88 brautskráðust frá VMA

Áttatíu og átta nemendur voru brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í …
Áttatíu og átta nemendur voru brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í dag Mynd Páll A. Pálsson

Áttatíu og átta nemendur voru brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í dag. Sjö nemendur brautskráðust með tvö skírteini og því voru afhent níutíu og fimm brautskráningarskírteini. Alls hefur skólinn útskrifað á þessu almanaksári 271 nemanda með 304 skírteini en 183 nemendur með 209 skírteini voru útskrifaðir í vor sem var ein stærsta útskrift í sögu VMA.

Brautskráningarnemar

Skipting brautskráningarnema á brautir var sem hér segir:

Félags- og hugvísindabraut 2
Fjölgreinabraut 6
Íþrótta- og lýðheilsubraut 3
Listnáms- og hönnunarbraut 3
Náttúruvísindabraut 1
Viðskipta- og hagfræðibraut 3
Sjúkraliðabraut 6 (þar af 4 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Meistaranám 24
Húsasmíði 9
Rafeindavirkjun 16 (þar af 2 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Rafvirkjun fyrir vélfræðinga 8
Rafvirkjun 1 (einnig með viðbótarnám til stúdentsprófs)
Málmsuða 1
Stálsmíði 2
Viðbótarnám til stúdentsprófs 3

Blómvendir – tónlistaratriði – ávarp brautskráningarnema

Við brautskráninguna fengu að vanda blómvendi frá skólanum þeir nemendur í hópi brautskráningarnema sem hafa lagt sitt af mörkum í félagslífi á námstíma sínum. Þeir eru Aþena Marey Ingimarsdóttir, Sara Dögg Sigmundsdóttir, Stormur Karlsson, Ásta Sóley Hauksdóttir og Rakel Anna Borgarsdóttir.
Tvö tónlistaratriði við útskriftina voru í höndum Egil Loga Jónassonar sem útskrifaðist í dag úr rafeindavirkjun. Egill er tónlistar- og myndlistarmaður sem semur, flytur og gefur út eigin tónlist undir listamannsnafninu Drengurinn fengurinn.
Ávarp brautskráningarnema flutti Sara Dögg Sigmundsdóttir sjúkraliði og nýstúdent,

Hlutverk VMA

Í upphafi brautskráningarræðu Sigríðar Huldar Jónsdóttur skólameistara VMA ræddi hún m.a. hlutverk skólans. „VMA er eini starfsnámsskólinn á stóru landssvæði, frá Sauðárkróki í vestri að Verkmenntaskóla Austurlands austur í Neskaupsstað. Á þessu svæði eru átta framhaldsskólar þannig að samkeppni um nemendur er töluverð, sérstaklega í námi til stúdentsprófs. Á þessu svæði er nemendafækkun þar sem færri ungmenni eru á svæðinu en áður var.
Það er enginn framhaldsskóli á landinu með eins fjölbreytt námsframboð og VMA fyrir utan Tækniskólann í Reykjavík sem er lang stærsti framhaldsskóli landsins. Í VMA hefur verið metnaður fyrir því að halda í okkar fjölbreytta námsframboð og við oftar en ekki farið af stað með námsbrautir með fámenna nemendahópa, jafnvel þótt við vitum að námið muni líklega ekki standa undir kostnaði. Reiknilíkan fyrir framhaldsskólana tekur ekki tillit til þess þegar fámennir námshópar fara af stað þótt það geti skipt atvinnulíf á svæðinu miklu máli ásamt því að gera fólki kleift að stunda nám í sinni heimabyggð. Hvers virði er það fyrir þetta svæði að útskrifa t.d. stálsmiði, þjóna, kokka, kjötiðnaðarmenn, bifvélavirkja eða sjúkraliða? En allt er þetta nám með fáum nemendum sem farið er af stað með þar sem við teljum það vera hlutverk VMA að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í nærsamfélaginu. Reiknilíkanið fyrir framhaldsskóla tekur ekki tillit til þess virðisauka sem þessar fámennu námsbrautir gefa inn í mannauðinn og atvinnulífið á svæðinu,“ sagði Sigríður Huld.

