Að læra að bjarga sér með takmörkuð úrræði

Jóhanna Klausen Gísladóttir (Nanna) svæfingahjúkrunarfræðingur á SAk      Mynd sak.is
Jóhanna Klausen Gísladóttir (Nanna) svæfingahjúkrunarfræðingur á SAk Mynd sak.is

Á vef SAk er að finna afar fróðlegt viðtal við Jóhönnu Klausen Gísladóttur en hún starfar sem  svæfingahjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu .  Jóhanna hefur tvisvar sinnum heimsótt Gambíu og starfað þar við hjálparstörf og hugur hennar er til þess að gera það að árlegum viðburði hér eftir. 

Viðtalið kemur svo hér  á eftir:

„Verkefnið fólst fyrst um sinn að leggja mat á störf þeirra sem vinna á heilsugæslunni Kubuneh í Gambíu og sjá hvort eitthvað mætti betur fara. Það var mjög lærdómsríkt og fljótlega sáum við að það var hægt að gera betur þrátt fyrir starfsfólkið væri svo sannarlega að gera sitt besta með sína menntun og úrræði.“

Hjónin Daði Pálsson og Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir frá Vestmannaeyjum reka heilsugæslustöðina í Kubuneh í Gambíu. Daði er frændi Nönnu og hún hefur fylgst með þeim hjónum frá upphafi verkefnisins: „Daði og Þóra eru bara venjulegt fólk frá Vestmannaeyjum sem langaði að láta gott af sér leiða og þau hafa svo sannarlegt gert það. Heilsugæslan er rekin af góðgerðarfélagi Daða og Þóru Allir skipta máli. Daði og Þóra reka einnig Kubuneh verslun í Vestmannaeyjum, sem er glæsileg hringrásarverslun. Þangað kemur fólk með notaðan fatnað og muni sem eru seldir áfram og hagnaðurinn fer til reksturs heilsugæslunnar í Kubuneh. Í versluninni starfa aðeins sjálfboðaliðar, Daði og Þóra eiga húsnæðið og reka það sjálf, svo hver króna sem kemur inn í verslunina fer óskert út til Kubuneh.“

Nanna hafði mikinn áhuga á að leggja þeim lið og sem hjúkrunarfræðingur gagnaðist hennar nám og reynsla til að fara yfir faglegt starf á heilsugæslunni. Þá óskaði Þóra einnig eftir því að Nanna hefði upp á lækni til að taka með sér út og það varð úr að Arngrímur Vilhjálmsson, heimilislæknir og vinur Nönnu, stökk á þetta einstaka tækifæri. Þau fóru fyrst árið 2022 í 10 daga ferð og í fyrra fóru þau í 2 vikur.

„Strax í fyrstu ferðinni settum við fram hugmyndir að bættu verklagi og komum þeim í framkvæmd. Það verkefni er svo í stöðugri þróun en það er ljóst að það eru ótrúlega margar takmarkanir og hindranir þar sem heilbrigðiskerfið í Gambíu er gjörólíkt því sem við erum vön. Við erum samt ekki bara að reyna að kenna þeim þarna úti, heldur lærum við líka ótrúlega margt því oft þurfa þau að reyna að bjarga sér með mjög takmörkuð úrræði,“ segir Nanna

Ekkert staðlað nám fyrir hjúkrunarfræðinga í Gambíu

Í Gambíu eru 284 skráðir læknar en íbúar um 2,5 milljón. Hjúkrunarfræðingar eru fleiri en það er ekkert eitt staðlað nám í boði fyrir hjúkrunarfræðinga, því er mjög mismunandi hvaða þekkingu þeir öðlast með sinni menntun. Á heilsugæslunni í Kubuneh starfar enginn læknir en þrír hjúkrunarfræðingar. Upptökusvæði heilsugæslunnar telur 12 – 15.000 manns. Hjúkrunarfræðingarnir starfa eftir klínískum leiðbeiningum, gera skoðanir, gera að áverkum og ávísa lyfjum. Þá vísa þau sjúklingum sem þau geta ekki hjálpað áfram á stærri heilsugæslur og sjúkrahús.

„Fólk þarf oft að ferðast langar leiðir og bíða í marga daga eftir bráðaþjónustu. Það eru margir sem lifa það ekki af. Í Gambíu er mikil spilling á öllum stigum þjóðfélagsins og fólk treystir ekki á heilbrigðiskerfið. Við höfum margoft lent í því að vísa fólki áfram á sjúkrahús vegna alvarlegra veikinda en fólk kýs að fara ekki. Það er eitthvað sem við þekkjum ekki hér heima. Þjónustan getur reynst fólki mjög kostnaðarsöm, en það sem er dýrt fyrir íbúa í Gambíu eru ekki háar fjárhæðir fyrir okkur,“ segir Nanna.

Venjulegur dagur í starfi hjúkrunarfræðings í hjálparstarfi í Gambíu

06:00

Sameiginlegur morgunmatur í Banjul, höfuðborg Gambíu.

07:00

Bílferð inn í þorp, 1-1,5 klukkustund – fer eftir umferð og götulokunum.

08:00

Vaktin hefst á heilsugæslunni. Mest að gera á morgnanna. Helstu vandamál: ormasýkingar, öndunarfærasýkingar, malaríusýkingar, húðsýkingar og sár. Sinnum 30-50 komum á hverjum degi.

20:00

Haldið aftur í höfuðborgina.

21:00

Sameiginlegur kvöldverður.

22:00

Umræður um það sem gerðist þann daginn og næsti dagur skipulagður.

23:00

Skrásetning fyrir Instagram #addiognanna

24:00

Háttatími.

