðlimir Dalbæjar hafa notast við alls konar þjóðlegar aðferðir við að spá fyrir um veður, aðferðir sem gefist hafa vel í gegnum aldirnar.

„En að þessu sinni fengum við í viðbót við lestur í ný tungl, tilfinningar og fleira, spá frá annars konar spákonu sem við vonum að komi áfram á fundi með sínar upplýsingar,“ segir í fuundargerðinni.

Hvernig sem að komið er
Fyrir sumum svæðum
Þá ylur um mig allan fer
Svo svifta þarf mig klæðum.
Höf. Bjór.
 ---
Komið nú hingað og kíkið
Í dásemdar dalanna ríkið
Það er ekki galið
Þó um það þið talið
Og dýrðinni hérna þið flíkið.
Höf. Bjór.

---

Að lokum vildu veðurfræðingar Dalbæjar koma á framfæri beiðni til lesenda:

„Endilega sendið okkur skemmtilegar veðurvísur sem við gætum fengið að nota með fundargerðunum svo hirðskáldið sé ekki eitt um að það og síkreistandi úr sér einhvern leirburð.“

Á fundinn þar sem júlíspáin var rædd voru eftirfarandi mætt:

Mætt voru, Haukur Haraldsson, Bergur Þór Jónsson, Hörður Kristgeirsson, Magnús Gunnlaugsson, Jón Garðarsson, Guðrún Ágústa Ólafsdóttir, Ásgeir Stefánsson, Sigríður Björk Hafstað, Guðrún Skarphéðinsdóttir, Þorgerður Sveinbjarnardóttir, Sigurlaug Gunnlaugsdóttir, Kristján Loftur Jónsson og Þóra Jóna Finnsdóttir.


Athugasemdir

Nýjast