Hugmyndir um sameiningu framhaldsskóla

Síðan vék skólameistari máli sínu að þeirri miklu umræðu núna á haustönn sem skapaðist um hugmyndir mennta- og barnamálaráðherra um sameiningu eða samvinnu framhaldsskólanna á Akureyri.
„Í umræðunni í haust um sameiningu VMA og MA fór hún því miður út og suður og fjallaði sjaldan um það dýrmæta námsframboð sem er á Akureyri. Sjálf varð ég fyrir miklum vonbrigðum með að sameiningarviðræður hefðu verið settar í bið eða alveg hætt við þær í bili.
Ég gerði mér alveg grein fyrir því að þessi umræða í haust yrði áskorun og ýmis sjónarmið sem þyrfti að taka tillit til og ræða úti í samfélaginu. Því miður komumst við aldrei svo langt að ræða þau tækifæri sem sameining VMA og MA hefði skilað okkur í framúrskarandi skólastarfi.
Sameining VMA og MA hefði getað gefið okkur á þessu svæði tækifæri til að búa til mjög öflugan framhaldsskóla með áherslu á það nám sem þegar er við báða skólana, haldið í fjölbreytileikann í nemendahópnum og náminu ásamt því að styrkja enn frekar námsframboðið. Í sitt hvoru lagi erum við alveg ágæt en saman hefðum við orðið öflugri.
Einhver gæti sagt að öflugt og fjölbreytt námsframboð væri til staðar í báðum skólum og að mörgu leyti er það rétt. En báðir skólar eru að berjast í bökkum með að geta boðið áfram upp á fjölbreytt námsval og tveir skólar eru í samkeppni um sömu nemendurna.
Ég sá tækifæri til þess að einn öflugur framhaldsskóli á Akureyri gæti eflt nám til stúdentsprófs með mismunandi áherslur og leiðir, t.d. með áherslu á heilbrigðisgreinar, íþróttir og heilsueflingu, raungreinar, menningu- og listir, tungumál, frumkvöðlastarf, félagsvísindagreinar, miðlun og tækni. Einn öflugur framhaldsskóli á Akureyri hefur sterkari stoðir og fagþekkingu til að bjóða upp á þá stoðþjónustu sem framhaldsskólum ber að bjóða upp á þannig að velferð nemenda og barna sé í fyrirrúmi.
Öflugur iðn- og starfsnámsskóli stendur ekki einn og sér án bóknáms. Samlegðaráhrifin eru mikil milli stúdentsprófsbrauta og iðn-og starfsnáms. Ef VMA þarf að draga úr námsframboði tengt stúdentsprófsbrautunum þá gæti það haft neikvæð áhrif á iðn- og starfsnámsbrautir með þeim hætti að skólinn sæi sér ekki fært að bjóða upp á eins fjölbreytt iðn- og starfsnám eins og núna. Það var engin tilviljun á sínum tíma þegar VMA var stofnaður að hér var strax boðið upp á nám til stúdentsprófs, það var ekki bara út af því að skólinn er áfangaskóli heldu líka vegna þeirra samlegðaráhrifa sem bóknám hefur með iðn- og starfsnámi.
Fyrir Akureyri og okkar nærsamfélag felast tækifæri í því starfi sem fer fram í framhaldsskólunum. Öflugur framhaldsskóli smitar út frá sér, t.d. út í Háskólann á Akureyri, fyrirtæki, menningu og listir. Það verður til frjór farvegur fyrir nýsköpun út í samfélaginu og í skólastarfinu.
En því miður tókst pólitíkinni ekki að ná samstöðu um að fara í þær sameiningar sem búið var að boða þar sem átta skólar áttu að verða að fjórum. Í staðinn á að halda áfram að vera með óbreytt kerfi, næstum óbreytta fjármögnun og hætta á að námsframboð í skólum á Akureyri, Suðurnesjunum og á höfuðborgarsvæðinu verði minna. Allir eru settir áfram í samkeppni um sömu nemendurna.
Kynningin á sameiningunum og óraunhæfir útreikningar á sparnaði fóru að sjálfsögðu mjög illa í alla. Líka okkur í VMA. Ég vil ekki sameina skóla þar sem markmiðið er númer 1, 2 og 3 að spara pening. En okkur hefði örugglega tekist betur að nýta það húsnæði, fagþekkingu og fjármagn sem skólarnir hafa núna og þá um leið getað eflt og haldið í okkar dýrmæta námsframboð, fyrir alla nemendur óháð þeirri námsbraut sem þeir eru á. En ekki síður fyrir það samfélag sem við búum í og þær kröfur sem háskólar og atvinnulíf gera til framhaldsskóla.
Þrátt fyrir allt hefur mennta- og barnamálaráðherra hvatt framhaldsskóla til að leita leiða til að auka samstarf og þær hugmyndir sem farið var af stað með í haust halda áfram að vera til innan skólanna og í ráðuneytinu. Ég hef þá trú að skólarnir fái aftur þetta tækifæri til að efla framhaldsskólastarf á Akureyri.“