Spillingin meiri en hún gerði sér í hugarlund

Óhefðbundnir dagar fóru m.a. í að gera starfsumhverfið á heilsugæslunni betra, fara um þorpið að heimsækja styrktarbörn og heimili, fara inn í borg að reyna að útvega það sem vantaði á heilsugæsluna og skoða aðrar heilbrigðisstofnanir. „Ég taldi mig vera nokkuð vel undirbúna áður en ég fór út. Ég hafði gert mér grein fyrir því að það er mikil fátækt þarna úti en hún er samt miklu meira áberandi hvert sem maður horfir eða fer. Það kom á óvart hversu mikið rusl er úti um allt. Það er mjög fallegt í Gambíu en þar sem fólk fer um - þar er rusl. Spillingin er einnig miklu meiri en ég hafði gert mér í hugarlund. Gambíska ríkið rekur sjúkrahús og heilsugæslustöðvar en það er ljóst að það fer mjög takmarkað fjármagn í rekstur þeirra og viðhald. Það eru ekki til lyf, sprautur, nálar og jafnvel ekki plástrar eða grisjur á þessum stöðum. Sjúklingar koma því inn á heilbrigðisstofnun með vandamál og fá lista yfir það sem þeir þurfa að kaupa til þess að fá meðferð. Þá þurfa sjúklingar að finna einhvern til að fara í næsta apótek og versla fyrir sig það sem til þarf, ef þeir hafa efni á því. Heilsugæslan í Kubuneh er því einstök í landinu að því leyti að við sjáum til þess að þar séu alltaf til vörur og lyf sem starfsfólkið okkar þarf til þess að geta sinnt vinnunni sinni,“ segir Nanna.

Fyrir utan að sinna sjúklingamóttöku og sáramóttöku og endurkomum tók Nanna þátt í fræðsluverkefni fyrir ungar stelpur um kynþroska, blæðingar og kynheilbrigði sem þykir brýnt verkefni. Einnig hefur hún haldið eftirfylgni við sjúkling áfram á Íslandi sem glímdi við erfitt fótasár.

„Í Gambíu hef ég séð heilbrigðisvandamál sem við sjáum nær aldrei á Íslandi og það var lækdómsríkt að sjá hvernig aðrir hjúkrunarfræðingar starfa við skort og neyð. Það sem hefur þó fylgt mér heim og nýtist í starfi er aukin þolinmæði, betri útsjónarsemi, aukinn skilningur á mismunandi aðstæðum sjúklinga; fátækt og mismunandi trúarbrögðum. Það eru örugglega fleiri þættir sem fylgja sem gera mig að betri hjúkrunarfræðingi og manneskju,“ segir Nanna.

Gott að gera gagn

Nanna segir að þau séu ekki í hættu við störfin sín en umferðin sé lífshættuleg: „Það er töluverður ágangur í ferðamenn frá heimamönnum, þeir elta fólk og betla. Við höfum tamið okkur að útskýra stuttlega að við séum stödd í Gambíu við hjálparstörf og fáum yfirleitt frið. Við höfum aðeins tvisvar lent í smávægilegum atvikum þar sem manni var kannski ekki alveg sama. Við pössum okkur á því að vera ekki ein á ferð.“

Þó svo að hún hafi oft upplifað það að vera vanmáttug og buguð yfir því að geta ekki sinnt sjúklingum úti sem hún gæti auðveldlega hjálpað heima á Íslandi þá hefur hún aldrei viljað gefast upp: „Við finnum alltaf að við gerum gagn en við þurfum reglulega að minna okkur á að við getum ekki bjargað öllum. Maður upplifir allskonar tilfinningar úti, fer allan tilfinningaskalann.“

Ótrúlega gefandi að taka þátt í svona verkefni

Nanna segir það hafa verið erfitt að koma aftur heim og skilja við fólkið sitt í Kubuneh, starfsfólkið á heilsugæslustöðinni sé ekki bara vinir heldur fjölskylda sem hún haldi sambandi við þegar hún er heima. Henni finnst það ekki góð tilfinning að skilja fólk eftir í óviðunandi aðstæðum og hálfgerðu vonleysi: „Það er svo aftur á móti líka drifkrafturinn, að halda áfram að fara út og bæta ástandið með þeim hætti sem við getum. Ég hef upplifað mikla reiði út í heilbrigðiskerfið í Gambíu og alla þessa spillingu, en mitt verkefni liggur ekki í því að sigra þá baráttu. Það er fyrst og fremst ótrúlega gefandi að fá að taka þátt í svona verkefni, koma þekkingu minni áfram og upplifa að ég geri gagn í erfiðum aðstæðum. Ég er mjög þakklát fyrir þetta tækifæri og hvet alla til að skoða starf Allir skipta máli í Gambíu. Þau reka ekki bara heilsugæsluna heldur eru að vinna að fjölmörgum öðrum áhugaverðum og mikilvægum verkefnum í Kubuneh. SAk hefur aftur á móti styrkt verkefnið með því að gefa mér launað frí frá störfum hluta af tímanum sem ég er úti. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir starfið og erum við mjög þakklát fyrir þennan stuðning.“

Nanna mælir hiklaust með því að fara í hjálparstarf. Hjálparstarfið sem hún sinnir sé vissulega bara lítill hópur sem fer saman á lítinn stað en það eru mörg önnur spennandi verkefni í boði s.s. Læknar án landamæra, Rauði krossinn og Unicef: „Þegar við vorum úti síðast, hittum við sænska hjúkrunarnema sem voru að taka verknámið sitt í bráðahjúkrun úti. Ég hvet því háskólanema til þess að skoða möguleika hjá sínum skóla á skiptinámi.“


Athugasemdir

Nýjast