11 ára Akureyringur gefur út bók um Tenerife

Ragnheiður Inga Matthísdóttir ásamt móður sinni Snæfríði Ingadóttur.
Ragnheiður Inga Matthísdóttir ásamt móður sinni Snæfríði Ingadóttur.

„Mamma skrifaði bók um Tenerife í fyrra en sú bók fjallaði aðallega um geitaost og gönguferðir, þessi bók er miklu skemmtilegri, og segir frá öllu því sem krakkar hafa gaman af því að gera hér á Tenerife,” segir Ragnheiður Inga Matthíasdóttir, 11 ára Akureyringur sem skrifað hefur handbók um Tenerife í samstarfi við móður sína, Snæfríði Ingadóttur sem ber heitir „Tenerife krakkabókin - Geggjað stuð fyrir hressa krakka.”

Ragnheiður segir að í bókinni séu upplýsingar um það hvar hægt sé að kaupa besta ísinn á eyjunni, hvar skemmtilegustu krakkabúðirnar séu, góð trampólín, dýragarðar, afrófléttur, pöddugos og fleira og fleira.  

„Ég er búin að búa hér í nærri ár og veit því fullt um þessa eyju. Ég er búin að prófa allt sem er í bókinni svo þetta er enginn auglýsingabæklingur heldur alvöru lýsingar á því sem er í boði hérna. Mamma fær líka að skrifa smá en það eru aðallega svona upplýsingar fyrir foreldra.” Þó lífið hafi sannarlega verið ljúft hjá fjölskyldunni á Tenerife í vetur þá styttist í heimferð. „Tenerife er æðisleg en ég elska Akureyri líka svo það verður gott að koma heim,“ segir Ragnheiður.

Tenerife krakkabókin fæst á heimasíðunni lifiderferdalag.is  


Athugasemdir

Nýjast