VMA 40 ára 2024

Sigríður Huld gat þess að Verkmenntaskólinn fagni 40 ára afmæli á komandi ári.
„Á næsta ári, 2024 eru 40 ár frá því að VMA var stofnaður og fyrstu nemendurnir mættu í skólann. Þegar gluggað er í söguna sést að það var ekkert einfalt mál að setja þennan skóla á laggirnar en elja ýmissa aðila hér á Akureyri, í sveitarfélögunum hér í kring og að lokum með stuðningi Alþingis og ráðherra þess tíma varð þessi skóli okkar til. Það var mikið framfaraskref fyrir svæðið að stofna VMA sem varð til þegar framhaldsdeildin við Gagnfræðaskólann á Akureyri, Iðnskólinn á Akureyri, Hússtjórnarskólinn og Vélskólinn sameinuðust undir merkjum VMA. Mikill metnaður var lagður í hönnun skólans og byggingar fóru að rísa á Eyrarlandsholtinu sem þá var eiginlega úti í sveit. Byggingarsaga skólans er orðin löng og því miður margt í hönnun hans ekki lengur í takt við þann nemendahóp og það nám sem nú er í VMA, þó svo að skólahúsnæðið hafi þótt afar framsækið á sínum tíma. Nú er svo komið að byggja þarf við skólann til að koma til móts við aukna aðsókn í iðn- og starfsnám. Búið er að ákveða að fara í hönnun og nýbyggingu við fjóra starfsnámsskóla á landinu og er VMA meðal þeirra skóla. Undirbúningur er hafinn og vonandi verður hægt að taka fyrstu skóflustunguna á afmælisárinu.
Á afmælisárinu 2024 ætlum við að halda vel upp á afmælið með stórum og litlum viðburðum innan og utan skólans. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar og afmælisnefnd verður skipuð í upphafi árs. Verið er að hanna afmælismerki skólans og við ætlum okkur að vera mjög áberandi í umræðunni og úti í samfélaginu.
Við sem störfum og höfum starfað í VMA erum stolt af okkar starfi með nemendum og samstarfsfólki. Við eigum að vera óhrædd við að segja meira frá því og það ætlum við að gera. Fyrrverandi, núverandi og verðandi nemendur okkar er það sem við erum alltaf stoltust af. Sporin sem nemendur marka í skólanum og úti í samfélaginu eru dýrmæt, mikilvæg og breyta heiminum. Við ætlum líka að vera dugleg að segja frá því með stolti.
En sporin sem nemendur skilja eftir sig verða ekki sýnileg ef nemendur fá ekki að dafna í sínu námsumhverfi og þar er stærsta áskorun okkar kennara og stjórnenda í VMA. Kröfur til okkar eru miklar og ábyrgðin mikil. Það að ná til nemenda er ekkert einfalt og kennarar þurfa stöðugt að vera að meta stemninguna í hverjum nemendahópi, finna leiðir sem virka, læra af mistökum, finna áhugavert og krefjandi námsefni og verkefni.
Í heimi sem er sífellt að breytast og áreitin eru mörg er hlutverk kennara afar mikilvægt. En kennarastarfið mun seint hverfa algjörlega inn í heim sjálfvirkni og snjallvæðingu þótt tæknin sé sannarlega að breyta kennsluháttum og skólastarfi. Hvað sem verður þá er það alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi. Þróun í skólastarfi er að færast meira frá ákveðnum og skilgreindum greinum og áföngum yfir í að vera meira í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, kenna meira um alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi og efla jafnrétti í víðum skilningi.“

 Frá þessu er sagt á vma.is


Athugasemdir

Nýjast