62 ára aldursmunur á elsta og yngsta leikara

Frá æfingu. Ljósmynd: Gunnlaug Friðriksdóttir
Frá æfingu. Ljósmynd: Gunnlaug Friðriksdóttir

Á föstudag frumsýnir Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit barna og fjölskyldu leikritið Kardemommubærinn eftir Thorbjørn Egner. Kardemommubæinn þarf vart að kynna fyrir Íslendingum enda hafa líklega flestir, sem komnir eru til vits og ára, séð hann á einhverjum tímapunkti.

Verkið er upprunalega skrifað fyrir barnatíma í norska ríkisútvarpinu og var flutt þar í nokkrum þáttum. Árið 1955 kom sagan svo út á bók með teikningum eftir Egner sjálfan. Þar má sjá útlit bæjarins og persónanna, útlit sem hefur verið haldið í flestum uppfærslum leikritsins síðan. Umhverfi bæjarins hjá Egner er svolítið suðrænt og tímalaust og sótti hann að eigin sögn innblástur til Ítalíu og Tyrklands.

Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins segir í samtali við Vikublaðið að undirbúningur fyrir sýninguna sé nú í hámarki og tilhlökkun allra sem að sýningunni standa sé áþreifanleg.

En eins og svo margoft hefur verið komið inn á þá lifum við á tímum heimsfaraldurs og sú staðreynd hefur vissulega haft áhrif á æfingaferlið.

„Við erum búin að æfa núna í sex vikur en covid er reyndar alveg að fara með okkur. Við höfum ekki verið með fullmannað af leikurum nema í fjórar vikur af sex,“ segir Jóhann og hlær dátt.  „En þetta er bara allt eins og það á að vera. Þetta fer alveg að verða búið, við hljótum að fara nálgast hjarðónæmi,- hérna innan leikhússins alla vega,“ bætir hún við í léttum dúr.

Sýningin er ansi metnaðarfull en alls 26 leikarar taka þátt í uppsetningunni. „Við erum líka með hljómsveit og svo erum við með alla hina. Ég held að við séum að lágmarki 60 sem komum að sýningunni með einum eða öðrum hætti,“ segir Jóhanna og bætir við að um  sannkallaða stórsýningu sé að ræða.

Ólafur Jens Sigurðsson sér um leikstjórn og tónlistarstjórn er í höndum  hann er Guðlaugs Viktorssonar en hann er skólastjóri í Tónlistarskólanum í Hrafnagili. „Þannig að við erum með fullmannaða stórhljómsveit,“ segir Jóhanna og hvetur sem flesta til að verða sér út um miða á sýninguna, það verði engin svikin af henni.

„Þetta er að sjálfsögðu ekta fjölskyldu og barnasýning þar sem yngstu leikararnir á sviði eru 11 ára og sá elsti er 73 ára. Það er 62 ára aldursmunur á elsta og yngsta leikara,“ segir Jóhanna að lokum.


Athugasemdir

Nýjast