Að kæra ofbeldi er annað áfall

Karen Birna er vísindamaður mánaðarins.
Karen Birna er vísindamaður mánaðarins.

Karen Birna Þorvaldsdóttir er doktorsnemi við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Rannsóknir hennar snúa að hjálparleit eftir að hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi.„Ein af mínum fyrstu rannsóknum var að kanna reynslu íslenskra kvenna af því að kæra nauðgun. Í ljós kom að þátttakendur upplifðu það að kæra ofbeldið sem annað áfall ofan á hitt og bentu niðurstöðurnar til þess að langt væri í land að réttarvörslukerfið hér á landi gæti talist brotaþolavænt og áfallamiðað,“ segir Karen Birna.

Vann að umbótaverkefni í þágu þolenda kynferðisbrota

Í framhaldi af þeirri rannsókn tók Karen Birna þátt í verkefni í þágu þolenda kynferðisbrota á vegum Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, SAk, HSN, Héraðssaksóknara og HA. Verkefnið snéri að því að veita þolendum kynferðisbrota sálfræðiaðstoð eftir skýrslutöku hjá lögreglu og að breyttu fyrirkomulagi varðandi hvernig brotaþolum er tilkynnt um niðurfellingu máls.

Í doktorsverkefninu er Karen Birna að rannsaka hvað það er sem annars vegar hindrar og hins vegar stuðlar að því að þolendur ofbeldis í nánu sambandi á Íslandi leiti sér hjálpar. Núna er Karen Birna þó ekki að horfa til þess þegar þolendur leita til réttarvörslukerfisins heldur þegar þeir leita sér hjálpar vegna áfallsins, til þess að vinna úr sinni reynslu og öðlast bætta líðan og heilsu.

Karen Birna

Afinn var fyrsti Fulbright styrkþeginn

Karen Birna tekur hluta af doktorsnáminu við University of Michigan í Bandaríkjunum og er nýkomin til landsins eftir hálfs árs rannsóknardvöl við þann háskóla. Til þess hlaut hún Fulbright styrk og dvaldi við Michigan Mixed Methods rannsóknarstofnunina sem er í fremstu röð í heiminum. „Það er gaman að segja frá því að langafi minn var fyrsti íslenski Fulbright styrkþeginn og núna rúmlega 60 árum seinna varð ég ásamt tveimur öðrum konum fyrstu íslensku styrkþegarnir til þess að hljóta Fulbright styrk til rannsóknardvalar sem doktorsnemar“, segir Karen Birna.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að fara í doktorsnám við Háskólann á Akureyri?

„Ég vildi halda áfram að sérhæfa mig á sviði sálrænna áfalla og ofbeldis en við HA er mikil sérþekking á því sviði. Doktornámið er verkefnamiðað og í þverfræðilegu umhverfi sem mér fannst spennandi.

Hvaðan er Karen Birna?

Karen Birna er fædd árið 1993 á Akureyri en ólst upp fyrstu árin á Ólafsfirði og seinna á Brekkunni á Akureyri. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2013 og þaðan lá leið hennar í Háskólann á Akureyri. Karen Birna útskrifaðist árið 2017 með BA gráðu í sálfræði og kláraði meistarapróf í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi frá HA árið 2019. Sama ár hóf hún doktorsnám í heilbrigðisvísindum við HA. Hún hefur kennt við háskólann sem stundakennari frá árinu 2019, situr í stjórn Rannsóknamiðstöðvar gegn ofbeldi við HA og er varamaður í stjórn Bjarmahlíðar – miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis.


Athugasemdir

Nýjast